31.5.06

Steggjapartí

„Ég fékk mér kaffi með nokkrum nunnum í morgun. Þær voru ákaflega indælar en þetta er ekki mjög villt,” sagði Smith. -af mbl.is

Partíleikurinn

Tæplega tuttuguogþrír tímar til stefnu. 22:48... 22:47... 22:4...

30.5.06

Sápa

Ég er annars ekki ennþá búinn að redda þessu helvítis sápustykki.

Á Hlemmi

Róninn á Hlemmi talaði töluvert hátt og mikið við sjálfan sig. Hugsanlega hefur hann þó ætlað ólánsama unglingnum sem sat við hliðina á honum þessar sögur sem hann þuldi. Hann ætlaði upphaflega að setjast við hliðina á mér, hann vildi það, ég sá það í augunum á honum þegar hann kom út af biðstöðinni, reittur og fúlskeggjaður í svörtum leðurjakka. Þá stóð hann skamma stund og horfði yfir fólkið sem sat á bekknum með mér og ég sá það hvernig hann mældi plássið sitthvoru megin við mig. Mældi út hvort hann gæti sest þar.
En svo fór hann og settist við hliðina á stráknum á hinum enda bekkjarins.
Eina setningu sögunnar endurtók hann nánast eins og möntru: „En ég vil ekkert verða afi, ég vil það ekkert.“

Tónaflóð

Það er eiginlega pínu huggulegt að hafa þennan fiðluleikara í húsinu. Eitthvað ævintýralegt við það líka. Alveg eins og bergmálið úr portinu.

Eftirfarandi hlutir eru mér nú ljósir:

  • Ég gleymdi að kaupa sápustykki í búðinni áðan. Sem þýðir að óhjákvæmlega neyðist ég til þess að fara aftur út í dag.
  • Mér finnst ostur betri en allt annað, líka sælgæti. Það er satt! Ég er þó ekki viss hvaðan þessi ást mín á ostum er sprottin.
  • Í húsinu mínu býr upprennandi fiðluleikari. Hann/hún æfir sig alla daga. Og er bara að verða nokkuð klár.
  • Ég á aldrei eftir að geta hætt kókdrykkju. Það er bara staðreynd. Ekki nema ég skipti Kókinu út fyrir Appelsín og fari að drekka kaffi.
  • Ég á of mikið af bókum. En ég gæfi ýmislegt fyrir að geta legið uppi í rúmi alla daga og lesið þær.
  • Ég er ekki ljóðskáld. Svo mikið er víst.

Harðhausinn ég

Ég var að enda við að sigra flugu í skallaeinvígi. Hún átti þetta skilið, réðst á mig fyrst. Svo flæktist hún í hárinu á mér.
Ég er ekki frá því að ég sé með smá hausverk.

29.5.06

Sex til 7

„Þú ert svo avanseruð!“'

Skipti mér ekki af þessu

Ég þóttist alltaf ætla í skiptinám til Ungverjalands, heimspekinám, en verð greinilega að endurskoða þær hugmyndir eitthvað aðeins. Þetta hérna hrópar hinsvegar á mig. Mig hefur alltaf langað til Finnlands og Rússlands, sérstaklega Pétursborgar, svo þetta hlýtur að vera ein af betri millilendingunum sem ég finn.

28.5.06

Dagur í gær og fyrir rúmri viku

Aftur hrópaði á eftir mér manneskja. Í þetta sinn var það miðaldra kona með barn og ég heyrði ekki nákvæmlega hvað hún sagði. Það var umferðarniður í Vonarstræti, enda kosningar í ráðhúsinu við enda götunnar.
Konan stóð handan götunnar, dró litla dúðaða stelpu á eftir sér og kallaði til mín og veifaði mér. Ég hikaði en fetaði svo fótsporin til baka og reyndi að sjá hver þetta væri.
Þegar gatan tæmdist örstutta stund á milli okkar heyrði ég hana hrópa spyrjandi: „Er þetta ekki Dagur?“ Ég hristi bara hausinn og brosti eins blíðlega og mér var unnt. Svona eins og til að gefa það til kynna hvað mér þætti miður að hún hefði tekið feil á okkur.

27.5.06

Blessuð blíðan

Það er æðislegt að fylgjast með umfjöllun um kosningarnar. Sérstaklega er gaman þegar kjörstaðirnir sjálfir eru sóttir, álkulegir fréttamenn segja tíðindi af vígstöðvunum og ræða jafnvel við gesti og gangandi, „Má maður spyrja hvað þú kaust?“, „Varstu lengi að gera upp hug þinn?“ og svo framvegis.
Það er hinsvegar nánast óbrigðult, að áður en fréttamennirnir ganga til þeirra verka að yfirheyra fólk fáum við frá þeim örstuttar, misjafnlega þó, lýsingar á veðurfari. Ástæðan er vissulega einföld (fyrir utan þá staðreynd að á Íslandi snýst bara allt um veður): Veðrið hefur áhrif á kjörsókn.
En segir þetta ekki bara allt sem segja þarf um okkur Íslendinga? Að ef að veðrið er ekki nógu gott þá nennum við helst ekki að ómaka okkur við að taka þátt í stjórnsýslu eigin lands?

Af veðrinu er annars það að segja að það byrjaði að rigna fljótlega eftir að ég kom í sveitina. Mér skilst það á hinum pólitísku veðurfræðingum að ástandið sé svipað um allt land, það sé skýjað og bölvaður suddi alstaðar.

26.5.06

Leikurinn góði

Það er rúm helgi eftir af leiknum. Samkvæmt mínu dagatali lýkur honum næsta miðvikudag. Á miðnætti. Það er reyndar tæp vika, en ég sagði rúm helgi til að ítreka það að nýta mætti helgina í myndatökur. Þemað er Reykjavík. Ekkert annað. Engin tilmæli, engin skilyrði. Reykjavík. Og ímeilið mitt ennþá það sama. Þetta er alveg málið.

25.5.06

Meistarinn

Ég held hún sé skotin í spyrlinum, stelpan.

Fólkið á götunni segir:

„Innan fárra ára verður þetta borg listamanna -hef ekkert á móti þeim í sjálfu sér- öryrkja og aldraðra. Þetta verður svoleiðis!“

- úr fréttum Stöðvar 2 og NFS

Frasier VII

- I've always had an ear for your tounge.

Tekið úr klassískum þætti, My coffee with Niles. Lokaþáttur fyrstu seríunnar. Hann var einn af tveimur þáttum sem fór fram í „rauntíma“, þ.e. var ein löng sena.

24.5.06

Colbert skýrslan um Bush

Krakkar, þetta hér er ógeðslega fyndið! Hangið í gegnum þetta, þetta er langt, en þetta verður bara svæsnara og fyndnara eftir því lengra sem dregur. Og beint framan í hann! Að þurfa að sitja undir þessu...

Sögur úr Andabæ

Getur einhver upplýst mig um það hvaðan þessi hreimur er sem Jóakim Aðalönd burðast með í íslenskt talsettu útgáfunni af Sögum úr Andabæ? Ég veit að hann var skoskur á útlensku, en hvar á Íslandi tala menn svona, eða hvaða útlendingar hljóma svona þegar þeir koma til Íslands?

Charles Manson

„Sure I'm crazy. Being crazy used to mean something. Nowadays everybody's crazy.“

Hann skaut sig

Varð vitni að hræðilegu símtali í strætó áðan. Það fór samt fram í mestu vinsemd, enginn æsingur. Það var líklega það sem var svona hræðilegt við það, því umfjöllunarefnið var oftast skreytt tilfinningalitlum orðum um tilfinningarík málefni.
Mér brá strax þegar konan fyrir aftan mig svaraði í símann og sagði, nánast um leið og hún hafði heilsað og áttað sig á því við hvern hún talaði: „Já, hann skaut sig,“ æpti það langt frammí vagninn, hún sat aftast, og þetta óp var svo laust við tilfinningu að ég gat ekki einbeitt mér að bókinni sem ég var að lesa. Samtalið hélt svo áfram á þessum sömu nótum, hún var að tala við strák, þau ræddu manninn sem hafði skotið sig, og áður en mér tókst að ná viðsnúningnum hafði hún spurt: „En hvað er að frétta af þér, ertu búinn að ná þér í rifu? Eitthvað til að setja í?“ Bara sisona. Ég missti meira að segja af því hvar ég var. „En þú verður allavega ekki lessa, ekki úr þessu,“ hélt hún áfram og ég missti samhengi, en hann svaraði henni greinilega með einhverju sem hneyksluðu hana, því risið á henni var lægra næst þegar hún opnaði munninn. „Jæja vinur, það var gaman að heyra í þér.“

23.5.06

Það var laglegt!

Þetta líst mér á! Þá hefur maður enga ástæðu til hafa neinar taugar til þessa skítaliðs Chelsea. Ekki það að ég hafi haft þær sko...

Frasier VI

All my life I have dreamed of one thing - to walk into a library, look through the card catalogue and see my name under mental illness.

Frasier V

- Niles, is there a lightbulb over my head?
- You have an idea?
- No, I'm asking you if there's an actual lightbulb over my head!

Sniðugir andfætlingar

Mér finnst Ástralir hafa góðan húmor fyrir gjöfum. Ég ætla að bjóða einhverjum Áströlum í næstu veislu sem ég held. Og ég ætla að rukka þá um einhverjar gjafir.

Góður í þessu með afmælisdagana

Ég ætla að éta það ofan í mig að ég sé góður í að muna afmælisdaga. Allir sem hafa heyrt mig segja það geta, og mega - ég gef leyfi - hlæja að mér núna. Lilja Laufey á nefnilega ekkert afmæli fyrr en næsta fimmtudag, þann 25. maí. Og einhver, sem ég man bara ekkert hver er, átti afmæli 20. maí! Hann/hún fær samt sem áður bara hamingjuóskir frá mér. Verður eiginlega bara að taka þær til sín, því ég man ekki hver hann var.
Gleymdi líka Guðrúnu Þuríði sem átti afmæli alveg í byrjun maí, þann fimmta.

Ómur hversdagsins X - Næturdýrin

Yfir portið berast stundum óp og stunur. Þetta hefst yfirleitt einhverntímann um miðja nótt og líklega verð ég bara var við þær af því að ég vaki gjarnan inn í nóttina. Tvær raddir, karl og kona, og það heyrist eiginlega hærra í karlmanninum. Leikurinn er samt alltaf stuttur.
Annað slagið heyri ég líka rúmgafl slást taktfast upp við vegg, en ég held að það séu ekki þau. Það er örugglega í minni byggingu, en lætin hafa líklega komið handan portsins.
Ég veit ekki af hverju ég mundi þetta, það er langt síðan ég heyrði í þeim síðast. Hugsanlega samt af því að þegar ég drap í öllu sem gaf frá sér hljóð fyrr í nótt og ætlaði að sofa smá, þá heyrði ég mjög daufan óm af tónlist einhversstaðar frá. Þá rifjaðist þetta upp fyrir mér, af öllu.
Skyldu þau annars vera flutt líka?

22.5.06

Það sem annars reddaði deginum

Guði sé lof fyrir Rússíbananananana hans Guðna Franz!

Afmælisbörn

Ein Lilja á afmæli í dag. Lilja Birgis. Hún er í Hollandi, í Haag, að vera ljósmyndari. Og hún er sko miklu klárari en ég (pun intended). Önnur Lilja átti afmæli fyrir tveimur dögum. Lilja Laufey. Hún er hætt að blogga, að mér sýnist, en ég læt þennan hlekk samt flakka.
Á föstudaginn átti hún Berglind líka afmæli. Hún fær samt engan hlekk fyrr en hún fer að blogga.
Ég held að Atli Antonsson hafi átt afmæli þá líka. Hann bauð mér allavega í afmælið sitt þá. Eins og sauðurinn sem ég er beilaði ég á því. Fór á eitthvað fyllerí og var ruglað við Dag Kára í staðinn.
En ofantalin, auk Heddu frænku minnar, sem átti afmæli tíunda maí, fá bestu kveðjur, afmæliskveðjur, frá mér. Hvort sem þær berist eða ekki.

Tillukku öll.

Fífl dagsins...og auli

Með bleika tösku og í mosagrænum sokkum. Annars var hún alveg svartklædd. Hafði ljóst, stutt hár, það var eiginlega gult á litinn, og hún settist við hliðina á mér á Hlemmi. Ekkert einkennilega nálægt mér, það var örugglega engin meining á bakvið það. Líklega hef ég bara virst hættulausastur þeirra sem sátu þarna.
Ég hafði séð hana einhversstaðar áður, mundi ekki hvar, en mundi samt eftir svörtu fötunum og bleiku töskunni. Hún hafði gylltar brúnir og gyllt handföng, taskan.
Mér fannst hún sæt, stelpan.
Það var því helst fyrir annmarka eigin feimni og meðvitund um smæð borgar og lands að ég sat bara eins og álfur (með rauða húfu) þangað til strætóinn minn kom.
Stundum er ég fífl.

21.5.06

Af fyrsta partíleik sumarsins

Jæja, þá eru komnir fimm dagar síðan fyrsti partíleikur sumarsins hófst. Ég leyfi mér að segja fimm dagar þar sem hann hófst tæknilega klukkan fimm að morgni þess sautjánda. Þannig að við erum á fimmta degi í dag. En hann stendur bara í fimmtán daga, svo nú er málið að fara að bretta upp ermarnar og út að mynda.
Það eru ýmsar leiðir að þessu, en ég þreytist ekki á að ítreka það að innihaldið skiptir miklu meira máli en tækniatriði. Ég er ekki að leita að tæknilega fullkomnum myndum, þó falleg bygging myndar sé aldrei illa þokkuð. Það er heldur ekki bannað að bæta myndir í tölvu. Kannski óþarfi að fara útí einhverja vitleysu eins og að skeyta myndum saman eða krassa og krota á þær; það er ekki bannað en það hjálpar engum.
Það er lítil sem engin afsökun að eiga ekki myndavél. Hér má sjá hvernig hægt er að búa til myndavél. Og ef enginn nennir því þá er hægt að kaupa einnota myndavél. Myndir úr þeim geta alveg verið fínar. Án þess að ætla eitthvað að fara að leiða ykkur í einhverja átt þá eru hér dæmi um það að einnota vélar geta myndað fallega. Munið að ég verð samt ekki einn í dómnefnd.
En áfram gakk! Út að mynda.

20.5.06

Það geta allir verið með

Maggi benti mér á þetta. Sko bara! hvað þetta er lítið mál. Þannig að þeir sem hafa hingað til afsakað sig frá þátttöku í fyrsta partíleik sumarsins með því að þeir eigi ekki myndavél geta bara hunskast til að fara eftir þessum leiðbeiningum.

Frægi ég

Í gær sátum við Magnús og sötruðum bjór á Kaffibarnum. Við sátum á efri hæðinni, úti í horni, og það var svolítið dimmt. Þá vatt sér að mér strákur, hann hefur líklega verið á svipuðum aldri og ég. Hafði brúnt hár og skegg. Með honum var stelpa, löng og mjó, og mér fannst hún alveg hugguleg í gegnum myrkrið. Nema strákurinn rétti fram höndina og heilsaði mér spyrjandi: „Dagur?“
Ég hváði bara og sagðist heita Hallur. Strákurinn muldraði einhverja afsökunarbeiðni, eitthvað um það að hann hafi haldið að ég væri annar, og hljóp næstum í burtu, hvarf sneyptur fyrir hornið. Fyrir aftan hann stóð stóð stelpan og titraði af hlátri. Strákgreyið hefur líklega verið búinn að undirbúa sig undir þetta í talsverðan tíma áður en hann stóð á fætur og ætlaði að kynna sig.

Þannig að þegar ég raka mig þá lít ég út eins og helvítis saungvarinn í Keane og ef ég raka mig ekki þá líkist ég bara leikstjóranum knáa.
Ég verð reyndar að viðurkenna að seinni kosturinn er öllu fýsilegri; reyndar sé ég svolítið eftir því að hafa ekki bara tekið þátt í gríninu, þóst Dagur Kári og farið að segja stráknum frá nýju myndinni minni. Ég hefði jafnvel geta boðið honum að taka þátt.

19.5.06

Hrár fiskur

Ég hef aldrei smakkað sushi. Ætlaði einu sinni að fá mér svoleiðis með norskum vinkonum mínum. Það var á hótelveitingastað í Salamanca en þeir voru búnir að loka. Samt var klukkan ekkert margt. Við fengum okkur eitthvað annað í staðinn, eitthvað tyrkneskt. Ekki spyrja mig hvað það hét, hvað það var eða hvernig það bragðaðist.
En ef einhver vill endilega kynna mig fyrir þessu undri eldamennskunar þá er hverjum sem er frjálst að bjóða mér upp á sushi í Iðu. Ég bíð bara eftir boðum...

Besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi...

...var að koma frá Páli Óskari í Kastljósi núna rétt áðan: Að láta Silvíu Nótt kynna keppnina á morgun með Simma. Held að það myndi laða fleiri landsmenn að skjánum fyrst við erum á annað borð dottin út.

Sideshow Bob

„Hah! Attempted murder? Now honestly, what is that? Do they give a Nobel prize for attempted chemistry? Do they?“

18.5.06

Ég skil ekki alveg...

...af hverju ég er ennþá vakandi. En fyrst ég er það langar mig að benda á að ég flokkaði aðeins tenglalistann í nótt. Bætti líka vel á hann. Svoleiðis gerir maður bara þegar maður hefur lítið sem ekkert að gera (vond sjónvarpsdagskrá).

17.5.06

Partíleikir #1

Ókei. Förum í leik. Mér finnst svo gaman að leika mér. Enda það eina sem ég geri.
Förum í leik og allir að vera með. Þetta er myndavélaleikur. Og það skiptir ekki neinu máli hvernig myndavél er notuð: SLR, stafræn, lómó, pappamyndavélar. Mín vegna má nota Polaroid. Það væri reyndar bara kúl.
Förum í leik og allir að vera með. Grípum öll uppáhaldsmyndavélina okkar, næstu myndavél eða bara einu myndavélina sem við eigum, og hlaupum fagnandi útí vorið að taka myndir. Tökum myndir af einhverju sem okkur finnst fallegt, einhverju sem okkur finnst afbrigðilegt, einhverju sem okkur finnst kúl, sem okkur finnst skera sig úr, sem okkur finnst ljótt, ógeðfellt, indælt, töff, þess verðugt, ljóðrænt: Tökum bara mynd af einhverju!
Förum í leik og allir að vera með. Eina skilyrðið að hún sé tekin í Reykjavík. Úthverfi eða miðbænum, Kringlunni eða við höfnina. Mér er alveg sama.
Takið myndina og komið henni til mín. Látið hana heita Reykjavik[nafniðykkar].jpg. Það er kúl. Þið megið senda fleiri en eina. Sendið hana á ímeili, látið mig hafa hana á geisladiski, prentið hana út og sendið mér hana í pósti. Mér er alveg sama. (Þetta síðastnefnda væri reyndar töff, en þá þarf ég einhvernveginn að gera hana meðfærilega og tölvuvæna).
Í dag er 17. maí. Það er rétt rúmlega miðja maímánaðar. Það eru þá fimmtán dagar þangað til það kemur júní. Þessvegna ætla ég að hafa fimmtán daga skilafrest. Þegar klukkan slær tólf á miðnætti þess 31. maí, þegar júnímánuður verður til, þá er leiknum lokið. Þessum leik.
Hey, ef margir verða með og vel tekst til skal ég hafa verðlaun!

Ókei! Allir að vera með. Höfum þetta svolítið skemmtilegt.

16.5.06

Lukkulegt

Það getur verið ótvíræður kostur að keyra um á bíl sem kemst ekki sentímetranum hraðar en hundrað kílómetra á klukkustund (og það við allra bestu aðstæður niður mjög bratta brekku, fullur af fólki, með fullan tank af bensíni og eitthvað jafn þungt og hjólsög og steðja í skottinu).
Þetta er sérstaklega kostur þegar maður „þýtur“ framhjá löggunni við mælingar án þess að verða hennar var fyrr en eftir á.

Ég held...

...að það skoði þessa síðu enginn á milli svona þrjú og átta að nóttu til.

Frasier IV

Lilith: You're the only man I've ever loved.
Frasier: So are you!

Plan:

Ég ætla að verða kúl þegar ég er orðinn stór.

15.5.06

Af bloggi dauðans

Ármann Jakobs hlýtur að eiga við eyríkið Nauru með þessari spurningu. Ég er hinsvegar forvitnastur um þetta með offituna. 90% íbúanna of feitir, það hlýtur að vera sjón að sjá.

Það verða allir svo klikkaðir á vorin

Fréttatími gærkvöldsins var sérkennilegur. Hálf niðurdrepandi eiginlega. Það er greinilega heilmikið vor í fólki.

Frasier III

- Don't you believe in second chances?
- I did. Then we had Niles...

Fjórða víddin

Það er æðislega risastór klukka á veggnum á móti mér í þessu annars pínulitla rými. Klukkan þekur allavega þriðjung af veggnum. Hún öskrar á mig þegar ég svo mikið sem hreyfi mig. Ég get einhverra hluta vegna ekki hætt að kíkja á hana.
En ég treysti samt frekar úrinu mínu.

14.5.06

Fór á kreik og brá á leik

Þetta gerðist allt í afmæli hjá Emil. Í hvítu húsi á þremur hæðum í Kópavogi. Með útsýni yfir byggðina, ofan af heiðinni og yfir Smáralindina. Fallegt af svölunum við sólarlag, himinninn roðnaði af áreynslu. Enda gott veður.
Það var fjölmenni á svæðinu, fólk úr öllum kimum samfélagsins, en þó aðalega rautt og grænt og fræðilegt. Foringjar og fyrirmenni. Gestgjafinn rauðari en aðrir eftir að hafa dreift kosningaloforðum á litlum miðum allan daginn. Litlum krúttlegum miðum. Og formaðurinn kíkti í heimsókn og tók tal af fólkinu.
Þetta gerðist allt í afmæli hjá Emil. Það brotnuðu glös. Það brotnaði vodkaflaska (held ég örugglega, þetta var áfengið hennar og hún fékk þess í stað að dreypa á veigum hins góðhjartaða). Svo var drukkið meira. Fólki seig í brjóst í stofunni og ég hitti Hall, jafnaldra minn. Hann ku hafa lagt sig á svölunum seinna um kvöldið og fundist þegar fólk var yfirleitt farið.
Menn ræddu bókmenntir, braghætti og pólitík. Það heyrðist þó hærra í pólitíkusunum. Einn var í bleikri skyrtu með mynd af kind. Aðrir mættu með hatta. Heimurinn snerist. Þessi maður sagði sögur af Nietzsche og Liverpool og fólk hlýddi af athygli.
Þetta gerðist allt í afmæli hjá Emil.

Það gerðist svo sitthvað fleira þegar komið var í bæinn...

11.5.06

Krúttlega krumpað


Þetta er dálítið krúttlegt ástarbréf. Getið lesið hér hvað stendur í því. Sérlega áhugavert að Darling skuli vera með stórum upphafsstaf. Falleg upphafning. Og fallegar stafsetningavillur í því líka.
Ég hef annars gaman af svona fundnum hlutum. Hvort sem það eru myndir, póstkort, miðar sem hafa verið skrifaðir til einhvers eða hreinlega glasamottur og servíettur á börum sem fólk hefur skilið eftir. Enda finnst mér óskaplega skemmtilegt að skrifa niður eitthvað misgáfulegt og skilja það eftir. Mig grunar bara að meirihluti þess endi í ruslinu.
Sem er kannski bara allt í lagi. Líklega hef ég engan merkilegan sannleik fram að færa.

Það er fullt af síðum á internetinu sem hafa svona hluti til sýnis: Object not found, BigHappyFunHouse, FoundPhotos Journal, 10eastern Foundphotos.
Þekktast þessara fyrirbæra væri samt líklega Found Magazine.

Enn meiri óvinur ríkis og kirkju

Sko, þessi maður kíkti í heimsókn! Ég held að alþjóð, svo ekki sé talað um stjórnvöld, hljóti að sjá hve stórhættulegur ég er.

10.5.06

Frasier II

Sex is something between you, and the person you're doing it to!

Af Vísi

Þetta er einkennileg frétt. Leiðindamál, það er ekki það, en heldur er þetta illa orðuð frétt, og innan hennar gerast skrítnir hlutir. Í miðri frétt birtist skyndilega einhver Sigríður, en fram að því hefur viðfang fréttarinnar (stúlkan sem ráðist var á) verið nafnlaust. Sigríður er líka bara nefnd í þetta eina skipti. Það er heldur ekkert sagt um að þetta sé stúlkan sem ráðist var á, ég geri bara einhvernveginn fastlega ráð fyrir því.
Svo finnst mér fyrsta línan kjánaleg, hefði verið hægt að orða hana á svo marga aðra vegu.

Meira af giskleikjum

Ég er ennþá á kirkjugarðsbarminum. Fór ekki í sveitasæluna. Ég er líka ennþá með eyrnarbólgu.

Vitiði hvað ég er? Einsorða giska er óskað.

Sko:

Á morgun langar mig helst að hypja mig í sveitasæluna, hunskast í felur og snúa aftur haust.
Kei?

Gangi mér vel, og vonandi sjáumst við í haust (en ekki á morgun).

8.5.06

...sagði Lilliendahl:

„Þriðjudaginn 9. maí kl. 20:30 er ljóðakvöld á Hressó. Þar leiða saman hesta sína Ljóð.is, Nýhil og List án landamæra. Fjöldi frábærra ljóðskálda með ólíkan bakgrunn koma fram, útgefin og óútgefin, hömluð og óhömluð, fötluð og ófötluð. Hamlanir kvöldsins eru afstæðar, hvort sem er skortur á mætti í fótum eða hamlanir á tilfinningasviðinu.

Ljóðin verða túlkuð jafnóðum af táknmálstúlkum en kynnir kvöldsins er Viðar Þorsteinsson.

Ljóðskáldin sem láta ljós sitt skína á Hressó annað kvöld eru:
Hildur Lilliendahl
Bjarni Bernharður
Hallur Þór Halldórsson
Ásdís Jenna Ástráðsdóttir
Magnús Korntop
Haukur Már Helgason
Skúli Steinar Pétursson
og Björk Þorgrímsdóttir.

Og ykkur er öllum boðið.“

Það er fínt veður úti...

...ég er svangur, einn og hálfur tími í ritgerðarskil, einn fjórði næstum því tilbúinn og ég er alveg að sofna.
Djöfull er ég (ekki neitt sérlega) töff núna.

7.5.06

Stríð

Mér er alltaf jafn ómögulegt að skilja hvernig hægt er að sjá sigurvegara í stríðum. Eins og þetta sé bara eitthvað hundraðmetra hlaup.

Frasier

- I am a wise man, a shaman of sorts
- Zip up your fly, wise man!

Til ykkar sem ég virðist hafa hunsað, virt að vettugi eða horft í gegnum á einn eða annan hátt þegar ég hef mætt ykkur á götu:

Sko, ég meina ekkert með þessu. Ég er bara svona staurblindur að ég sé ykkur ekki í alvöru!
Held að mál sumarsins sé að velta fyrir sér linsum.

5.5.06

Munaði engu

Ég var næstum búinn að vinna, en svo tapaði ég.

Það er alltaf þetta með veðrið

Það er engin smá rigning úti. Allavega miðað við hljóðin sem berast úr portinu, inn um opinn glugga. Ég ætla rétt að vona að það verði ekki svona veður á morgun og einhver taki upp á því að þröngva mér út fyrir hússins dyr.
Það er gott að vera undir sæng.

Vor

Heute bin ich geil, so geil, so geil...
Man enginn eftir Alfreð Önd? Jæja, gildir einu.

4.5.06

Helvítis fólk

Ég var í ágætu skapi þegar ég kom til vinnu. Ég er það ekki lengur.
Það er kannski eins gott að þetta sé síðasta vaktin mín fyrir sumarið.

Kóngurinn af Spáni á götum Salamanca

Já, ég er alltaf að segja einhverjar rónasögur. Eins og ég hafi búið meðal þeirra oft og mörgum sinnum. Sem er alls ekki tilfellið. Þeim finnst bara gaman að tala við mig.
Ég hitti líka róna í útlöndum. Alveg misskemmtilega. Sumir þeirra virtust meira að segja ætla að verða hættulegir. Þeir hótuðu mér og ógnuðu með einhverju sem leit reyndar bara út fyrir að vera síll. Ekki einu sinni skrúfjárn. En ég gaf þeim fimmevruseðil og blótaði þeim, sagði að nú þyrfti ég að vera svangur daginn eftir. Sem var lygi. Ég lifði eins og kóngur heima hjá fjölskyldunni sem ég bjó hjá. Gat ekki klárað allan matinn sem þau buðu mér.
En ég hitti líka einn ágætan. Hann kom til mín og spurði hvort ég talaði spænsku. Það fór náttúrulega ekkert á milli mála að ég var erlendur tungumálanemi. Ég sagði blátt áfram nei.
Hann spurði hvaða tungumál ég talaði, og ég svaraði á íslensku að ég talaði íslensku. Hann yppti öxlum og spurði hvort ég talaði ensku. Ég laug að ég gæti stautað mig áfram. Og stautaði mig glæsilega í gegnum þá lygi. Hann labbaði áfram með mér og talaði alveg ágæta ensku.
Hann sagði mér að hann hefði búið á götunni í þrjá mánuði. Sér hefði skyndilega verið hent út; hann hefði verið að læra efnafræði við háskólann, en nú hefði hann ekki borðað í þrjá daga. Sjálfsagt vantaði eitthvað uppí frásögnina.
Nema hvað, hann var að betla. Mig langaði að gefa honum eitthvað, en ég var bara með kort. Svo ég spurði hvort ég mætti ekki hitta hann þarna daginn eftir, ég skyldi bjóða honum hamborgara og franskar og kannski gæti ég látið einhverja smáaura af hendi rakna líka. Ég væri vitanlega fátækur tungumálanemi, en við skyldum sjá til. Sem skilyrði bað ég hann um að segja mér söguna af sjálfum sér. Ég ætlaði að taka hana upp á minidisk. Hann var aldeilis til, margbenti á hornið sem við stóðum á og benti á klukkuna á Plaza Mayor. Við ákváðum að hittast klukkan ellefu morguninn eftir. Sem var að vísu örlítil bjartsýni af minni hálfu, en hvað um það.
Þegar við kvöddumst veifaði ég honum. Ég var skræfa, ég þorði ekki að taka í höndina á honum. Þrátt fyrir öll okkar vinsamlegu samskipti treysti ég engu um að maðurinn væri ekki eiturlyfjaneytandi með nálar útum allt. Ég bað hann að fara vel með sig og spurði hann um nafn.
„Juan Carlos,“ sagði hann, „alveg eins og kóngurinn af Spáni.“

Morguninn eftir mætti ég á hornið við Plaza Mayor með minidiskspilara og míkrófón. Það gerði hann ekki. Ég sá hann ekkert eftir þetta þó ég hafi leitað að honum. Líklega hefur hann ekki trúað mér.

010203040506

Og hvað nú?

3.5.06

Og enn af auglýsingum...


Þetta verður ofboðslega skemmtilegt. Sérstaklega af því að ég verð meðal áhorfenda og heyrenda. Sem færir samkunduna umsvifalaust á hærra plan. Nema hvað, svo á þetta líka eftir að hljóma ofsalega vel.

Tímasetningar

„...Eiríkur Guðmundsson sér um þáttinn.“

Djöfull hitti ég fáránlega vel.

Stundum...

...og bara stundum, vildi ég óska að ég væri björn.

Fyrstur með fréttirnar

Það er eitthvað brjálað að gerast einhversstaðar. Sírenuvæl og læti!

Bjartsýni alltaf hreint

Í gær var ég með skrýtinn kökk í hálsinum, svona eins og ég væri búinn að borða svo mikið að það væri farið að flæða upp aftur. Samt borðaði ég bara mjög eðlilegt magn af mat í gær, ekkert of og ekkert van.
Í dag er blóðbragð í hálsinum á mér sem gossar upp þegar ég hósta.

Er ég þá kominn með berkla?

Óvinur ríkis og kirkju

Umferð síðunnar hefur tekið töluverðum stakkaskiptum undanfarið, ég veit ekki alveg hverju er um að kenna. En reglulega kemur alltaf hrúga af útlendingum inn á síðuna. Það er fólk sem notar þetta apparat hérna fyrir ofan, smellir á next page.
Einn af þeim síðustu sem fór hér um kom af þessari síðu.
Er ég þá ekki orðinn mótmælandi lýðræðis og stórhættulegur Bandaríkjastjórn?

Mér finnst þetta bara svo töff mynd...

... og það var þessi maður sem tók hana.

2.5.06

Erfitt líf á götum Reykjavíkur

Róni á Hlemmi sagði mér að það væri ómögulegt að stunda betl í dag. Bæru allir fyrir sig að vera bara með kort. Róninn sagði mér líka að við tveir vissum það nú jafn vel að það væri lygi. Ég skammaðist mín og taldi 43 krónurnar sem ég átti í buxnavasaklinki í lófann á honum.
Svo fannst mér fyndið að benda honum að fá sér bara svona ferðaposa. Held að það væri fyndið að sjá róna á Hlemmi að betla: „Ég tek líka kort!“
En ég benti honum ekki á þetta. Held að honum hefði ekki fundist það fyndið.

Veggjakrot

Á kirkjugarðsvegginn við Kirkjugarðsveginn hefur einhver skrifað stórum stöfum með blárri krít:
„Viltu ríða?“ og skilið eftir símanúmer til að hringja í.

Maaaíí

Í dag er kominn maí. Það var það líka í gær, en af því að deginum var ætlað að drukkna í helgidagafylleríi þá nenni ég ekki að telja það með. En það varð eitthvað lítið úr fylleríi sem slíku, hálfrauðvínsflaska og fjórir misstórir bjórar.
Alveg ágætt þó, og allt í góðum félagsskap (nema kannski sá fyrsti sem var sumsé úti í horni kaffihúss með ljóðabók í höndunum: pretentious piece of shit).

1.5.06

Á kleppi flæðir páskabjór...

...og Peyton er alveg ógeðslega góð sko. Hún er best. Rauðvín á eftir!

Þetta hljómaði örugglega betur í höfðinu á mér en það gerir hér (enda efast ég um að þessi færsla verði enn hér á morgun)

Það rignir alltaf á frídögum. Og á helgidögum. Og á helgidögum verð ég líka þunglyndur, sagði það einu sinni og það á enn við. Það er reyndar ekki helgidagur í dag, en af því að allri helgi hefur hvorteðer verið svipt af helgidögum og þennan frídag hellist niður rigning þá á það bara ágætlega við að vera þunglyndur í dag. Eða allavega eitthvað. Ég er ekkert að deyja, þetta er meira svona stemningsþunglyndi, dagurinn í dag, eða þannig. Allir í prófum, allir að læra nema ég, ég nenni því ekki, svo ég fer á kaffihús og ætla að fá mér ostaköku, nema kaffihúsið á ekki nógu mikið af hornum til að leyfa mér að sitja í neinu þeirra; þau eru öll upptekin.
Í staðinn fyrir ostakökuna fer ég þessvegna á kaffihús sem á fyrir mig horn, meira að segja skot, og fæ mér bjór -bjór er alltaf góður fyrir bitra- og ég les í ljóðabók sem ég keypti á föstudaginn (pretentious piece of shit) og ég vissi ekki að þú ættir ljóð þar og hvað sagði stelpan um tilviljanir, þær væru ekki til, þær eru ekki til, ég man þetta ekki alveg, þetta var eitthvað um að tilviljanir væru ekki tilviljanir heldur væru þetta bara einfaldur líkindareikningur, afleiðsla og rökfærsla. Ég hef aldrei verið sérlega góður í því, í þannig, og svo var ég bara að opna bókina fyrst núna, ég keypti svo margar ljóðabækur: Urrabíttann bara samt.
Já, pirraður aftur. Í gær var ég glaður og kátur. Sáttur. Lífið brosti og ég hrópaði húrra og gleðilegt líf á alla kúnna, kerlingar og karla, öllu var tekið með brosi og fyrirvaranum um betri tíð. Núna langar mig á fyllerí. Mig langar á útlenskt fyllerí. Enda ætla ég að opna mér rauðvínsflösku á Kleppi. Enda ætla ég að klára þessa flösku og taka strætó heim í kvöld. Guð sem er dauður má vita hvað ég geri þá.

Mér leiðist...

...og ég held að ég sé búinn með internetið. Hvað gerir maður þá?

Ég var beðinn að auglýsa












Þetta (en ég ákvað að leyfa fólki að sjá hvað stendur þarna).

Rollerblades at night