31.3.06

„Ástin býr í sódavatnsglasi á Sirkus“ og fleira gamalt: Af gildi endurbirtinga

Ég ætla að svindla smá. Ég ætla að grafa upp þrjár gamlar færzlur af gamla Rithvarfinu okkar Gúnda (sem annars er bara lokað og læst) og endurbirta þær. Nema, ég ætla ekki að birta þær sem þrjár, heldur eina langa. Og það verður líklega lengsta færzla Fimmundarsaungsins hingað til og héðan af, og kemur hér:


8/18/2004
Svo oft rek ég mig á það að því hærra sem maður byggir sér skýjaborgir, því meiri skellur kemur þegar þær hrynja til grunna, undantekningarlaust. Heimurinn heldur samt áfram, en svona draga tilviljanirnar úr áhuga manns á áframhaldandi aðgerðum í eina átt.
Ekki svo að skilja að ég sé að gefast upp á því að vera til og leggjast í þunglyndi, en óneitanlega skipta áherzlur lífernisins um stefnu: eftirlætis hitt og þetta stingur sér í önnur för og minn heimur breytir um stefnu.
Það er tilvistarkreppa í höfðinu á mér núna, sem ætti bara að vera til marks um eitthvað merkilegt. Ég held að það sé kominn tími til að fara í veiðitúr...


8/22/2004
Undanfarið hefur mér liðið ægilega mikið eins og hrúgaldi einhverskonar. Nema, fyrir þær sakir að ég hef liðið heilmikla tilvistarkreppu þennan sama tíma og lesið mikið af hugmyndum heimspekinga liðinna tíma jafnt sem verðandi, þá finnst mér ég vera svolítið meðvitað hrúgald. Það er auðvitað engu betra en að vera sebradýr eða gasella á sléttum Afríku, átta sig skyndilega á örlögum sínum og lífsmunstri og verða að meðvitaðri bráð. Því við slíkri feigð er auðvitað ekkert annað að gera en að leggjast niður og bíða bara átekta, bíða þess sem verða skal.
Ég er hins vegar jafn mennskur og hver annar, og í trúgirni minni, og rekinn áfram af lífsvilja (sem samkvæmt þessari kenningu er jafn tilgangslaus og trúarbrögð sem voru uppgötvuð af spekingum mannkynssögunnar til að hafa hömlur á sjálfum sér og sínum líkum), hef ég enga löngun til að gefast bara upp. Á sólbjörtum en frostköldum haustdögum (sem eru aldeilis mættir) langar mig ekki til að leggjast bara niður og bíða þess að verða bara að því sem annars heillar mig hversdagslega, minningu samferðamanna minna.
Og þar með er lögð heimspekin að baki feitum albínóa.

9/04/2004

Ástin býr í sódavatnsglasi á Sirkus

Ég keypti mér hatt og fór í leikhús með Önnu Marín. Sjónræn heimspeki bíómynda eins og Benny and Joon hafa valdið því að það er ekki hægt að fara svona klæddur í leikhús án þess að hafa með rós. Ég keypti rós og burðaðist með hana í strætó.
„Það er nú alveg nóg að borga fyrir farið, þú þarft ekki að færa mér blóm líka," hló Baldur strætóbílstjóri þegar ég kom um borð.
„Æ, fjandinn. Keypti ég þetta þá að tilefnislausu?" svaraði ég og þóttist taka þátt í gríninu. Inni í mér roðnaði ég og líklega varð ég eins og rósin í framan líka.

Anna tók brosandi á móti þessu framtaki mínu, en neyddist til að brjóta af stilknum til að koma rósinni fyrir í veskinu sínu. Það styttist í henni, því ég var þegar búinn að brjóta af henni.
Hún fékk sér hvítvín með klaka og gaf mér restina úr flöskunni. Ég drakk af stút eins og ótíndur róni. Í hléi fékk hún sér aðra flösku og geymdi hana í veskinu.
Sýningin var mögnuð: loftfimleikar og drama, ástir og svik. Ólafur Darri fór á kostum sem fóstran og Merkútíó fletti upp kufli bróður Lárenz í uppklappi og hneigingum.

Þegar við pöntuðum leigubíl í bæinn hafði hvítvínsflaskan höggvið hausinn af rósinni. Anna fleygði stilknum með söknuði „til hinna vina sinna", trjánna í kring. Leiðir okkar skildust um skamma stund en seinna um kvöldið, þegar ég hitti hana aftur á skemmtistaðnum Sirkus blasti við mér rósarhaus sem haldið var á lífi í sódavatni eða tónik.

Engin ummæli:

Rollerblades at night