27.6.06

Dans í svörtu

Það var miklu meiri stæll yfir dómurum í gamla daga. Nú mega þeir ekki einu sinni þrusa gulu spjaldi eða rauðu í leikmann, þá eru þeir nefnilega að sýna honum óvirðingu! Af því að leikmennirnir sýna dómurum einmitt ítrekaða virðingu. Nema hvað, í gamla daga flautuðu dómarar alltaf með nettum sveiflum og danssporum. Hendurnar eins og á löggu á gatnamótum, út og suður og upp í loft. Þá var líka miklu auðveldara að fyrirgefa dómurum illa grundvallaða dóma, ef þeir bara tóku sporið aðeins.
Væri örugglega ekki svona mikið um umdeilda dóma á HM ef Graham Poll og Valentin Ivanov hefðu tekið smá sveiflu með öllum spjöldunum sínum. Þó Ivanov hafi slegið met með öllum þessu rauðu í leik Hollendinga og Portúgala, þá held ég Poll hljóti að hafa gert það líka þegar hann gaf Simunic þrjú gul spjöld í einum leik. Ég hefði viljað sjá smá tangó með því þriðja.

Engin ummæli:

Rollerblades at night