Auðvitað er þetta alveg fín mynd. Gæsahúð yfir tónlist og svona, búið að stela hugmyndinni minni um að byggja mynd á þessu blessaða lagi; Sofðu unga ástin mín er bara dramatískasta barnaþula íslenskunnar, þrátt fyrir að Sigur Rós hafi sönglað Bíum Bíum upp á nýtt, með öllum sínum drunga og allri sinni dramatík.
„Hún er nú þegar orðin tekjuhæsta íslenska myndin,“ hvíslaði pabbi að mér þegar við fylgdum þvögunni inn í salinn. Það er ekki furða. Þetta er bara byggt á svoleiðis bók, þetta gat ekki farið úrskeiðis. Svolítið eins og Englar alheimsins. Fólkið í salnum bar þess líka greinileg merki. Meðalaldur þess var örugglega um fjörutíuogfimm til fimmtíu ár. Og eftir sýninguna sagði konan fyrir aftan mig: „Mér fannst hún minna mig á Óðal feðranna. Það er líka náttúrulega eina almennilega myndin eftir þann mann.“ Ég held að ég skilji hvað hún var að fara, en mikið ofsalega var það grunnhygginn dómur. Svolítið eins og að bera saman Intimacy og Debbie Does Dallas. Ætti maður kannski bara að gera það? Flokka myndir eftir útlitinu? Og fólk líka?
Myndin hans Baltmáks er hinsvegar ofboðslega íslensk, grá og veðurbarin. Sem er alveg fallegt, finnst mér. Og leikararnir standa sig líka prýðilega. Ég er reyndar orðinn hálf þreyttur á þeim mikla karakter Ingvari E. Sigurðssyni, en hann er fantaleikari samt. Gaman að sjá að íslenskir leikarar eru svona hægt og bítandi að komast í það að leika - þetta snýst ekki lengur bara um það að TALA SKÝRT OG GREINILEGA. Ef þið fattið.
En hverjum datt samt eiginlega í hug að kvikmynda skandinavíska, sósjalrealíska leynilögreglusögu. Ég hef reyndar séð sænska svoleiðis, byggða á bók eftir Henning Mankell. Eða Hennkell Manning, eins og mér tókst að kalla hann í ógáti. Fyrri hluti Mýrinnar líður líka fyrir það að vera byggð á einni slíkri. Allar þessar þunglyndu leynilöggur strunsandi fram og til baka, keyrandi Reykjanesbrautina eins og þær geti ekki ákveðið sig hvort þær eigi að flýja land eða ekki, og allskonar fólk að dunda sér við að fylla upp í skjáinn.
Eftir hlé er þetta samt fínt. Kemur smá hasar, brotin mynda heild, heimurinn tekur á sig mynd - verði ljós. Eða þannig.
Æ, mér finnst hún alveg fín bara.
4 ummæli:
Ætli hún sé ekki tekjuhæst því það kostar svona 4000 kall inná hanaæ.
heheh 1200 kall, en samt, hún var nokkuð góð fannst mér,eina að Ólafía Hrönn fannst mér ekki alveg nógu sannfærandi
Mjög góð en Ingvar ekki nógu gamall og í of nýrri peysu.
Sammála að mér fannst Ólafía Hrönn heldur ekki nógu góð.
Skrifa ummæli