18.12.06

Vont en það venst

Ég er ennþá syfjaður. Og ennþá á leiðinni í próf, á morgun - það er loka. Annars er ég alltaf í vinnunni, og alltaf syfjaður, svo lesturinn er eitthvað skringilegur. Horfði hinsvegar á Blade þríleikinn í andvöku næturinnar. Og borðaði pítsu með. Hún var heit til að byrja með, en þegar maður vaknar aftur klukkan fimm og heldur áfram að narta í hana, þá hefur hún kólnað.

Í syfjunni verða sjónvarpsþættir hinsvegar vondir. Slæmir þættir verða allt í einu ennþá verri. Eiginlega afbrigðilega slæmir. Hálf kómískt eitthvað, en dálítið neyðarlegt að maður sé að glápa á þetta. Tilgangsleysið a´bakvið það algert.
Tyrfnir heimspekitextar verða hinsvegar bara óskiljanlegir. Líkingin úr Gúmmí-Tarsani kemur upp í hugann, og skyndilega eru stafirnir orðnir að maurum á fleygiferð eftir blaðsíðunni. En Gúmmí-Tarsan var lesblindur (þó það hafi heitið eitthvað annað þá) en það er ég ekki. Ég er bara blindur. Það kom einmitt berlega í ljós um helgina þegar „hjúkrun gítarsjúklinga“ var fyrir augunum á mér, og einhver hafði „fót til sölu“. Hvorttveggja illskiljanlegt, en við nánari eftirgrennslan var um að ræða gigtarsjúklinga og föt til sölu. Lætur nærri. Minnir mig samt aðalega á Afa drullusokk og unglingaspennubókina Leggöngin. (<-).

Engin ummæli:

Rollerblades at night