Forvitnin á eftir að ganga af mér dauðum fyrir fertugt.
Fyrir tæpum tveimur árum sat ég næturvakt að venju, það var að sumri til. Klukkan var líklega rétt að verða sex um morgun.
Og síminn minn hringdi. Ekki vinnusíminn, heldur sá litli. Minn eigin. Ég svaraði og hlustaði bara á smá þögn áður en skellt var á mig. Það birtust engar upplýsingar á skjánum um hver þetta hefði verið. Ekkert nafn, ekkert númer, engin rödd. Ekki neitt.
Ég er ennþá forvitinn um hver þetta var.
Í gær hringdi dyrabjallan hér á Ljósu. Meðleigjöndin mín svaraði dyrasímanum. Stúlka spurði um mig, en þar sem ég var að vinna var henni snúið frá. Ég hef ekki enn komist að því hver var þarna á ferð, en ég er að deyja úr forvitni. Sérílagi þar sem nafnið mitt er ekkert á bjöllunni.
Vinkona mín sagði mér að ef einhver vildi finna mig þá ætti hún eftir að gera það. Ég er bara of forvitinn.
Ekki gera mér svona hluti!
2 ummæli:
já ég get ímyndað mér hvernig þér líður, en er nú samt ekki alveg á þessu stigi:) það var allvega ekki ég sem dinglaði svo getur krossað það af listanum ;)
Iih, ég er búinn að krossa næstum alla af listanum. Við nánari rannsókn kom raunar í ljós að meðleigjöndin var svo til sofandi þegar bjallan hringdi - hún var alls ekki viss um að verið væri að spyrja um mig. Gerði bara ráð fyrir því þar sem ekki var verið að spyrja um hana.
Svo líklega var bara verið að safna dóti á tombólu.
Skrifa ummæli