Mér leiðast veikindi almennt, það fer í taugarnar á mér að vera heftur frelsi (hugsanlega á ég við stjórnsemivandamál að stríða?), en auk þess er óhuggulegt að verða veikur þegar heilahimnubólga herjar á Höfn. Fjórir látnir, allt unglingar á milli fimmtán og tuttugu ára aldurs, og heilsugæslur og bráðamóttökur hafa ekki undan við að svara spurningum. Ég beygi hálsinn reglulega og held því keikur fram að ég sé bara með hálsbólgu og nefrennsli. Ef einhver vill endilega hafa áhyggjur af mér, skal sá hinn sami hafa áhyggjur af að ég drepist af völdum legusára.
Mér skilst að það séu komnir páskar, en eina merki þess sem ég verð var við er að ég get nálgast spurningakeppni fjölmiðlanna á vef RÚV. Hefðir fjölskyldunnar hafa meðal annars falið það í sér að hlusta á þann þátt og fara í bíltúr eða göngutúr þessa daga. Fyrir vikið þykir mér hálf kjánalegt að vera ekki að fara út í göngutúr núna, sakir veikinda.
Og nú hnerraði Ásta kröftuglega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli