25.1.07

Bráðum, bráðum...


Það er eitthvað frumspekilega rangt við það hvað tíminn líður stundum hægt. Maður ætti kannski bara að halda til fjalla og athuga hvort hann fleygi sér ekki af stað?

4.1.07

Eitt ár: 2006 - 2007

Á morgun flyt ég af Ljósvallagötunni, burt frá kirkjugarðinum. Ég er búinn að búa þar í ár, hef reyndar ekki verið mikið þar undanfarna mánuði; eiginlega hef ég eytt meiri tíma í Danmörku heldur en þar.
Þetta verður síðasta færslan á þessu bloggi. Byrja líklega aftur þegar ég verð fluttur út á Norðurbrún. Stutt í það, þó Mosfellssveitin kalli í millitíðinni.

Að lokum:
  • (Í tilefni dagsins) Að keyra vestan úr bæ og upp í Mosfellssveit er eins og að keyra í gegnum tízkutímabil. Fyrst keyrir maður í gegnum belti af götuvitum; ef undan er skilið eitt hringtorg og tiltölulega nýrisin hringavitleysa sem staðfestir að Snorrabraut liggur skör hærra en Hringbraut, eru bara umferðarljós frá Ljósvallagötu og að Grensásvegi.
    Handan Grensássins brunar maður undir og yfir mislæg gatnamót, og ekkert annað. Það er eins og menn séu með þetta á heilanum þarna, og það hættir ekki fyrr en þú keyrir á milli holtanna sem Grafarvogshverfi og Grafarholtshverfi liggja á.
    Og þá taka við hringtorg. Það er líka dálítið mosfellskt, ég skal viðurkenna það(uppalinn í Mosfellsbæ og allt það). Hringtorg eftir hringtorg eftir hringtorg eftir hringtorg. Ég man ekki hvað það eru mörg hringtorg í Mosfellsbæ, en bara á milli Grafarholtanna og síðasta hverfis Mosfellsbæjar, sem er í daglegu tali kallað Ásarnir, liggja sex hringtorg. Það er vel af sér vikið fyrir ekki lengri spotta.
  • Börn manna er frábær mynd. Falleg og vel framkvæmd í alla staði. Ég var hrifinn, mjög hrifinn.
  • Fólki virðist hafa brugðið í brún þegar það sá myndir af Saddami með snöruna um hálsinn. Allt í einu var þetta illmenni orðið mannlegt, og ekki bara mannlegt, heldur var þetta bara vesælt gamalmenni. Nema hann var kjaftfor alveg út í það síðasta.
    En hann er dauður, Ósama er örugglega dauður, en hvar skyldi þetta enda? Hve langt skyldi vera í að þeim takist að útrýma síðasta hryðjuverkamanninum?

En búið í bili, hafið það gott.

1.1.07

Nýtt ár

Ég nenni ekki að skrifa neinn annál, enga upprifjun. En þetta var skemmtilegt ár og margt áhugavert sem átti sér stað. Það er hinsvegar bara eitt sem stendur hátt upp úr, sem gnæfir yfir allt sem kom fyrir mig á árinu.
En hitt var alveg skemmtilegt líka.

Rollerblades at night