16.3.07

Kartaflan sem táknmynd græðgi í heiminum

Í Gautaborg settumst við inn á tapasbar og átum kvöldmat. Við veltum því fyrir okkur hversu mikið við þyrftum að panta fyrir okkur þrjú og gestgjafi okkar í Gautaborg sagði okkur söguna af síðustu kartöflunni.
Hann hafði farið þarna áður, komið þarna með vinum eða fjölskyldu. Þau hefðu pantað sér marga rétti og deilt þeim með sér, eins og maður gerir almennt á tapasbörum. Þegar leið á máltíðina fóru þau að átta sig á því að þau hafi líklega pantað fullmikið af réttum, því ennþá var talsvert eftir á diskunum, en minna um pláss í mögum. Þó hafi þau haldið áfram að troða í sig, vélað sig í gegnum hvern diskinn á fætur öðrum svo tæmdist hægt en örugglega af þeim.
Að lokum var ekkert eftir nema einn lítill kartöflubiti í aioli. Þar sem báturinn sigldi einmana um hvítlaukssæ disksins fannst gestgjafanum okkar ákaflega svekkjandi að skilja hann eftir og hugsaði með sér að hann langaði í þessa kartöflu.
Það var því algjörlega ótengt hungri að hann réðst til atlögu með gaffalinn mundaðan, og tróð þessum síðasta bita ofan í sig.

Frá því í Gautaborg hefur frasinn „kartaflan“ verið notaður til að gefa til kynna að um eintóma græðgi sé að ræða.

Engin ummæli:

Rollerblades at night