12.12.06

Að skilgreina veröldina upp á nýtt

Þegar ég kom inn á Hlemm heyrði ég konu æpa lágt. Ekki svosum eins og um neina neyð væri að ræða, mér þótti bara líklegt að hún hefði misst af strætó. Enda sá ég hana út undan mér í dyrunum móts við lögreglustöðina.
Á meðan ég sat svo og beið varð ég var við þetta aumingjalega óp aftur og aftur. Konan hljóðaði reglulega upp yfir sig, aldrei hærra en í fyrsta skiptið, og í hvert skipti minnti það mig meira á gargandi gæs, eða máv. Mér datt í hug að hugsanlega væri um örlítið þroskahefta manneskju, eða einhvernveginn fatlaða, að ræða.

Að lokum stóðst ég ekki mátið og næst þegar hún hljóðaði leit ég við. En hún var ekki þar. Í hennar stað var ungur strákur í dyrunum. Hann gekk inn og fékk sér sæti. Hann var bara ósköp venjulegur. Um leið og hann fékk sér sæti, strunsaði stelpa á aldur við mig inn um dyrnar og hurðin flaug upp á ný. Það brakaði í hjörunum, hljómaði ekki ólíkt og kona að æpa lágt upp yfir sig...

Engin ummæli:

Rollerblades at night