29.9.06

Fimmhundruðasta færslan

Í dag ætlaði ég í búð. Hún reyndist vera lokuð fyrir sakir afmælis fyrirtækisins.

- Gjörðu svo vel Tinna mín.

Tímasetningar

- Og hvar varst þú þegar þeir myrkvuðu göturnar?
- Í strætóskýli með krosslagða fingur.

28.9.06

„Ég er að kenna.“

Hvað gerir maður þegar maður stendur fyrir framan fullan sal af fólki, og í miðjum fyrirlestri hringir síminn sem er í manns eigin brjóstvasa? Auðvitað svarar maður bara.

Gauti Kristmanns er annars frábær kennari.

27.9.06

Aldrei muntu einsamall ganga

Á SkjáEinum ræddu forsetinn og einhver stelpa, við Guðrúnu og Felix, um gildi gæðastunda með fjölskyldunni, og samvista ungmenna við foreldra sína. Ég lækkaði hinsvegar stólbakið og skipti yfir á Sýn.

Koffín

Eftir kaffibollann í morgun missti ég tímabundið vald á munninum á mér. En ég talaði svosum ekkert af mér, svo mér er sama.

25.9.06

Íslensku stelpurnar

„Já, við vorum svolítið stressaðar þarna í lokin,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, í Helgarsportinu.

Borg

Á gatnamótum Laugavegs og Vitastígs sat útlendur maður og spilaði á harmónikku. Fyrir framan hann hafði hann stillt töskunni utan af hljóðfærinu, og þar hafði safnast fyrir lítilsháttar hrúga af klinki. Rétt á undan mér kafaði gömul kona ofan í veskið sitt og bætti á hrúguna.

24.9.06

Plága

Ég hef nánast lokið við verklega hluta geitungaveiðinámsins. En hef svosum engan áhuga á áframhaldandi frama í þeirri grein. Reyndar er ég næstum viss um að alvöru geitungaveiðimenn (sem nefnast líklega meindýraeyðar í daglegu tali, og sinna að öllum líkindum fjölbreyttari störfum en geitungaveiðum) noti talsvert háþróaðari tæki en ég; bjórglas og glósubók hljóma bara eitthvað svo ólíkleg atvinnutæki. Allavega fyrir þessa iðngrein.
Ég nota þessi sömu tæki talsvert við önnur tækifæri.

22.9.06

Í tilefni þess að næturvöktum er lokið þar til í október, og framundan er heimsókn til Danmerkur:

Hvar sem ég kem að eiga sér stað hápólitískar og heimspekilegar umræður um mannlega tilvist, trúarbrögð, réttlæti og hvunndaginn. Sem betur fer virðast flestir sammála um að virða beri almenn mannréttindi, en menn greinir gjarnan á hvaða leiðir sé best að fara til að sætta þá ólíku hópa sem mannfólkið greinist í.
Meira og minna allt virðist annars ganga mér í hag. Heimurinn er uppfullur af kátínu. Kannski er það bara ég, kannski er það bara ástandið sem ég er í.
Líklega spilar hugarfarið svona inn í, en ef ég skyldi taka upp á því að vinna í Lóttóinu um helgina hlýt ég að fara að hugsa mig um tvisvar. Gúmmiteygjukenningin hefur í gegnum tíðina grafið sig fast inn í huga kaldhæðinnar kynslóðar sem ólst upp við níhílíska poppmenningu og sjónvarpsþætti eins og Seinfeld.
En þrátt fyrir ljósmengun í miðbæ Reykjavíkur fann ég myrkur á milli ljósastaura þar sem ég sá glampa í stjörnur, og velti fyrir mér hvor þær sæjust líka yfir dimmum kanölum í Kaupmannahöfn. Bráðlega get ég kannað það sjálfur.
Ég get varla beðið.

(Nú er næturvöktum lokið og eftir að hafa sofið vel úr mér og gengið örlítið um miðbæ Reykjavíkur með framtíðarplön í maganum, er gaman að vera til).

21.9.06

Meiri flækjur

Ég er að reyna að koma verkefninu um Sókrates og fluguna saman, en á erfitt með það fyrir flugunni sem suðar í kringum mig. Ég er alveg viss um að hún hafi einhversstaðar komist í amfetamín.

Brjáluð í buslið

Þær kenningar eru uppi um að kvikmyndin Swimfan hafi til að bera þann alversta og mest óspennandi titil sem nokkur ræma hefur borið í allri kvikmyndasögunni.
En það er kannski ekki svo slæmt, myndin sjálf er ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Flækjur

Einhverra hluta vegna á ég orðið erfitt með að nálgast skólaverkefni. Líklega er hugurinn bara annarsstaðar, en ég verð að finna einhverja lausn á þessu.

20.9.06

Tíminn líður

Merkilegur finnst mér hann, maðurinn sem sagði að tíminn væri bara eitthvað sem mennirnir hefðu fundið upp til að telja niður í eigin dauða.

19.9.06

Hvernig stendur á því...

... að á háskólastigi skuli finnast kúrs sem ítrekar það að maður ástundi gagnrýna hugsun, en ekki í of miklum mæli? Sumsé, vera kreatívur, en samt helst ekki. Og að í sama áfanga fari fram hugtakaleikfimi sem gerir manni fullkomlega ókleift að gera rétt?

Stóri sannleikur?

Þegar grundvöllur skynjunarinnar, forsenda tilverunnar, hefur breyst, þá er heimurinn hreint ekki svo slæmur. Og það án þess að færa málfræðina á núllpunkt. Guð fyrirfinnst hvorteðer í semíkommunni.

Klukkan er að verða fimm og ég á að vera lesa. Nennessekki.

18.9.06

Hugsjónaauglýsingar

Í Kaupmannahöfn spjallaði ég við Bandaríkjamann sem fylgist með, og hefur gaman af, fótbolta. Hann var reyndar bundinn einhverjum tengslum við Ítalíu og ítalskan bolta, en bar engu að síður mikla virðingu fyrir Barcelona. Helsta ástæða þess var reyndar ekki fótboltalegs eðlis, heldur fannst honum það óendanlega virðingarvert að félagið væri í fyrsta skipti í rúmlega hundrað ára sögu þess, að prenta auglýsingar framan á bolina. Og hvað auglýsa þeir? Unicef.

Og svo kom Eiður inn á...

... og allir samherjar hans virtust hafa yfirgefið völlinn. Eiður átti allar sendingar, skiptingar og stoðsendingar, hann átti þau skot sem hittu á markið og fiskaði að lokum víti. Reyndar skoraði Ronaldinho úr því, en Eiður hefði allt eins geta gert það líka, því hann fiskaði vítið og markmanninn útaf. Andstæðingarnir féllu fyrir fótum Eiðs, þeir lögðust á hnén og tilbáðu hann líkt og hann væri hinn íslamski Allah, eða Kristur á páskadag. Eiður var því vitaskuld maður leiksins, þó hann hafi ekki leikið nema korter.

Að minnsta kosti ef maður sneri hnakkanum í skjáinn og hlustaði bara á lýsinguna hans Gaupa.

17.9.06

Burt vil ek

Dúndrandi bebop í hátölurunum en verkefnið um hlutverk Guðs í menningu og vísindarannsóknum miðalda og framundir upplýsingu lætur eitthvað lítið fyrir sér fara á frekar tómlegu blaði á skjá. Ekki nema þrjúhundruð og fimmtíu til fimmhundruð orð. Hlýtur að hafast fyrir miðnætti annaðkvöld.
Mig langar svo yfir hafið, ég er springa.

Rebus

„The rank goes off with the rest of the kit.“

16.9.06

Heimspeki og broddflugur

Aðfaranótt fimmtudags heimsótti mig geitungsdreki. Laumaðist inn um gluggann klukkan hálfþrjú, vakti mig suðandi og fékk sér svo sæti í sólinni frá leslampanum. Mér var nær að kveikja þegar ég heyrði suðið í honum. Ég barðist hetjulega hálfa nóttina, þangað til mér tókst að lauma honum ofan í glas.
Morguninn eftir svaf ég yfir mig. Missti af tíma í heimspeki þar sem tilkynnt var um fyrsta ritgerðarefni vetrarins. Ritgerðin er svosum varla verð heitisins. Þrjúhundruð og fimmtíu orð teljast varla ritgerð. Nema hvað, efnið: Í málsvörninni líkir Sókrates sér við broddflugu. Hvaða ljósi varpar sú líking á hugmyndir hans um hlutverk heimspekings?

Joyeux Noël

Í tilefni af orðum Páfans um illskuna og Múhameð spámann, langar mig að vitna aðeins í prédikun sem kemur fyrir í myndinni Joyeux Noël:
Kristur sagði, „Haldið ekki að ég komi til að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að boða frið, ég kom vopnaður sverði.“ Mattheusarguðspjall. Já, bræður mínir, sverð Guðs er í ykkar höndum. Þið eruð verndarar siðmenningar. Öfl góðs gegn ills. Þetta stríð er vissulega krossferð, heilagt stríð.

Annars er þessi mynd rúmlega þess virði að kíkja á hana. Hún segir sögu af svona atburðum, og þó hún sé kannski ekki sönn staf fyrir staf, þá gerðust atburðir eins og þessir víðsvegar á víglínunum þessi fyrstu jól stríðsins.

15.9.06

Auglýsingahlé

„Það getur komið sér vel á annasömum degi að klæðast Rugby herranærfötum.“

Tímaprakkarinn

Man annars einhver eftir þessum gaur?

Menningarneysla og afþreying

Tvær ástralskar sjónvarpsstöðvar berjast hatrammlega um hvor verður á undan til að bjarga ungum munaðarleysingja í Indónesíu frá því að verða étinn. Stríðið á milli þeirra felst greinilega í því að þær ætla sér að klekkja á andstæðingum sínum.
Er ekki svolítið táknrænt að strákurinn sé orðinn bitbein sjónvarpsins?

Haustmyrkur

Hana. Klukkan háflsex í morgun var ennþá niðadimmt úti og hálft tungl skærgult þarna uppi. Allavega eitthvað fleira en snaróðir geitungar sem minna mann á það að það er allavega haust handan við helgina.

Um tíma og veru (og ást og Atlantshaf)

Ferlega hægir tíminn á sér þegar maður er ástfanginn yfir heilt úthaf.

13.9.06

Þetta með veðrið

Það er eitthvað við rigningu og rok sem lýsir Íslandi betur en allt annað, og útskýrir landið meira en maður vill kannski viðurkenna.

11.9.06

Af hrakandi tízkuvitund Dana

Einhverra hluta vegna finnst dönskum karlmönnum töff að ganga um í fölbleikum bolum og skyrtum. Það finnst mér ekki. Alls ekki.
Raunar finnst mér þessi litur ekki hæfa neinum sem hefur yfirstigið fyrsta ár ævinnar.

10.9.06

Á öngstrætum Kaupmannahafnar

Mér leiðast ferðasögur sem leyfa mér ekki að ljúga. Höfn hefur heldur ekkert breyzt í næstum hundrað ár, nema Danir hafa misst alla tízkuvitund.
Ég er á lífi og mér líður stórvel. Ef ég mætti ráða kæmi ég ekkert aftur. En ég ræð engu.

7.9.06

Höfn í sjónmáli

Ellefuhundruð fimmtíu og fimm mínútur í það að ég lendi í gamla höfuðstaðnum. Og framundan er svefn. Sú athöfn sker að minnsta kosti fimmhundruð mínútur af þessum ellefuhundruð fimmtíu og fimm. Hugsanlega meira.
Svo er ég líka búinn að baða mig og allt. Gæti jafnvel skolað af mér aftur áður en ég rekst á sætustu stelpu í heimi (og þótt víðar væri leitað) aftur.

6.9.06

Mannaþefur

Það er svakalegur fnykur af mér núna. Sé sápu og rennandi vatn í hillingum!

Ómur hversdagsins XI - Syngjandi verkamenn

Það er farið að hausta aftur. Í portinu hafa komið sér fyrir útlenskir smiðir og iðnaðarmenn. Ég er ekki alveg viss hvað þeir eru að bralla, en einhver er að endurbæta hjá sér. Mennirnir hefja störf snemma morguns. Klukkan hálfátta taka þeir léttan söng meðfram verkum sínum. Þá nota þeir gjarnan sagir og hamra sem hljóðfæri til undirleiks.
Í morgun vaknaði ég við léttan lagstúf, mér heyrðist hann pólskur eða rússneskur að uppruna.

4.9.06

Kardemommurisið

Af öðrum ljónum er það helst að frétta að ég er nýbúinn að semja við eitt um að gæta íbúðarinnar sem ég bý í næsta árið. Því til auðveldunar hef ég eftirlátið því annað herbergjanna sem prýðir þessa litlu íbúð, og gert við það munnlegt samkomulag um að það láti nú örugglega allar tærnar á mér í friði.

Söknuður (yfirþyrmandi)

Á föstudaginn ætla ég að setjast upp í flugvél og lauma mér til Kaupmannahafnar að hitta ljón og anda að mér útlöndum. Nú má gjarnan hraða vikunni.

3.9.06

Staðsetningar

Á skjáborði símans míns er mynd af fallegri stelpu. Það eina sem skemmir fyrir eru svartir, feitir prentstafir á enninu á henni sem stafa fyrirtækjaheitið: Síminn.

2.9.06

Við upphaf skólaárs

Fyrsta grein sem lesa þarf heima þessa skólaönnina er í kúrsinum Menningarheimum. Að sjálfsögðu reyndist hún á dönsku. Það þótti mér ekkert nema jákvætt, tákn til framtíðar jafnvel, og ákvað að taka þetta með trompi.
Í höndunum hef ég áttatíu ára gamla danska orðabók Freysteins Gunnarssonar, með íslenzkum þýðingum. Hún er í raun byggð á orðabók Jónasar Jónassonar og Björns Jónssonar, en aukin og breytt.

Ég ætla sumsé að rifja upp dönskuna mína með hundrað og tíu ára gamalli orðabók. Mér finnst það töff.

Á-fram-sókn

Jón Sigurðsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, byrjar frumkvöðlastarf sitt sem framherji villtasta og trylltasta stjórnmálaafls á Íslandi, með því að réttlæta tilraun Ísraela til útrýmingar Líbana. Þeir ku vera eina ríkið sem veit að þeir verða að verjast með sókn. Nonni notar íþróttamál: sókn er besta vörnin, og svo framvegis.
Því ef þeir slátra ekki fyrst, þá verður þeim bara slátrað. Enginn agi á þessum Aröbum þarna, þessum villingum í eyðimörkinni. Áfram Nonni!

Söknuður (vaxandi)

Maginn á mér er undinn upp á prik. Í huganum er ég farinn að þylja vikudaga, svo mánaðardaga, og ímynda mér að um leið og ég segi þá í huganum séu þeir að líða.
Sem stendur erum við bara til í svarthvítu (nema hárið þitt, það missir ekki lit). En bráðum.

1.9.06

Áfram Afturelding

Í Knattspyrnufélaginu Nördi eru að minnsta kosti tveir gamlir Mosfellingar.

Skyndihugdetta

Eitt augnablik lét ég mér detta það í hug að kaupa bara bækurnar Hyvin Menee! og Suomi-Englanti-Suomi Taskusanakirja og láta það gott heita til náms í vetur.

Rollerblades at night