24.6.06

HM: Að spá í sextán liða úrslit

Gambrinn tók sig til og spáði fyrir um sextán liða úrslitin. Svo asnaðist hann til að skora á mig að herma. Fara í eitthvað kapp, einvígi, giskkeppni. Ég er frekar lélegur í svoleiðis, og mig langar óskup að komast einhvernveginn hjá því. En mér koma eitthvað svo fáar afsakanir í hug, svo hér á eftir fer mín spá. Hafa ber í huga að hún er mjög! lituð af ég vildi óska faktornum. En allavega:


  • Þjóðverjar ættu að taka Svíana. Svíarnir hafa ekki spilað sinn besta bolta hingað til, og hafa að vissu leyti verið heppnir að ná inn mörkum. En duglegir líka. Ljungberg hættir aldrei. Svo það er ómögulegt að afskrifa þá. Skandinavinn í mér æpir (innra með mér) Áfram Svíþjóð! En raunsæjisröddin á öxlinni (les: pabbi minn) hnussar og segir: Þetta eru Þjóðverjar. Þeir vinna alltaf. Það er bara þannig. Minnumst líka öll orða Linakers um hvað fótbolti er; tuttugu og tveir menn á velli að elta bolta og Þjóðverjar vinna.
  • Ég tek þetta bara eftir riðlum. Ekki hvaða leikir eru næstir. Þannig að akkúrat hér höfum við Ekvador og England. Við hljótum að treysta því bara að Englendingar taki Miðbauginn. Bara svona eins og við treystum því að sólin komi upp á morgun og kjarnorkustyrjöld sem útrými heiminum eins og við þekkjum hann sé hræðsluáróður sem við sitjum uppi með úr kalda stríðinu.
    Englendingar hafa einfaldlega betri leikmenn. Þó að ég sé ekki hrifinn af Crouch (og júvíst, ég er Púlari!) þá hafa þeir leikmenn eins og Gerrard, Lampard, J. Cole og náttúrulega Rooney litla, sem geta gert útum leikinn á augabragði. Við hljótum því bara að treysta því að Augustin Delgado eigi ekki einhvern undraleik og slái Engilsaxana út.
  • Þá eru það riðlar C og D. Argentína og Mexíkó á að vera borðliggjandi leikur. Argentínumenn, sem hafa sýnt bestan, og eiginlega jafnastan, leik hingað til, eiga að sigra Mexíkóa. En þarna eru náttúrulega tvær Ameríkuþjóðir, handanhafsþjóðir, paurar og pjakkar sem eiga að kannast hvorir við aðra og svona. En ég skýt á Argentínu, þó mér fyndist nú pínu gaman að sjá Marquez pota einu inn, helst í uppbótartíma. Ég fíla nefnilega ekki Argentínu.
  • Hinum megin höfum við þá Portúgal og Hollendinga. Scolari vs. Van Basten. Fadó vs. Jazz.
    Mikið rosalega langar mig að segja að Hollendingar hafi þetta. Þeir appelsínugulu laumi einni sendingu af kantinum („frá Robben þá?“ hvín núna í einhverjum háðfuglinum) í tærnar á Nistelrooy og net. Ricardo er ekkert alltaf öruggasti markmaður í heimi.
    En ég er alls ekki nógu viss. Portúgalir hafa svosum spilað vel í keppninni til þessa, en voru ekki í neitt svakalega sterkum riðli og hafa átt erfitt með að setja inn mörk. Vantar einhvern herslumun hjá þeim. Svo ég ætla að gerast djarfur og trúa því að Marco Van Basten og félagar hafi þetta af. Og Robben skorar. Þó hann sé Chelseatrúður.
  • Ítalir mæta Áströlum í þessum úrslitum. Guus Hiddink er löngu búinn að sýna fram á hæfni sýna sem knattspyrnuþjálfari. Alvöru kall þar. Ítalirnir eru hinsvegar með þrususterkt lið. Það væri eitthvað óeðlilegt við það að þeir myndu ekki taka þetta. Það væri helst einhverjum klaufagangi að kenna, uppsöfnuðum spjöldum, pirringi yfir að skora ekki strax eða þvíumlíku, að þeir gætu misst þetta niður. Gleymum því hinsvegar ekki að Ástralir hafa verið að spila skemmtilegan fótbolta. Og þeir náðu jafntefli við Króata sem hafa sterkt varnarlið. Svolítið eins og Ítalir. Króatar höfðu hinsvegar engan til að skora mörk fyrir sig. Eða Pörsó gerði allavega eitthvað lítið af því.
    Haukur Ingvarsson gerði heiðarlega tilraun til að fá mig af aðdáun minni á Áströlum. Hann benti á ástralsk sjónvarpsefni fyrir unglinga sem var ákaflega vinsælt hjá Ríkisútvarpinu Sjónvarpi fyrir einhverjum tíu, fimmtán árum. Fjör á fjölbraut og svona.
    Því miður, ég held ennþá með Hiddink og Áströlunum. En ég held að Ítalir hafi þetta af.
  • Brasilíumenn eiga svo að taka Ghanamenn. Ghana hefur raunar alla burði til að vera spútnikk keppninnar. En mig minnir einhvernveginn að Essien hafi fengið annað gult spjald í síðasta leik riðlakeppninnar og verði því ekki með á móti Brössunum. Skarð fyrir skildi og gæti haft meira að segja en menn vilja vera láta. Ég held að Brasilíumennirnir komist áfram, en ég er ekkert viss um að þeir eigi það skilið. Hafa virkað þungir og frekar leiðinlegir á mig. Burtséð frá öllum væntingum og kjaftæði sem þessir sparkspekingar eru búnir að vera að burðast við að minna á.
  • Ég hata þennan leik. Þetta er annar leikurinn í vetur þar sem við Magnús mætumst. Hinn var úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Hann var Arsenal, ég Barca. Ég vann. Ég er hræddur um að ég vinni ekki aftur. Sem er svindl! Spánn er klárlega með eitt skemmtilegasta lið keppninnar, þrátt fyrir leik varaliðsins á móti Sádum. Spánverjar eiga að rúlla upp þessu franska liði sem hingað til hefur skriðið í gegnum riðlakeppnina á fjórum fótum. Frakkadruslur. En svo koma þeir í útsláttakeppninni og Púff! Galdraverk eitthvað. En nei, ég ætla að halda með mínu liði! Spánn skal það vera. 2-1. Gefum Terry Henry eitt.
  • Og að lokum. Sviss á að éta Úkraínumenn með þessari vörn. Reyndar spurning um Senderos. Hann staulaðist útaf og höndin á honum lafði eins og gúmmíslanga. Frekar ógeðfellt. En ég vil samt að Svissararnir taki þetta. Bara hlutlaust (ég er fyndinn).

Það er nefnilega það. Svo mörg voru þau orð. Til að summa þetta upp þá spái ég sigri: Þjóðverjum, Englendingum, Argentínumönnum, Hollendingum, Ítölum, Brasilíumönnum, Spánverjum og Svisslendingum. Heim ættu því að fara (sé ég einhver spámaður): Svíar, Ekvadorar, Mexíkanar, Portúgalir, Ástralir, Ghanamenn, Frakkar og Úkraínumenn.
En hvað veit ég um þetta?

Engin ummæli:

Rollerblades at night