9.12.06

Hafnarskáld í Nörrebro

Það er á svona stundum sem mér er skapi næst að verða bara löghyggjumaður. Hlutirnir ganga bara upp. Við fengum svar í dag, draumaíbúðin okkar Ástu býðst okkur til leigu frá því um miðjan janúar. Ég fer reyndar ekki fyrr en í marsbyrjun, en það hefur spilast þannig úr þessu að Ásta getur flutt inn fyrst. Það var bara ekki hægt að sleppa þessari íbúð á svona tækniatriði.

En nú er ekki annað hægt en að dansa og tralla. Ásta kemur annars heim á fimmtudaginn. Ekkert nema glaumur og gleði framundan... um leið og ritgerðin er frá.

Bassaleikari í bæjarstjórastól

Bæjarstjórinn í Bolungarvík spilar á bassa í hljómsveit. Þetta er einhverskonar heldrimannapönk, og ætli þetta sé ekki Lýður læknir sem er þarna í forsvari? Er ekki alveg viss.

Það er óveður og allar sjónvarpsstöðvar hafa gefið upp öndina, nema RÚV.

Það sem maður veltir fyrir sér til þess að hugsa ekki um ritgerð

Menning er alvörumál. Og sérstaklega íslensk menning.“

Þetta stendur í Lesbókinni í dag. Á eftir fylgir svo einhver lýsing á atburði sem fram leiddu lúffulegur íslenskur eiginmaður og spéhrædd nútímakona. Ég skildi ekki alveg samhengið. En fór að hugsa um Íslendingasögurnar.
Sagnaarfinn.
Ég skil ekki alveg hvað það er í þessum flóttamannasögum norskra glæpamanna, sem flúðu réttvísina; úr einu hálfbyggilegu landi í annað, sem þeim fannst vera svo langt í burtu að það gæti ekki verið að neinn fyndi þá þar; hvað það er í þessum frásögnum sem okkur Íslendingum finnst gefa okkur rétt til að vísa frá fólki sem hugsanlega myndi hafa miklu meiri áhuga á að færa íslenskt samfélag og menningu inn í nútímann. Hvernig flokkum við annars fólk sem kemur inn í landið sem verðugt eða óverðugt? Hver er mælikvarðinn? Hversvegna er íslenskur nauðgari rétthærri en litháenskur? Er ekki bara málið að senda alla glæpamenn úr landi? Og ef enginn vill taka við þeim getum við flutt þá Vestmannaeyinga sem eru ekki glæpamenn bara til landsins (eða út í einhverja aðra eyju ef þeir skyldu endilega vilja vera svona hálfpartinn á floti, nóg er af skerjum í kringum Ísland), og ferjað svo bara alla glæpamenn til Eyja. Þeir gætu þá stofnað nýlendur sín á milli, pólska nýlendan í dalnum og gamlir Íslendingar fá að vera þar sem bærinn stendur.

Ég veit ekki. Eiginlega langaði mig bara að kalla menningararfinn norskar flóttamannabókmenntir.

Þvinguð ritgerðarsmíð um miðja nótt

Mér líður svolítið eins og ég sé bundinn niður, hendur fyrir aftan bak og fætur upp í loft, og augun á mér hafi verið þvinguð upp með einhverju áhaldi úr köldu stáli. Mér finnst eins og skæru ljósi sé beint í augun á mér á meðan einhver stendur og sparkar reglulega í höfuðið á mér, svolítið fast, en ekki nógu fast til að ég missi alveg meðvitund, frekar að ég vankist.

Það hefur reyndar talsverð áhrif á þessa vanlíðan mína, að ritgerðarefnin eru ekki sérlega liðleg, og eru alls ekki birtingarmynd minnar upplifunar af þessum ágæta kúrsi. Þvert á móti, lesi maður yfir þau þá var þetta hundleiðinlegur kúrs. Sem mér fannst einmitt ekki.

Úr sjónvarpinu

Samkvæmt X-files er brunnur lífsins falinn um borð í norsku skipi.
Það hefði hinsvegar ekki verið svo út í hött að láta þau Mulder og Scully drepast úr elli, eins og aðstæður virðast hafa skipast í þessum þætti. Táknrænt í það minnsta.

Úti í tunglsljósi

Jú, það var ansi huggulegt að rúnta eftir þjóðveginum með sítrónugulan hálfmána í stefni. Hann lá afvelta, karlinn í tunglinu, svona spikfeitur, en skelli-, skellihlæjandi.
Ég er ekki alveg viss hvort umferðin hafi liðið svona hægt áfram, þægilega yfirveguð, af því að allir ökumennirnir voru með hugann við tunglið eins og ég, en eitthvað var það.

8.12.06

Um gagnvirkni

Það er fáránlegt að geta ekki flett dagblöðum, lesið pistla þar og kommentað svo á þá.

Heima

Kom í gærkvöldi. Reykjavík í ljósum logum úti í myrkrinu og Reykjanesbrautin, appelsínugult strik í gegnum hraunið, eins og olíuvætt reipi sem hefði verið notað til að tendra borgina.
Einhverra hluta vegna þótti mér samt vænna um að koma heim í gær, heldur en í hin fjögur skiptin. Sjálfsagt er það af því að Ásta kemur heim eftir viku, og alla dagana þangað til hún kemur verð ég á kafi í próflestri og ritgerðarsmíð.
Líklega hefur það samt sitthvað að segja að þetta var líka síðasta heimsóknin til Danmerkur.

Næst þegar ég fer veifa ég fingri eða lófa að landinu, fer eftir skapi, og verð í burtu um óákveðinn tíma. Ekki minna en tvö ár þó, ef frá eru talin nauðsynlegar heimsóknir til Íslands vegna prófa.

4.12.06

Um Íslendinga og tengsl þeirra við umheiminn: Nútímasamskipti í essinu sínu

Um leið og hjólin snertu flugbrautina upphófst mikill kór. Hver farsímakveðjan á fætur annarri glumdi í litla rýminu, og í kjölfarið fylgdi píp eftir píp; smáskilaboð sem höfðu beðið á meðan flugvélin sjálf var utan þjónustusvæðis boðuðu nú komu sína.
Þessi kór kveðjutóna og píphljóma entist i að minnsta kosti tíu mínútur. Á einhverjum tímapunkti langaði mig að skera af mér eyrun.

3.12.06

Karlmenn í kvennærfatadeild tískuverslana:

Líða á eftir eiginkonum eða kærustum eins og skuggar eða fylgjur, með hendur í vösum og augun flakkandi á milli gólfs og lofts; þeir eru bara þarna, „konan er að skoða“, og þeir hafa ekkert sérstakt álit: „Jú elskan, þetta er ljómandi snoturt, gullfallegt alveg. Jújú, í alvöru, jú, mér finnst það, virkilega fallegt.“
Ekki beinlínis við hæfi að hafa álit, en þó verða þeir að segja eitthvað.
Mæta öðrum karlmanni og kinka kankvíslega kolli, „Jújú, blessaður,“ og horfa snarlega undan með hendurnar rígbundnar í vasana, eða utan um innkaupapoka úr annarri búð.

Mikið væri gaman að verða vitni að manninum sem stæði við rekka með rauðar kvennærbuxur úr silki og hrópaði fullur aðdáunar yfir búðina: „Heyrðu Stína, sjáðu hér. Ferlega væri ég til í að sjá þig í þessum í kvöld! Þær myndu alveg sýna rassinn á þér í réttu ljósi.“

Rollerblades at night