Það er æðislegt að fylgjast með umfjöllun um kosningarnar. Sérstaklega er gaman þegar kjörstaðirnir sjálfir eru sóttir, álkulegir fréttamenn segja tíðindi af vígstöðvunum og ræða jafnvel við gesti og gangandi, „Má maður spyrja hvað þú kaust?“, „Varstu lengi að gera upp hug þinn?“ og svo framvegis.
Það er hinsvegar nánast óbrigðult, að áður en fréttamennirnir ganga til þeirra verka að yfirheyra fólk fáum við frá þeim örstuttar, misjafnlega þó, lýsingar á veðurfari. Ástæðan er vissulega einföld (fyrir utan þá staðreynd að á Íslandi snýst bara allt um veður): Veðrið hefur áhrif á kjörsókn.
En segir þetta ekki bara allt sem segja þarf um okkur Íslendinga? Að ef að veðrið er ekki nógu gott þá nennum við helst ekki að ómaka okkur við að taka þátt í stjórnsýslu eigin lands?
Af veðrinu er annars það að segja að það byrjaði að rigna fljótlega eftir að ég kom í sveitina. Mér skilst það á hinum pólitísku veðurfræðingum að ástandið sé svipað um allt land, það sé skýjað og bölvaður suddi alstaðar.
2 ummæli:
Já bölvaður veri suddinn. Annars minnir mig að vestanáttin eða hvaðaáttsemvarígær hafi átt að vera Framsóknarmönnum hagstæð...
já það er alþekkt regla á veiðum að standa alltaf undan vindi...
Skrifa ummæli