27.8.06

Samheldnar flugur

Þegar ég var lítill var ég í einhverjum hasarleik með frænku minni og frænda. Á einhverjum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við höfðum verið að hoppa og leika okkur, traðka og setjast ofan á hunangsflugu töluvert lengi. Skræfan ég fór eitthvað að ímynda mér að kannski hefði hún „kallað á vinkonur sínar“ í dauðahryglunum, og áður en við næðum að hlaupa í næsta hús mættum við eiga von á býflugnasvermi eins og maður hafði séð í teiknimyndum. Ég hef lengi hlegið að þessari ímyndunarveiki í mér.
Núna er ég hinsvegar að lesa það að þetta gera vespur (geitungar) einmitt. Geitungur sem verið er að kremja sendir út einhverskonar ýlfur sem kallar til alla nálægar vespur. Ég geri reyndar ráð fyrir því að þær þurfi að vera sömu tegundar, en þar sem aðeins fjórar tegundir geitunga lifa á Íslandi (trjágeitungur eða Norwegian wasp (dolichovespula norwegica); holugeitungur eða common wasp (paravespula vulgaris); húsgeitungur eða german yellowjacket (paravespula germanica); og roðageitungur eða red wasp (paravespula rufa)) þá held ég að það ætti ekki að þurfa að bíða lengi eftir því.

Nánari upplýsingar um þessi djöfulsins kvikindi er að finna hér, hér, hér, hér, hér og hér. Skemmtið ykkur vel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já veistu ég heyrði líka sögu af einni dauðhræddri húsmóður sem var með miklu hugrekki nýbúin að setja glas yfir geitung í glugganum, þegar hún sá að það hékk bú fyrir utan gluggan. Og í sömu andrá flykktust geitungarnir í haugum út úr búinu og byrjuðu að hamra á gluggan, fljúga sem brjálaðar á hann og reyna að finna leið inn... eins og þetta væri bara þeirra eina markmið í lífinu. Þá hefur flugan sem álpaðist inn verið búin að senda út einhvers konar hjálparkall. Oji...

Rollerblades at night