28.3.07

Að stikna

Það er ekki laust við að skapið léttist og brúnin lyftist þegar maður röltir út í fimmtán gráðu hita, á celsius, og sólin skín og fuglarnir syngja og vorið brosir og býður manni ó, svo góðan dag. Kaupmannahöfn er sérlega falleg í dag.

Það sagði mér einhver af frosthörkum á skerinu þarna norður í rassgati...

Hetjur á flótta


Á einhverju tímapunkti datt ég harkalega ofan í sjónvarpsþáttinn um Hetjurnar. Eitthvað plott sem minnir óneitanlega á Exfólkið, fólk sem uppgötvar hálfyfirnáttúrulega hæfileika á hinum ýmsu sviðum, og indverski erfðafræðingurinn sem rekur þetta allt saman og skilur svo vel. Svo er illmennið sem hleypur á eftir öllum verðandi hetjunum og reynir að öðlast hæfileika þeirra með því að drepa þau á ansi hrollvekjandi hátt.
Sumsé, Köngurlóarmaðurinn og Súpermann og Batmann í einum graut: Ofurhetjur. Vel að merkja, ein hetjanna heitir Hiro (enda Japani) sem útleggst hetja upp á enska tungu. Ofurhetjur fyrir fullorðna.

En á einhverjum tímapunkti fóru fram umræður sem breyttu þessari hugmynd um ofurhetjur fyrir fullorðna.
Það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér hvað hetjurnar eru alltaf vanmáttuguar gegn vonda karlinum. Allir þættir virðast enda illa (svo ekki sé talað um að allt hangi á bláþræði í lok hvers þáttar). Þannig hlaupa þær um alla heima og geima og reyna að hitta á aðra sem eru líkar þeim sjálfum, en eru alltaf á flótta undan því illmenninu.
Af þeim þáttum sem ég hef séð virðist boðskapurinn ætla að verða: Hið vonda verður einungis sigrað ef hið góða (hetjurnar) tekur sig saman í andlitinu og vinnur saman að eyðingu hins illa.

Ásta kom með það þegar hún sagði: Kærleiksbirnir, stara!

16.3.07

Kartaflan sem táknmynd græðgi í heiminum

Í Gautaborg settumst við inn á tapasbar og átum kvöldmat. Við veltum því fyrir okkur hversu mikið við þyrftum að panta fyrir okkur þrjú og gestgjafi okkar í Gautaborg sagði okkur söguna af síðustu kartöflunni.
Hann hafði farið þarna áður, komið þarna með vinum eða fjölskyldu. Þau hefðu pantað sér marga rétti og deilt þeim með sér, eins og maður gerir almennt á tapasbörum. Þegar leið á máltíðina fóru þau að átta sig á því að þau hafi líklega pantað fullmikið af réttum, því ennþá var talsvert eftir á diskunum, en minna um pláss í mögum. Þó hafi þau haldið áfram að troða í sig, vélað sig í gegnum hvern diskinn á fætur öðrum svo tæmdist hægt en örugglega af þeim.
Að lokum var ekkert eftir nema einn lítill kartöflubiti í aioli. Þar sem báturinn sigldi einmana um hvítlaukssæ disksins fannst gestgjafanum okkar ákaflega svekkjandi að skilja hann eftir og hugsaði með sér að hann langaði í þessa kartöflu.
Það var því algjörlega ótengt hungri að hann réðst til atlögu með gaffalinn mundaðan, og tróð þessum síðasta bita ofan í sig.

Frá því í Gautaborg hefur frasinn „kartaflan“ verið notaður til að gefa til kynna að um eintóma græðgi sé að ræða.

14.3.07

Ungmennahúsið - jarðhæð

Ungmennahúsið við Jagtvej hefur verið jafnað við jörðu. Eftir stendur jörð á milli tveggja húsa. Ground 69 segja börnin, og vitna þannig í núlljörð tvíburaturnanna föllnu. Fallegt í hugsjón, en engan veginn jafn dramatískt. Það dó enginn.
Blóm og kransar virðast aldrei hafa verið afþökkuð, og nóg er af þeim. Börnin halda áfram að flykkjast á Jörð 69 og gráta þungum tárum. Bílabruni og lögregluhasar hafði fátt annað í för með sér en vitleysisgang og uppgang föðurhúsanna. Það er heilmikil kaldhæðni fólgin í því að kristilegi söfnuðurinn Föðurhúsin skuli vera að sussa á börnin við Jagtvej.

Og heimurinn heldur áfram að hrörna. Sama hvað við reynum.

8.3.07

Sókrates snýr aftur


Ég velti því stundum fyrir mér af hverju það er ekki búið að hasarvæða Platon og skella honum á kvikmyndaform. Richard Attenborough gæti farið í hlutverk Sókratesar, það ku vera í tísku að leika ófrítt fólk meðal Hollywoodleikara í dag. Mel Gibson væri svo kjörinn til að leikstýra kraðakinu. Hann gæti jafnvel haft þetta á forn-grísku!
Við sáum annars Apocalypto í gær. Mér finnst hún alls ekki jafn slæm og henni hafði verið lýst fyrir mér, en skelfing raung var hún samt. Nenni hinsvegar ekki að velta mér upp úr því -nóg gladdi mig það að sjá Spánverjana vappa þarna fagurbrynjaða (og sagnfræðilega ranglega)- en frasinn „Run, [f]orest, run“ hlaut á skemmtilegan hátt nýja merkingu fyrir mér.

5.3.07

Norðurbru brennur


Þeir eru að rífa ungmennahúsið við Jagtvej í dag. Mér datt slæmur Hafnarfjarðarbrandari í hug þegar ég horfði á vörubíl með braki úr húsinu bruna eftir götunni minni (sem er spölkorn frá horninu þar sem helstu átökin hafa farið fram) í fylgd sérsveitar lögreglunnar. Fjórir brynvarðir sendiferðabílar umkringdu ruslabílinn og saman þeysti fylkingin með logandi sírenur, og vælið í takt, út götuna.

Annars var ég í Svíþjóð um helgina, svo ég missti af mesta hasarnum. Þeir segja það að hjólreiðamenn hafi tekið sig saman og klingt bjöllum um alla borg í gær.

Leigubílstjórinn sem kom okkur skötuhjúunum heim í gær vildi samt meina að samúð með ungmennunum færi þverrandi. Hinum almenna Kaupmannahafnarbúa finnst lítið varið í að þurfa að óttast að koma að bílnum sínum í björtu báli, eða fá múrstein í hausinn. Hópur evrópskra innflytjenda (Íslendingar, Frakki og hálfur Englendingur/Dani) vildi hinsvegar ólmur græða á óeirðunum, og datt í hug að rölta niður á Rundelen með hjólbörur fullar af múrsteinum og kastanlegu grjóti, bensíni og flöskum og tuskum til að bleyta í, og sitthvað fleira í þeim dúr, og setja upp svolítinn sölubás á staðnum.

1.3.07

Nef fyrir tímasetningum


Ég ætla að birta þessa mynd aftur, mér finnst hún flott.

Það verður hinsvegar seint um mig sagt að ég kunni ekki að velja tímann. Á morgun flyst ég búferlum, endanlega, í hringiðu mótmæla og slagsmála á Norðurbrú. Næstu fregnir af mér verða því væntanlega sagðar með barefli á lofti við þá iðju að verja eigin híbýli frá hamslausum lýð. Það er ekki laust við að maður lifi spennandi lífi.
Á sama tíma hríðfellur verð á bókum, og bókamarkaður opnar í Kringlu. Þar hefði ég mögulega geta tapað mér og eytt sem nemur fjórföldum mánaðarlaunum bankaforstjóra. Matvöruverð fellur tímabundið í nánast eðlilegt horf. Ég á svosum eftir að sjá það gerast, en fyrstu dagarnir munu vafalítið einkennast af einhverskonar sigurvímu almennings, þar sem hver maurinn af öðrum verslar sér fulla körfu allskyns ónauðsynja til að kanna hvort verð hafi breyst á þessari vöru og hinni.
Og kók verður ódýrast. Gosdrykkir og sælgæti. Á meðan ætla ég að lifa heilsulífi í óeirðunum, læra að lifa af einni máltíð á dag (svo nægur peningur verði eftir fyrir námsmannabjór), og lesa mig nær geðveilu en ég hef áður komist. Og svo ætla ég að stunda heilmikið kynlíf.

En ég kem í stutta heimsókn í vor, aðalega til að framkvæma einhvurn prófagjörning, og þangað til bið ég ykkur vel að lifa.

Rollerblades at night