Það hefur verið töluvert um flutninga í húsinu undanfarið. Bæði komnir nýir grannar handan stigagangsins og undir gólfinu mínu. Einhverjir þessara nágranna eiga líka rúm hvers gafl er ekki skorðaður almennilega upp við vegginn.
En áður en grannarnir undir gólfinu fluttu inn hófu þau heilmiklar endurbætur á húsnæðinu sem þau ætluðu að búa í. Þannig að á hverjum morgni hófust hamarshögg og vélsagasurg löngu fyrir þann tíma sem mig langaði til að vakna á. En þetta var víst alltaf á löglegum tíma svo ég má ekki kvarta, skilst mér.
Nema hvað, eitthvað hafa þau tekið pípulagnirnar hjá sér í gegn, og þeirra pípulagnir hljóta eiginlega að tengjast áveitukerfinu í íbúðinni sem ég bý í. Því núna get ég ómögulega farið í sturtu án þess að vatnið sé orðið á við vatn úr goshver, hvað hitastig varðar, áður en ég veit af.
Nema, mér tekst yfirleitt að löðra mig allan í sápu og jafnvel setja sjampó í hárið á mér áður en vatnið rýkur í þetta hitastig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli