Þetta er hvorteðer farið til helvítis. Það er líklega bara best að hypja sig brott, fjúka af þessu landi eins fljótt og auðið er. Ekki hanga í þessari sentimentalísku eftirsjá eftir grjóti og dauðu grasi. Best að hypja sig í borg þar sem maður getur látið sig hverfa án þess beinlínis að hætta að vera til; þar sem maður getur horfið í fjöldann án þess að beinlínis fyrirgera eigin tilvist; þar sem maður þarf ekki að taka þátt í mikilvægum umræðum um samfélagsleg deiluefni þar til gröfturinn vellur úr eyrunum á manni; þar sem maður getur verið hugsjónadrusla án þess að blóðið drjúpi úr kjafti og af klóm.
Ég er ekki þunglyndur, ég lofa, mér leiðist bara veðrið hérna. Líklega er veðrið ekkert betra hinum megin við hafið, líklega er fólkið alveg jafn kjánalegt - líklega eru þau bara verri. En ég get allavega gengið að því vísu að eitthvað þar er betra en hér, eitthvað sem togar af hörku.
(Þessi færsla er endurtekning, hún var skrifuð áður en hvarf. Þetta er samt ekki sama færslan, bara næstum því. Kannski kemur frummyndin aftur seinna, kannski birtist hún uppúr þurru. Kannski ekki. Ef svo er, þá er eftirmyndin orðin að frummynd.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli