Einn af mínum eftirlætis rithöfundum sem skrifa á íslensku, stærir sig af því að hafa verið sjómaður. Annar íslenskur rithöfundur, löngu dauður, var kokkur á skútu. Hans frásagnir þykja mér líka skemmtilegar. Frændi minn er líka sjómaður. Honum hef ég alltaf haft gaman að; hann er örlítið eldri en ég, en ég hef alltaf haft mikið álit á honum. Annar frændi minn var líka sjómaður, alveg þangað til hann fékk yfir sig tonn af þangi (eða þvíumlíkt) og varð fyrir varanlegum hnjámeiðslum. Þá safnaði hann hári, fékk sér leðurgalla og hjólaði um Evrópu þvera og endilanga. Kynntist krimmum og góðhjörtuðum hjólahippum. Hann er bróðir hans pabba. Hann er stórskemmtilegur.
Afi minn var sjómaður. Ég þekkti hann aldrei, en hvernig getur maður annað en borið virðingu fyrir afa sínum?
Mergurinn málsins: Sjómenn eru ekki einir um að vera dregnir í dilka. Fólk talar oft og mörgum sinnum um helvítis artífartí liðið og er þá að meina fólk með ullarhúfur í skærum litum, eða í áberandi lituðum fatnaði almennt; fólk sem hefur látið skærin flakka í gegnum höfuðið á sér eftir einhverjum kaótískum reglum sköpunarferlis. Fólk fellur að staðalmyndum fyrir það eitt að vera í ákveðnu starfi! Og mér er ekki illa við sjómenn. Þessir sjómenn sem við Ásta hittum á djassbar í Kaupmannahöfn voru bara alveg sérstaklega fyndin dæmi. Það er ákveðinn talsmáti, það eru ákveðin viðhorf, það er ákveðin hugmyndafræði. Þetta eru sjómenn, þeir umgangast sjómenn, þeir þekkja til sjómanna. Það er í sjálfu sér ekkert niðrandi þó ég tali um sjómenn sem skemmtilegar týpur, og þó ég tali um þessa einstaklinga sem steríótýpur, þá meina ég ekki endilega að allir sjómenn séu kjánalegir eða ég geti ekki borið virðingu fyrir þeim.
3 ummæli:
Pabbi minn er sjómaður!!!!
samkvæmt ríkisskattstjóra er ég sjómaður. Ég er líka lifandi ímynd hins íslenska sjómanns finnstérekki?
Já, Þórdís, þú fellur líka fullkomlega að þessari steríóímynd íslenskra sjómanna.
Og Tinna: Töff.
Skrifa ummæli