4.5.06

Kóngurinn af Spáni á götum Salamanca

Já, ég er alltaf að segja einhverjar rónasögur. Eins og ég hafi búið meðal þeirra oft og mörgum sinnum. Sem er alls ekki tilfellið. Þeim finnst bara gaman að tala við mig.
Ég hitti líka róna í útlöndum. Alveg misskemmtilega. Sumir þeirra virtust meira að segja ætla að verða hættulegir. Þeir hótuðu mér og ógnuðu með einhverju sem leit reyndar bara út fyrir að vera síll. Ekki einu sinni skrúfjárn. En ég gaf þeim fimmevruseðil og blótaði þeim, sagði að nú þyrfti ég að vera svangur daginn eftir. Sem var lygi. Ég lifði eins og kóngur heima hjá fjölskyldunni sem ég bjó hjá. Gat ekki klárað allan matinn sem þau buðu mér.
En ég hitti líka einn ágætan. Hann kom til mín og spurði hvort ég talaði spænsku. Það fór náttúrulega ekkert á milli mála að ég var erlendur tungumálanemi. Ég sagði blátt áfram nei.
Hann spurði hvaða tungumál ég talaði, og ég svaraði á íslensku að ég talaði íslensku. Hann yppti öxlum og spurði hvort ég talaði ensku. Ég laug að ég gæti stautað mig áfram. Og stautaði mig glæsilega í gegnum þá lygi. Hann labbaði áfram með mér og talaði alveg ágæta ensku.
Hann sagði mér að hann hefði búið á götunni í þrjá mánuði. Sér hefði skyndilega verið hent út; hann hefði verið að læra efnafræði við háskólann, en nú hefði hann ekki borðað í þrjá daga. Sjálfsagt vantaði eitthvað uppí frásögnina.
Nema hvað, hann var að betla. Mig langaði að gefa honum eitthvað, en ég var bara með kort. Svo ég spurði hvort ég mætti ekki hitta hann þarna daginn eftir, ég skyldi bjóða honum hamborgara og franskar og kannski gæti ég látið einhverja smáaura af hendi rakna líka. Ég væri vitanlega fátækur tungumálanemi, en við skyldum sjá til. Sem skilyrði bað ég hann um að segja mér söguna af sjálfum sér. Ég ætlaði að taka hana upp á minidisk. Hann var aldeilis til, margbenti á hornið sem við stóðum á og benti á klukkuna á Plaza Mayor. Við ákváðum að hittast klukkan ellefu morguninn eftir. Sem var að vísu örlítil bjartsýni af minni hálfu, en hvað um það.
Þegar við kvöddumst veifaði ég honum. Ég var skræfa, ég þorði ekki að taka í höndina á honum. Þrátt fyrir öll okkar vinsamlegu samskipti treysti ég engu um að maðurinn væri ekki eiturlyfjaneytandi með nálar útum allt. Ég bað hann að fara vel með sig og spurði hann um nafn.
„Juan Carlos,“ sagði hann, „alveg eins og kóngurinn af Spáni.“

Morguninn eftir mætti ég á hornið við Plaza Mayor með minidiskspilara og míkrófón. Það gerði hann ekki. Ég sá hann ekkert eftir þetta þó ég hafi leitað að honum. Líklega hefur hann ekki trúað mér.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

var betlarinn þitt eigið sjálf? :)bankokbankokbankok

hallurth sagði...

Þú meinar. Nei, reyndar var hann algjörlega holdlegur og blæðandi. En ég viðurkenni það reyndar að sagan er kannski... ýkt aðeins?
Ekki Bankok að þessu sinni, hvað segirðu um sama tíma að ári?

Nafnlaus sagði...

hver veit hver veit, nema kannski verðum við bæði þá komin með börn og buru!

hallurth sagði...

þú mátt! ég segi nú bara eins og maðurinn: „ég bjóst nú eiginlega alltaf við því að mitt fyrsta [barn] yrði slys...“

Nafnlaus sagði...

pant ekki! börnin mega bíða eftir bankok

Rollerblades at night