29.4.06

Urrabíttann!

Stundum þarf ekki annað en einn leiðinlegan kúnna, einn andstyggilegan samstarfsmann eða eitt óskemmtilegt tilsvar frá vini eða velgjörðarmanni, til þess að maður skipti algerlega skapi; úr hvítu í svart, björtu í dimmt, góðu í vont og svo framvegis og framvegis. Það þarf bara eitt óheppilegt atvik og maður er kominn í vont skap, strikið í andlitinu sígur niður á við, maður setur upp skeifu, bognar í framan, fer í fýlu, og öll andúðin á lífinu og tilverunni bitnar á aumingjans fólkinu sem kemur úr rigningunni inn í verslanamiðstöðina til þess eins að ylja sér yfir bókum og reyna að nýta sér þessa blessuðu þjóðargjöf hins nýstofnaða bankaveldis, Glitnis. Helvítis fólk.
En já, sumsé, einn dónalegur kúnni í morgunsárið upphóf hjá mér almenna viðurstyggð á mannkyninu í heild, nægilega mikla til þess að allt sem á undan er gengið hverfur í súld og þokumóðu, verður vart greinanlegt við sjóndeildarhring, í mistrinu, nema kannski einstaka góðir atburðir. Þeir eru nánast einstakir þeir atburðir. Tvístakir(?) kannski, eða þrí-... veit ekki alveg? Og samt ekki stakir því þeir tengjast innbyrðis og eru þessvegna í röð, runu.
En matartíminn fór til fjandans í kjölfarið: sundurleitari matartíma hef ég ekki upplifað síðan jólin 2001, þá var brjálað að gera, of fáar hendur sem unnu of mörg verk, fáir einstaklingar í mörgum hlutverkum.
Og helvítis dónakerlingin í morgun á sök á þessu öllu, ég er viss um það.

28.4.06

Umræða og umfjöllun

Já, nei, stjórnmálaumfjöllun á Íslandi er líklega allt annað en yfirborðskennd, innihaldsrýr og tilgerðarleg.

Viktoría er týnd...

...en mamma hennar heldur áfram að standa í dyragættinni og kalla á hana.

Mig langar að skrifa eitthvað um þessa umræðu sem hefur spunnist um sigurljóð Fréttablaðskeppninnar, en ég ætla ekki að gera það. Ekki til að vera kúl (það er kúl að leiða svona umræður hjá sér) heldur af því að það er eiginlega fátt sem hefur ekki verið sagt. Nema það augljósa.

En ég ætla ekki að vera sá sem bendir á það, það er eitthvað svo kjánalegt.

Þeim sem ekki hafa fylgst með (og eru þarafleiðandi að sjálfsögðu ókúl) bendi ég á þetta og þetta og þetta og þetta. Og enga leti, lesið öll komment! Þetta er fjandi áhugaverð umræða.
Umfjöllun þeirra Eiríks og Ásgeirs um keppnina var góð, og ég stend ennþá fastur á því hvert ljóðanna mér fannst best og þar fram eftir götunum.

Tjörnum þetta!

Það var dimmisjónglaumur í gangi á Austurvelli áðan. Ég sveigði aðeins framhjá vellinum, aðalega af því að ég nennti ekki að pota mér í gegnum þvöguna, sem var ansi þétt. Þegar ég svo var kominn framfyrir Alþingishúsið ruddist hópur stráka framhjá mér. Þeir voru íklæddir appelsínugulum samfestingum, það stóð eitthvað á bakinu sem ég sá ekki hvað var (enda ekki von til þess), og á milli sín báru þeir sæmilegasta gúmmibjörgunarbát.
„Það er Tjörnin!“ hrópaði einn þeirra og benti foringjalega framhjá dómkirkjunni. „Við tökum þetta á Tjörninni, Tjörnum þetta!“

Ómur hversdagsins IX - Baðvatnið

Það hefur verið töluvert um flutninga í húsinu undanfarið. Bæði komnir nýir grannar handan stigagangsins og undir gólfinu mínu. Einhverjir þessara nágranna eiga líka rúm hvers gafl er ekki skorðaður almennilega upp við vegginn.
En áður en grannarnir undir gólfinu fluttu inn hófu þau heilmiklar endurbætur á húsnæðinu sem þau ætluðu að búa í. Þannig að á hverjum morgni hófust hamarshögg og vélsagasurg löngu fyrir þann tíma sem mig langaði til að vakna á. En þetta var víst alltaf á löglegum tíma svo ég má ekki kvarta, skilst mér.
Nema hvað, eitthvað hafa þau tekið pípulagnirnar hjá sér í gegn, og þeirra pípulagnir hljóta eiginlega að tengjast áveitukerfinu í íbúðinni sem ég bý í. Því núna get ég ómögulega farið í sturtu án þess að vatnið sé orðið á við vatn úr goshver, hvað hitastig varðar, áður en ég veit af.
Nema, mér tekst yfirleitt að löðra mig allan í sápu og jafnvel setja sjampó í hárið á mér áður en vatnið rýkur í þetta hitastig.

Þessi Ameríka

Ég hef lengi verið hrifinn af þessu ljóði. Las það fyrst fyrir sjö árum síðan, sem telst nokkuð langt, svona miðað við mig og allt það. En það þýðir samkvæmt almennum reiknisaðferðum að ég hafi verið átján ára þegar ég las það. Unglingur. Barn.
Nema hvað í þessari Afbók er að finna þýðingu þessa manns á því. Það er vel heppnuð þýðing. Mér skilst að til sé önnur eldri sem er ekki jafn góð. Get lítið um það dæmt sjálfur því ég hef ekki lesið hana. Svo er ljóðið til í upplestri Ginsberg sjálfs og þá gjarnan tónlist fleytt undir það. Ýmist Tom Waits eða bara dúndrandi djass.
Til að toppa þetta allt saman lék þessi maður Allen Ginsberg í þessari mynd. Myndin sjálf var eiginlega ekki neitt, ekki góð, ekki vond, en þessi maður er bara kúl. Finnst mér.

Þetta er töff allt saman. Ég er að hlusta á Tom Waits; mig langar að opna flöskuna sem er uppi á hillu.

27.4.06

Tvífarar

Ég set alltaf samasemmerki á milli Robins Williams, leikara, og Höskuldar Þráinssonar, íslenskuprófessors.
Þetta er eitthvað úr barnæsku.

Ég skil ekki...

Af hverju er maðurinn í auglýsingunni alltaf að setja ferköntuðu pítsuna sína í uppþvottavélina, og af hverju er hann bara hissa á því að það sé kviknað í uppþvottavélinni, í stað þess að gera eitthvað í því?

Vorboðinn ljúfasti

Það eru rónar allsstaðar og útum allt. Um daginn settist einn þeirra hjá mér á bekk við Hlemmtorg og spjallaði við mig. Við áttum í þó nokkuð djúpum samræðum, svona eins og langt og samræður við mann sem hefur ekki fylgst með nema samsæriskenningum og áfengisflöskum í einhver ár geta orðið djúpar.
Þegar við vorum hvað mest ósammála, með tilheyrandi rökræðum og hávaða, komu tvær unglingsstelpur aðvífandi og gerðu heiðarlega tilraun til að sníkja strætómiða. Hann benti á mig og kallaði mig forstjóra strætó og ég benti til baka og kallaði hann milljarðamæring. Við vorum báðir sáttir við nafnagiftirnar.
Stelpurnar héldu hinsvegar áfram að sníkja miða og fannst við lítið sniðugir.
Þið fáið þetta hvorteðer ókeypis, sögðu þær.

Ég skildi ekki alveg hvað þær meintu þá, en skil það núna. Þær héldu líklega að við værum að deila pelanum sem hann hélt á.

Nóttnóttnóttnóttnótt

Ég var alveg við það að sofna, en gat það samt ekki. Bráðum byrja næturvaktir. Það er kannski óþarfi að fara að snúa sólarhringnum til baka úr þessu?
Rétt þegar ég var að sofna mundi ég skyndilega eftir að hafa heyrt í útvarpinu þegar Óttar Martin Norðfjörð kom þar, ég man ekkert í hvaða þætti það var, og las úr nýju bókinni sinni, Sirkus. Hún var nýjust bóka hans þá. Mér fannst viðtalið við hann leiðinlegt. Ekki honum að kenna svosum, sú sem ræddi við hann fór alveg með það.
Ljóðin fannst mér hinsvegar ágæt.
Ég mundi þetta örugglega í tilefni staðlaða viðtalsins sem birtist í Fréttablaðinu einhverntímann við miðbik þessarar ljóðakeppni Eddu um daginn. Viðurkenni samt að ég þurfti að fletta því upp hvaða ljóðabók þetta hefði verið, rámaði bara í eitthvað ljóð um Esju og hauslausan búk sem hrundi á dansgólf með dynk. Eða eitthvað svoleiðis.
Ljóðið hans um afana sem fyrirfara sér þótti mér næstbest í þessari Eddu/Fréttablaðskeppni.

24.4.06

Aðeins meira af Sex til sjö

Af hverju ætli þátturinn heiti annars 6 til sjö, en ekki til dæmis bara Sex til 7?

Sex til sjö

Snorri Már Skúlason og Guðrún Gunnarsdóttir stýra þessum dægurmála þætti á Skjá1.

Rosalega finnst mér þetta kunnuglegt setup eitthvað?

Blogger

Af hverju er bloggerinn með þessa stæla við mig?

Heimapróf

Nú er ég farinn að treysta á Wikipediu. Eða eitthvað...

Draumórar

Mig dreymdi hamfararir í nótt. Eldgos, læti, allir inn á Reykjalund, þar var skjól. Skil ekki alveg af hverju. Ég var sorgmæddastur yfir því að skilja allar bækurnar mínar eftir í þrílyftu gistihúsi sem foreldrar mínir ráku og var staðsett einhversstaðar á leiðinni á milli Keflavíkur og Mosfellsbæjar sem skyndilega lá yfir Hellisheiði. Og ég sem var alltaf svona góður í landafræði þegar ég var lítill. Greinilegt að undirmeðvitundin tók engan þátt í þeim lærdómi.
Ég skildi heldur ekki í sjálfum mér að reyna ekki að bjarga einhverjum bókanna.

[02:38. Mér datt í hug þegar ég fór að velta þessu fyrir mér að kannski hafi haglélið sem hrundi á gluggann minn (og jafnvel inn um hann og yfir mig) hafi haft áhrif á þessar hamfarir drauma minna.]

Ljóðakeppni Fréttablaðsins

Hefði ekki verið auðveldara að láta bara keppendur senda inn myndir af sér og biðja svo fólk kjósa um það hver væri 'skáldalegastur'?

Leti

Ég er svo uppgefinn af líkamlegu áreynsluleysi og andlegu iðjuleysi að ég nenni ekki einu sinni að fara að sofa.

Ætti ég að taka upp heilbrigt líferni?

23.4.06

Og svariði nú!

...eða nei annars, ég er hættur við spurninguna.

Í minningu Staupasteins:

„If there's a heaven I don't wanna go there unless my stool is there waiting for me. And I tell you what, even god better not be on it.“

---------------------------------------------------------

„Sorry, We're closed!“

Staupasteinn V

„I mean, Woody is an elected councilman, Norm's got a new job, Cliff had a promotion and Rebecca has a husband!
This is the best day in the history of Cheers! Nothing can go wrong now.“


Lokaþáttur Staupasteins (í þremur hlutum) gerði heilmikið af því að binda lausa enda. Eini hnúturinn sem var ekki hnýttur af neinu viti var Frasier Crane.

22.4.06

Uppgjör útigangsmannanna

Það var showdown á Hlemmi áðan. Æstur róni skundaði þvert yfir biðstöðina, otaði fingri út í horn og æpti „Skíthæll!“ á þann sem varð fyrir bendingunni. Þetta endurtók hann ítrekað eftir því sem hann nálgaðist manninn, róna sem farinn var að missa hár, og hótaði honum svo öllu illu ef hann héldi sig ekki fjarri Gylfa.
Svo dró hann Gylfa, sem virtist vera hálftregur róni, harkalega á brott og hélt áfram að hóta limlestingum og dauða.
Eftir stóð sá sem bent hafði verið á og þóttist ekki vita hvaðan á sig stæði veðrið.

Gærkvöldið...

...var óvænt og áhugavert.

Skemmtilegt líka.

20.4.06

( ) Untitled Track #5

Djöfull koma falleg hljóð frá Hammond orgeli.

Langt síðan ég hef hlustað á Sigur Rós samt. Dálítið gaman að hlusta aftur, ekkert ólíkt því að koma heim eftir að hafa dvalið lengi erlendis.

Misskilningur

Ég er ekki frá því að ef horft er á auglýsinguna fyrir myndina sem er svona stranglega bönnuð börnum (eitthvað um sjáandi hæðir, man ekki nafnið) með sjónvarpið á mute þá virðast allir vera hlæjandi og að kitla hvorn annann!

Ekki aftur?

Vorum við ekki alveg vaxin upp úr þessu?

Nýrri fregnir af ritgerð

Ég er gráti næst. Mig langaði svo að standa mig vel. Hugmyndin var fín. Úrvinnslu var lokið á síðustu stundu. Útkoman var hálfkák.
Ég er gráti næst.

Fregnir af ritgerð

Fari það í andskotans, djöfulsins, hyldjúpa helvíti!

19.4.06

Af pólitískri réttsýni

- Ég man eftir einum mongólíta sem...
- Var hann frá Mongólíu?
- Ha, nei, hann var svona fatl..
- Af hverju kallarðu hann þá Mongólíta?
- Af því að hann var svona fatl...
- Ertu að tala um einstakling með Downs-heilkenni?
- Já, eða... ef ég hefði verið að tala um mann frá Mongólíu hefði ég líklega sagt Mongóla, er það ekki?
- Jú, en hvað um manninn sem þú manst eftir?
- Já, það var sumsé þessi Downs einkenndi...
- Heilkenni.
- Ha?
- Það er til fólk með Downs-heilkenni. Það er sjúkdómurinn. Að hafa einkenni sjúkdóms er annað.
- Já, jæja, fyrirgefðu, það var þessi Downs-heilkenndi...
- Má alveg segja það?
- Hvað?
- Heilkenndi? Ef menn eru með heilkenni, má þá alveg segja að þeir séu heilkenndir?
- Ég veit það ekki, en ég ætla samt að gera það. Má ég segja þessa sögu?
- Já, fyrirgefðu. Haltu áfram.
- Maðurinn með Downs-heilkennin var alltaf í strætó, og...
- Ertu þá hættur við að segja 'heilkenndi'?
- Já.
- Af hverju?
- Af því að... Maðurinn með Downs heilkennin var sumsé alltaf í strætó...
- Er eitthvað að því að ferðast með strætó?
- Nei, af hverju ætti mér...?
- Eru það þá bara fatlaðir einstaklingar og gamalt fólk sem ferðast með strætó?
- Nei, ég var ekkert að segj...
- Þú veist að ég ferðast með strætó? Er ég þá eitthvað að mér?
- Nei! Ég er bara að reyna að segja...
- Og hvað með þennan í strætó, þennan með Downs-einkennin?
- ...heilkenni.
- Ha?
- Þú sagðir 'einkenni'.
- Sagði ég hvað?
- 'Einkenni'. Þar sem þú hefðir átt að segja 'heilkenni'.
- Fyrirgefðu! Þessi með Downsheilkennin, hvað var hann að gera í strætó?
- Já, hann sat bara alltaf í strætó, kurteis og rólegur og virtist
ekkert vera neitt fatlaður. Það sást bara í andlitinu á honum.

- Er þetta öll sagan?
- Já.

Upplesturinn í kvöld

Húrra já, það hófst! Upplesturinn hafðist, og ég las... reyndar svolítið hratt, en engu að síður las ég. Og gekk vel.
Fór allt frammúr björtustu vonum, fólk var almennt ánægt, Lovísa sló í gegn (eins og við var að búast), ljóðskáldin stóðu aldeilis við sitt og ég fékk að loka. Dálítið mát við það, það var gaman. Saknaði reyndar fjölmargra, hefði viljað sjá fullt af fólki sem ætlaði að koma en afboðaði sig ekki einu sinni. Mætti bara ekki, en hvað um það.
Þetta var fjandi gaman.

Og svo hitti ég fullt af fólki sem ég hef ekki áður hitt, en talað við, og fólk sem ég hef hitt, en minna talað við, og fólk sem mig langaði alveg að tala meira við, en hef alveg hitt.

Og svo fékk ég hrós, sem hlýtur bara alltaf að vera gaman, jafnvel þó því fylgi diss ('ekki hattinn'), mér er alveg sama. Gefðu mér nokkra daga og ég gleymi því. En allir kátir, alveg heilmikill grundvöllur fyrir því að halda aftur: Næst!

Og svo drakk ég fullt af bjór. Ég verð að fara að hætta því.

18.4.06

Draumfarir og Nietzsche

Það hlaut að fara svo á endanum að mig myndi dreyma eitthvað af þessum blessuðu skólabókum. Og mig dreymdi Nietzsche í nótt. Eða morgun, öllu heldur. En mig dreymdi raunar ekki Nietzsche sjálfan, ekki kallinn með rostungsskeggið, né heldur vitfirringinn sem hleypur um allar trissur hrópandi fréttir af dauða guðs.
(Einhversstaðar las ég skemmtilega lýsingu af þessu, þar sem vitfirringurinn kemur æðandi inn í stórmarkað í nútímanum, allur skeggjaður og úfinn líkt og útigangsmaður úr bíómynd (Robin Williams í The Fisher King) hrópandi uppyfir sig í níhílískri angist að Guð sé dauður!
Ég sá alltaf alltaf fyrir mér innkaupakerrur á fleygiferð og heyrði hljóðið í kössunum, á meðan fólk þusti út skyndilega heltekið af samskonar hræðslu og vonleysi og hóbóinn.)
En nei, það var ekki þannig sem mig dreymdi hann. Mig dreymdi bókstaflega kenningarnar úr bókunum, hugmyndirnar sem ég hef verið að lesa og reyna að tengja og þar fram eftir götunum.

Verst að ég man þetta ekki nógu vel. Man bara að hann var óskaplega gulbrúnn þessi draumur, og grænn.

Um eðli næturinnar

Ferlega finnst mér Vídalín skemmtilegur penni þegar hann nær sér á flug líkt og hér. Kannski er það bara nostalgían. Ég er hins vegar kominn með hausverk, enda búinn að lesa of mikið um og eftir Nietzsche.

Og klukkan orðin svona helvíti margt...

17.4.06

Að lesa... og að leeeesa

Það er óþolandi að geta ekki fest hugann við bækur sem ekki tengjast námsefninu. Mig langar svo að lesa einhverja bók bara ánægjunnar vegna.

Jeminn, ég hlakka til sumarsins!

Ennþá laust

Orðið er ennþá laust. Ég vil gjarnan heyra fleiri tillögur. Man alveg ennþá hvað það var sem mig langaði í...

Ómur hversdagsins VIII - Handanfólkið

Ég sé það á skónum í hinum enda stigapallsins að nýtt fólk hefur flutt inn í íbúðina á móti. Ég þekki það fólk ekki neitt heldur, en söknuðurinn eftir gömlu nágrönnum mínum fer hverfandi.

16.4.06

Narkólepsía fartölvunnar

Jámm. Reglulega blossar upp djúpt hatur á öllu þessu ímyndaða, stafræna lífi okkar.
Eins og þegar tölvan tekur upp á því að slökkva á sér og með þessum skyndisvefni hennar fara allar þær glósur og þeir punktar sem ég skrifaði niður í dag, fjandans til, og einungis er hægt að sækja þrjár málsgreinar sem skipta litlu sem engu máli fyrir ritgerðina mína.

Hvar er guðleg upprisa núna?

Pápi gamli

Hefur annars einhver lesið Dauða í aftaninn? Mig langar nefnilega að skrifa samskonar bók um knattspyrnu. Svona fagurfræðilega úttekt á leiknum.

Gleðilega páska

Er ekki til siðs að óska fólki gleðilegra páska? Hafið það sumsé gott um páskana. Þá hefur því líklega verið komið á framfæri.
Ég er samt ekkert farinn í neitt páskafrí eins og svo margir. Er bara að lesa Nietzsche, T.S. Eliot, Foucault, Davíð Kristinsson og Hjörleif Finnsson, horfa á fullt af vídjómyndum og lesa yfir ritgerðina hennar mömmu.

14.4.06

Tilkynning!



Upplestrarkvöldið Án titils verður haldið á Café Rósenberg, þriðjudagskvöldið 18. apríl næstkomandi.

Upplesarar verða:
Arngrímur Vídalín
Hildur Lilliendahl
Kári Páll Óskarsson
Emil Hjörvar Petersen
Hallur Þór Halldórsson
Davíð A. Stefánsson

Einnig mun söngvaskáldið Lay Low flytja smá blús. Verknaðurinn hefst klukkan 21:00 og verður ókeypis inn.

Allir að mæta!

Ath. að myndin er bara þarna til skrauts. Mér fannst svo viðeigandi að hafa mynd með fréttatilkynningu sem þessari, en ég er orðinn alveg ómögulegur í að reiða fram einhver plaköt og auglýsingar. Þetta virkar alveg jafn vel, að mínu mati.

Að vaða eld og brennistein og ösla almenna ófærð

Það sem maður leggur ekki á sig fyrir einn kókópöffspakka!

Það sem ég gleymdi en var að muna:

Helztur ókosta við það að lifa inn í nóttina, er óneitanlega að maður missir tímaskyn. Og með tímaskyninu fer hæfileikinn til að meta hvaða dag maður upplifir hverju sinni. Þannig að þegar viðskiptavinur í verzluninni sem ég vinn í spyr hvaða dagur skyldi vera (þann dag), er maður yfirleitt einum til tveimur dögum á undan sjálfum sér.
Og þegar hann leiðréttir mann svo sjálfur hugsar maður: Það getur ekki verið, sá dagur var í gær!

13.4.06

Ómur hversdagsins VII - „Hvar hafa dagar lífs þíns...“

Nágrannar mínir eru fluttir. Ég þekkti þau lítið sem ekki neitt, en ég sakna þeirra óskaplega.

Því ég er vinur þinn...

Ókei (og ég skrifa það með einföldu... tökuorð, og allt það). Stundum veit maður alveg strax hverjir eru og verða vinir manns. Bara stundum. Og maður heldur sambandi þó það teygist á því; maður vill halda í tengslin af einhverju sem virðast andlegar ástæður.
Og svo allt í einu, upp úr þurru, fattar maður af hverju maður hélt sambandi. Það er ekki lengur rökfræðilegt, það er ekki afleiðing neins. En það er skiljanlegt. Það er bara eins og það hafi alltaf
átt að vera svona.

Takk fyrir kvöldið, ég skemmti mér betur en konunglega.

11.4.06

Í vornepjunni

Fyrir utan anddyri Landsbókasafnsins hafði brúnni Lödu verið lagt. Svona hefðbundinni Lödu. Það þótti mér bera fagurt vitni um þá miklu menningarstofnun sem þarna stæði.
Hinsvegar finn ég aldrei þær bækur sem mig bráðvantar þarna inni. Og þá er sama þó ég hafi tíu til tólf titla íslenska á lista.

Einkabílar og pólitík

Í gær fékk ég að rökræða um gildi almenningssamgangna. Ég sat á Hressingarskálanum og drakk bjór(a) og tókst nánast á loft af umræðum.
Það var almennt álit að fólk væri fylgjandi almenningssamgöngum, en gæti ekki án einkabílsins verið. Það var líka almennt álit að litið væri niður á fólk sem nýtti sér þjónustu strætisvagna á Íslandi.

Það sem var ánægjulegast er að sá einstaklingur innan hópsins sem var hvað mest fylgjandi almenningssamgöngum, er einnig harðastur hægrimaður innan sama hóps.

9.4.06

Aldrei aftur

„Daníella, við sjáumst...,“ hrópaði sá stutti spozkur á eftir vinkonu sinni, þar sem hann hékk hálfur út um dyr Apóteksins við Austurstræti.
„Já, bæbæ,“ greip faðir stúlkunnar frammí fyrir hinum unga vini dóttur sinnar, og hafði þá þegar dregið hana óþolinmóður langleiðina í áttina að Kaffi París.
„...aldrei!“ lauk félaginn í dyrunum máli sínu hvass.

Dóttirin skríkti af kátínu og endurtók brandarann í sífellu fyrir sjálfa sig og föður sinn, án þess þó að skilja hann til fulls.

Tilvistarkreppa?

Jámm. Það er ekki sérlega flókið að finna ævintýri í heiminum. Ekki ef maður vill það, ef mann langar til þess.
Meira að segja blak getur orðið ævintýralegt á að horfa (og líklega í að komast líka) ef maður bara slekkur á þulunum sem sjónvarpið skaffar útsendingunni, og kveikir á einhverri annarlegri tónlist. Sprengingar á himnum þjóna því hlutverki til að mynda ágætlega.
Ekki skemmir fyrir þegar blaktaktarnir eru sýndir aftur hægt. Þá fyrst hefjast nú ævintýrin!

8.4.06

Í gegnum skoðunarglerið

Á meðan ég stóð og virti sjálfan mig fyrir mér í baðherbergisspeglinum, komst ég að því -mér til þó nokkurrar undrunar- að meðleigjandinn minn hrýtur nokkuð hressilega.

Ég virðist svo hafa vakið hana þegar ég byrjaði að bursta í mér tennurnar.

Maður lifandi!

Ég á ekki orð af aðdáun.

7.4.06

Áfram í norðaustur

Þessi síðustu ár af minni ævi hljóta að verða tileinkuð norðausturlandi. Húsavík, Mývatnssveit og Laugum. Þingeyjasýslu bara. Þær eru svo ótalmargar tengingarnar að ég nenni ekki einu sinni að telja þær upp .

Og þrátt fyrir allar menningarfræðilegar diktúrur, alla mína aðdáunarfullu andstyggð á neyzlumenningu og allan þann unað sem óbeitin á ímyndum og sköpun þeirra veitir mér, þá get ég ekki annað en haldið með litla Húsvíkingnum í þessu blessaða Ædoli.

Vorhreingerningar í nánd

Hann er næstum því girnilegur, Hlöllinn á náttborðinu mínu. En hann er síðan í gær, svo mig langar lítið sem ekkert í hann.
Annars er herbergið mitt ólýsanlega ósnyrtilegt.

Kannski tek helgina bara í það að þrífa?

Þögn

Já, ég þegi bara þunnu hljóði.

5.4.06

Ágætis byrjun - nostalgía

Ég hafði alveg steingleymt því hve flott myndbandið við lagið Viðrar vel til loftárása er. Ógurlega dramatískt og fallegt.
Mundi líka þegar ég sá það eftir því þegar Jónsi sagði mér söguna af tilurð nafnsins. Veit ekki hvort ég sé að svipta einhverri dulúð hérna, en hann sagðist hafa heyrt þetta í útvarpinu. Það var einhver veðurfréttamaður sem ku hafa látið þessi fleygu orð falla. Ef ég man þetta rétt.
Þetta var á þeim tíma sem voru sífelldar loftárásir í fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu. Eða eitthvað svoleiðis.

Ég hitti hann í strætó, Jónsa, og hann sagði mér þessa sögu. Þá hafði lagið ekki verið nefnt, að ég held. Mér finnst svona sögur af tilurðum svo skemmtilegar.

4.4.06

Bókvarnir

„Þoturnar fara en bækur koma. Bandaríkjamenn ætla að gefa Íslendingum hundruðir bóka um öryggis- og varnarmál.“ Vona að tilvitunin sé rétt að orðalagi. Innihaldið er í það minnsta það sama og Páll Magnússon var að þylja í seinnifréttum núna rétt í þessu.
Er verið að gera grín að okkur? Eru þetta skot á þetta sífellda mont okkar, að við séum svo mikil bókaþjóð? Eða halda Kanarnir í alvöru að þetta sé það sem við vorum að væla?
Þetta er stórfenglegt.

Um feminisma

Það eru miklar umræður og vangaveltur um feminisma á Rafauganu (hér og hér). Einnig skrifar Eiríkur Örn fínan pistil á Fjallabaksleið sína.
Ég hef aldrei talið sjálfan mig beinlínis til feminista. Þó er ég mjög hlynntur jafnrétti. Raunar svo hlynntur að mér finnst það sjálfsagt mál.
Samkvæmt þessum greinum gæti ég þurft að endurskoða þá afstöðu mína. Samkvæmt þeim er ég bara samt feministi.
Kannski ég skrifi bara ögn lengri pistil um þetta allt saman? Viðri mínar skoðanir um öfgakenndan feminisma og sjálfskæðan, og réttlætishugsjónir. Á ég?

Fólksfeimni

Strákurinn í strætó stóð í stað þess að fá sér sæti. Samt var helmingur sætanna í vagninum laus.

Hann vildi bara ekki sitja við hliðina á neinum hinna farþeganna.

3.4.06

Af bloggi dauðans

Gáfumannagrín er jafn aulalega fyndið og hvað annað.

Himnaríki

Hvað kom annars fyrir heiminn áðan? Skyndilega hrundu skýin bara af himnum og jörðin hvarf!

Ég ætti að vera að læra

Gil Grissom getur alltaf svarað fyrir sig með frösum. Mikið væri samt magnað ef svona töff tónlist myndi alltaf óma þegar maður væri að gera hlutina, eins og þegar er verið hoppa yfir tíma í CSI.

Það væri alveg svona Soundtrack of your life...

1.4.06

Of langt

Mér sýnizt þessi færzla hafa verið of löng. Hugsanlega er ég samt bara of óþolinmóður, maður ætti kannski að leyfa helginni að líða áður en maður væntir frammíkalla á svona langa færzlu. Máske bara?
En hvað finnzt fólki samt um nýju myndina? Og svara svo!

Rollerblades at night