10.10.06

Jukkurnar á Hlemmi

Hverjum datt það eiginlega upphaflega í hug að troða þessum pálmajukkum í glerbúrin á strætóhúsinu á Hlemmtorgi? Hvurn fjandann á þetta eiginlega að þýða? Er þetta táknrænt fyrir einhverskonar vin í stórborgareyðimörkinni? Eða eiga þessar steindauðu pálmajukkur að standa fyrir frumskóginn sem stórborgin (með öllum sínum heterótópísku svæðum eins og Hlemmi) er?
Væri ekki bara nær að henda alvöru gróðri þarna inn, og skella kannski dansandi öpum eða litríkum páfagaukum með? Þá myndi þetta allavega hreyfast...

George Costanza

„I'm much more comfortable critisizing people behind their backs.“

9.10.06

Það sem koma skal?

Það er alltaf oftar og oftar sem ég tek eftir rauðhærðum fegurðardísum að kyssa karlmenn í sjónvarpinu. Og oftar en ekki hafa karlmennirnir eitthvað sem ég tengi samstundis við sjálfan mig: Einn vildi vera rithöfundur, annar átti hatt og sá þriðji spilaði á bassa.
En svo var það náttúrulega þessi með leppinn.

Sálufélag og sitthvað fleira

Þegar ég var lítill var voðalega vinsælt að trúa á sálufélaga. Allskonar amerískar hugmyndir um eina manneskju sem maður þurfti að finna í heiminum, og hún væri sú rétta fyrir mann. (Barnsleg rómantík í anda níunda áratugarins; endurmat hugsjóna hippatímabilsins).
Þegar ég varð örlítið eldri var það hinsvegar vinsælt að trúa ekki á sálufélaga. Að maður ætti ekki að vera að leita að þessari einu sönnu ást: hún væri ekki til og þessvegna myndi maður bara missa af lífinu og ástinni almennt ef maður væri alltaf að bíða hennar. (Hér hafði níhílík aldamótakynslóðarinnar tekið yfir, Vinir og Seinfeld sögðu manni hvernig skyldi lifa í leikjum og brjóta reglurnar með því að setja þær á annað borð.)
Hugmyndafræðin breyttist með þriðju tölu ártalsins. Menn urðu svartsýnni, og þunglyndi jókst. Guð gaf nánast endanlega upp öndina og stríð eftir stríð höfðu líklega hrakið fólk út í horn í hugsjónastarfsemi sinni. Eiturlyf og skemmtanafíkn voru eina leiðin útúr rútínu hversdagsins. Eftir áratuga öfluga notkun voru menn svo bara uppgefnir.
(Ég geri mér grein fyrir því að stundum er það skelfilegt hve félagslegt uppeldi mitt var í höndum stelpna. Yfirleitt ekki, ég held að ég hafi komið nokkuð vel út.)

Í dag veit ég ekkert hvað ég á að halda um þetta sálufélag. Undanfarið hef ég samt hallast svolítið í nýrómantík og síttaðaftan hugsjónir. Svo á ég líka hundrað krónur danskar.

(Aldrei að vita nema ég veiti verðlaun þeim sem túlkar þessa vitleysu skemmtilegast.)

7.10.06

Gæfulegar fyrirsagnir

Helvíti þykir mér Moskva orðin gagnrýnin.

Sagði sú stutta:

- Ert þú að fara að vinna í nótt?
- Já.
- En þú mátt það ekki - þá koma bófarnir og stjela þér!
- Nei, ég er einmitt að passa að bófarnir steli ekki neinu. Það er það sem ég geri í vinnunni.
- (Hugsar sig örlítið um) Ég veit hvað þú gerir.
- Hvað geri ég?
- Ég skal lána þér sverðið mitt. Ég á svona sjóræningasverð. Þá geturðu barið alla bófana sem ætla að stjela þér með því.

4.10.06

Enn í Kaupmannahöfn

Þetta hlaut að gerast. Líklega betra að þetta gerist strax, og að ég finni far fljótlega, heldur en að ég sé að missa marga daga úr vinnu og skóla. En ég missti af vélinni og fer ekki heim fyrr en á föstudag. Sem er alveg tveimur vikum of snemma.

1.10.06

Tilviljanir

Á Kaffi Evrópu, gegnt Kaffi Norðri við Amagertorg, sátum við og gæddum okkur á sýnishornum af öllum eftirréttum sem staðurinn bauð upp á. Við hliðina á okkur sátu gömul hjón sem höfðu setið með okkur um borð í bát og hlustað á djassinn gæða Höfn lífi.
Meðan Ásta talaði í símann ræddu hjónin ákaflega um myndir á veggnum við hlið okkar. Næst okkur var mynd sem þeirri gömlu varð tíðrætt um, og gerði mikið til að útskýra fyrir eiginmanni sínum hver væri. Ég þekkti nafnið hinsvegar úr þessari færslu.

Fréttir frá Höfn

Sigling eftir skipaskurðum Kaupmannahafnar og í stefni stendur djasshljómsveit og spilar létt dixieland ættað frá borginni sokknu, New Orleans. Sól skín og veðrið er ljómandi og maður ljómar sjálfur yfir hugulsemi og yndisleika.
Með kvöldinu kom svo rigning og ljósleiftur og læti af himnum en mér var alveg sama. „Þegar ástin grípur unglingana,“ sagði myndlistarkona við mig um daginn, og á leiðinni til Keflavíkur, eldsnemma á laugardagsmorgni, hlógu foreldrar mínir að breyttum tímum, og vitnuðu til landsföðurins og frelsishetjunnar og nafna hins nýja formanns villtast og trylltasta flokksins í borginni.
Ég nenni hinsvegar ekki heim þó ég neyðist til þess. Eins og Jerseyjarbúinn sagði forðum daga á Frakklandsströndum: „I don't wanna go back home. I've really nothing to do there; I seriously don't nenn it!“

Rollerblades at night