9.10.06

Sálufélag og sitthvað fleira

Þegar ég var lítill var voðalega vinsælt að trúa á sálufélaga. Allskonar amerískar hugmyndir um eina manneskju sem maður þurfti að finna í heiminum, og hún væri sú rétta fyrir mann. (Barnsleg rómantík í anda níunda áratugarins; endurmat hugsjóna hippatímabilsins).
Þegar ég varð örlítið eldri var það hinsvegar vinsælt að trúa ekki á sálufélaga. Að maður ætti ekki að vera að leita að þessari einu sönnu ást: hún væri ekki til og þessvegna myndi maður bara missa af lífinu og ástinni almennt ef maður væri alltaf að bíða hennar. (Hér hafði níhílík aldamótakynslóðarinnar tekið yfir, Vinir og Seinfeld sögðu manni hvernig skyldi lifa í leikjum og brjóta reglurnar með því að setja þær á annað borð.)
Hugmyndafræðin breyttist með þriðju tölu ártalsins. Menn urðu svartsýnni, og þunglyndi jókst. Guð gaf nánast endanlega upp öndina og stríð eftir stríð höfðu líklega hrakið fólk út í horn í hugsjónastarfsemi sinni. Eiturlyf og skemmtanafíkn voru eina leiðin útúr rútínu hversdagsins. Eftir áratuga öfluga notkun voru menn svo bara uppgefnir.
(Ég geri mér grein fyrir því að stundum er það skelfilegt hve félagslegt uppeldi mitt var í höndum stelpna. Yfirleitt ekki, ég held að ég hafi komið nokkuð vel út.)

Í dag veit ég ekkert hvað ég á að halda um þetta sálufélag. Undanfarið hef ég samt hallast svolítið í nýrómantík og síttaðaftan hugsjónir. Svo á ég líka hundrað krónur danskar.

(Aldrei að vita nema ég veiti verðlaun þeim sem túlkar þessa vitleysu skemmtilegast.)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessar hugmyndir eru raunar komnar frá Platón, ekki Ameríku. Það lærði ég að minnsta kosti í einhverri Bandarískri bíómynd fyrir löngu ... annars hallast ég að kenningu Ethan Hawke, að í staðinn fyrir að þetta sé einfalt eins og á dögum Platóns þá hafi mannfjölgunin orðið til þess að sálufélög hafi komið í stað sálufélaga. Arabarnir með kvennabúrin voru náttúrulega bara á undan sínum tíma, gleymdu bara að hafa karlabúr líka ... hvað er annars í verðlaun? Hundrað danskar?

hallurth sagði...

Það er sjaldan vænlegt til vinnings að benda leikjahaldara á hvar hann fer með staðreyndarvillur. En ekki séns að ég hafi ætlað að gefa nokkrum krónurnar mínar dönsku; (semikomma) þær ætla ég að nota sjálfur eins fljótt og auðið er.

Rollerblades at night