1.11.06

Haltur Þór

Ég var búinn að dunda mér við það að semja fullt af bloggfærslum í huganum, þar sem ég sat á Hlemmi (stóð upp, gekk óþolinmóður um og settist aftur niður) og beið eftir að leið tólf léti sjá sig. Það gerði hún næstum tíu mínútum of seint, svo þegar ég rauk útúr vagninum var ég þegar orðinn of seinn í tíma. Ég hef alls ekki mætt nógu vel í skólann. Nú skyldi verða breyting þar á.

Ég komst yfir hálfa Suðurgötuna áður en ég skellti ökklanum á mér í L og hrundi á hnén. Það var dimmt úti, loftið ferskt af frosti, og ég ákvað að hlaupa yfir tóma götuna áður en umferðin kæmi. Mér var líklega nær að nýta ekki hellulögðu göngubrautina sem liggur þvert í gegnum þessa umferðareyju sem skilur akgreinarnar að. Nema hvað, eftir þessari hellulögðu göngubraut trítlaði stelpa sem hafði farið útúr vagninum á sama stað og ég, horfði á mig og brosti vandræðalega. En gekk áfram án þess að segja neitt. Brosti bara til mín, þar sem ég lá kvalinn á hnjánum og saup hveljur (ég geri það gjarnan þegar ég misstíg mig eins og þetta).

Mér tókst ekki einu sinni að sitja allan tímann. Klöngraðist inn í stofuna með látum, sat svo átti erfitt um andardrátt -hitinn inni í stofunni var ferlegur og á einhverjum tímapunkti fannst mér að ég myndi kasta upp áður en ég næði hléinu. Svo ég rauk út með svipuðum látum og ég hafði komið inn. Og tók strætó á heilsugæslu í sveitinni, sem vildi endilega senda mig í röntgen. Það þurfti ekki nema tvo lækna til að taka þá ákvörðun.

Þannig að núna er ég á hækjum og löngu búinn að gleyma öllum þessum bloggfærslum sem ég samdi á Hlemmi.

Engin ummæli:

Rollerblades at night