30.4.07

Í sjónvarpinu

„As lions mate hundred and fifty times within three days, the male needs to combine stamina with precaution.“

29.4.07

Goya

Eftir að hafa horft á Drauga Goya, sakna svolítið listasögubókanna minna, og þess að læra listasögu. Ekki það að mér leiðist heimspekin, þvert á móti, en listasagan var fag sem ég hafði ofboðslega gaman af, sérstaklega seinni árin.

27.4.07

Hinn mannlegi hroki

„Eftir að vélar komu til sögunnar hefur mannskeppnan enn ekki svo fundið upp nýstárlega vél að hún hafi ekki talið sér trú um að sjálf sé hún nákvæmlega eins og þessi vél. Descartes þekkti engar vélar nema klukkur, og hann gerði manninn og síðan allan efnisheiminn að klukku.“
- Þorsteinn Gylfason, Líf og sál

24.4.07

28 dögum síðar...

Nú þegar einhver minnist á það rifjast upp fyrir mér að fyrir ekki svo laungu síðan geisuðu, að sögn, óeirðir hér í nágrenninu. Varla hægt að segja að hverfið beri þess mikil merki - einna helst þessi byssuhvellur sem ég heyrði um daginn. Jú, kannski er hægt að kalla bölvanir nágrannans, þessi óp og öskur sem ég heyri þegar ég sit á dallinum og les um lýðræði, leifar byltingarinnar.
Hann neyðist til að borga af nýjum bíl næstu árin í ljósi þess að gamli Volvoinn hans fuðraði upp í boði sænsks eða þýsks atvinnumótmælanda.

Að vera... bleikur


21.4.07

Tilboð aldarinnar

Það flæðir upp úr póstkassanum í hotmailinu þessa dagana, af pósti frá fyrirtæki sem kallar sig Kaboom, og sérhæfir sig í klósetthreinsivörum. Þessa dagana virðast þeir vera að setja á markað eitthvert undraefni sem gæti orðið þess valdandi að maður þurfi aldrei að hreinsa klósettið sitt aftur. Þessi skilaboð fæ ég frá þeim sjö eða átta sinnum á dag, hið minnsta. Ég veit reyndar ýmislegt verra en að hreinsa klósett, en ég er ekki æstur aðdáandi þess.
Ég verð því eiginlega að viðurkenna að það er svolítið kitlandi að versla sér eins og einn dúnk....

Vor


Húsvíska hugmyndafræðin

Ég held að það sé einhver stór misskilningur í því fólginn að Garðar Svavarsson hafi verið Svíi. Húsvíkingar eru í það minnsta ekki af neinu sænsku bergi brotnir, engan veginn. Eftir að hafa skemmt mér við hljómsveitir eins og Túpílaka og Ljótu hálfvitana, velkist ég ekki í neinum vafa að þeir séu undan Írum komnir. Meira að segja Þórir, sá húsvíski, gæti verið einhverskonar íslensk birtingarmynd Damiens Rice.

Svo tala báðir flokkar, Húsvíkingar og Írar, með svo skemmtilegum hreim.

19.4.07

„Tölvan segir nei“

Að eiga við danska bjúrókrasíu getur stundum verið ferlega frústrerandi. Þegar reikningur berst fyrir annarra manna notkun á orku, og einu svörin sem orkuveitan gefur minna á svar bankakonunnar í Litla-Bretlandi (the computer says nooo), er erfitt að roðna ekki örlítið af pirringi, þó ekki sé nema á nefbroddinum.

Hasar

Það er ákaflega viðeigandi að þar sem við sitjum tvö og horfum á heimildamynd um umsátrið í Waco, í tilefni þess að það eru fjórtán ár síðan það átti sér stað, glymji skothvellur í húsunum í kring- ásamt sjúkra- og lögreglubílum sem flykkjast á staðinn. Ég er ekki enn viss hve langt í burtu þetta var, en skelfing var þetta mikill hávaði.

18.4.07

Ég gleymdi:

Hér skín sól og er frábært veður, og ekkert að brenna nema steik mannsins í næstu íbúð (sem mér finnst eiginlega að hann ætti að fara að taka af grillinu...)

Tíu litlir negrastrákar...

Þá er eftirlætis kaffihúsið mitt orðið að einhverri öskuómynd, í það minnsta að innan. Sá staður í Reykjavík sem hefur átt hvað mesta hlutdeild í mér, utan heimilisins á Ljósvallagötu, er í molum. Hlutum sem ég hef eitthvað í að sækja á þessari ofmetnu freðmýri fer sífellt fækkandi.

...einn þeirra varð að ösku, og þá var eftir...

12.4.07

Segja mér Svíar

... Og nú segir sænska konan í sjónvarpinu mér að það eigi að yfirfæra Engla og djöfla í kvikmyndaform. Tom Hanks áfram sem hetjan með skelfilegu hárgreiðsluna.

Var ekki ein nóg?

Doctor Who

Það er með ólíkindum hvað er hægt að gera vont sjónvarpsefni með góðum leikurum. Sé svolítið eftir því að hafa haft þetta í gangi, farið ekki bara og slegið höfðinu utan í vegg einhversstaðar.
Svei'attan þessum Svíum að sýna mér svona ömurð.

Að vera bara heima hjá sér...


6.4.07

Reyklausa svæðið

Þessi risavaxni öskubakki þjónaði hlutverki borðs á reyklausa svæði kaffihúss sem ég sat inni á og las í síðustu viku. Mér þótti þetta bera vott um danska kaldhæðni, og get ekki annað en hrósað Baunum fyrir þessa fyndni.

Páskahiti (easter fever)



Jú, hitastigið fór vissulega hækkandi. En þeir sem urðu eitthvað argir yfir þessu monti mínu, geta þá huggað sig við að það var ekki lofthitinn sem rauk upp, heldur minn eigin líkamshiti. Ég fékk sumsé hita og hálsbólgu, og hef því haft fá tækifæri til að njóta vorsins og góða veðursins sem hefur herjað á Kaupmannahöfn. Æi, svo blés vindurinn ansi köldu, svo það var ekkert svona hlýtt lengi - helst að maður telji til síðasta laugardag sem yndislegan.
Mér leiðast veikindi almennt, það fer í taugarnar á mér að vera heftur frelsi (hugsanlega á ég við stjórnsemivandamál að stríða?), en auk þess er óhuggulegt að verða veikur þegar heilahimnubólga herjar á Höfn. Fjórir látnir, allt unglingar á milli fimmtán og tuttugu ára aldurs, og heilsugæslur og bráðamóttökur hafa ekki undan við að svara spurningum. Ég beygi hálsinn reglulega og held því keikur fram að ég sé bara með hálsbólgu og nefrennsli. Ef einhver vill endilega hafa áhyggjur af mér, skal sá hinn sami hafa áhyggjur af að ég drepist af völdum legusára.
Mér skilst að það séu komnir páskar, en eina merki þess sem ég verð var við er að ég get nálgast spurningakeppni fjölmiðlanna á vef RÚV. Hefðir fjölskyldunnar hafa meðal annars falið það í sér að hlusta á þann þátt og fara í bíltúr eða göngutúr þessa daga. Fyrir vikið þykir mér hálf kjánalegt að vera ekki að fara út í göngutúr núna, sakir veikinda.

Og nú hnerraði Ásta kröftuglega.

4.4.07

Um ljón

„One thing is for sure: Scar is going to try and make the most out of everything with the minimum amount of effort possible.“
- Big Cats Diary á Animal Planet

Rollerblades at night