20.5.06

Frægi ég

Í gær sátum við Magnús og sötruðum bjór á Kaffibarnum. Við sátum á efri hæðinni, úti í horni, og það var svolítið dimmt. Þá vatt sér að mér strákur, hann hefur líklega verið á svipuðum aldri og ég. Hafði brúnt hár og skegg. Með honum var stelpa, löng og mjó, og mér fannst hún alveg hugguleg í gegnum myrkrið. Nema strákurinn rétti fram höndina og heilsaði mér spyrjandi: „Dagur?“
Ég hváði bara og sagðist heita Hallur. Strákurinn muldraði einhverja afsökunarbeiðni, eitthvað um það að hann hafi haldið að ég væri annar, og hljóp næstum í burtu, hvarf sneyptur fyrir hornið. Fyrir aftan hann stóð stóð stelpan og titraði af hlátri. Strákgreyið hefur líklega verið búinn að undirbúa sig undir þetta í talsverðan tíma áður en hann stóð á fætur og ætlaði að kynna sig.

Þannig að þegar ég raka mig þá lít ég út eins og helvítis saungvarinn í Keane og ef ég raka mig ekki þá líkist ég bara leikstjóranum knáa.
Ég verð reyndar að viðurkenna að seinni kosturinn er öllu fýsilegri; reyndar sé ég svolítið eftir því að hafa ekki bara tekið þátt í gríninu, þóst Dagur Kári og farið að segja stráknum frá nýju myndinni minni. Ég hefði jafnvel geta boðið honum að taka þátt.

Engin ummæli:

Rollerblades at night