31.3.06

„Ástin býr í sódavatnsglasi á Sirkus“ og fleira gamalt: Af gildi endurbirtinga

Ég ætla að svindla smá. Ég ætla að grafa upp þrjár gamlar færzlur af gamla Rithvarfinu okkar Gúnda (sem annars er bara lokað og læst) og endurbirta þær. Nema, ég ætla ekki að birta þær sem þrjár, heldur eina langa. Og það verður líklega lengsta færzla Fimmundarsaungsins hingað til og héðan af, og kemur hér:


8/18/2004
Svo oft rek ég mig á það að því hærra sem maður byggir sér skýjaborgir, því meiri skellur kemur þegar þær hrynja til grunna, undantekningarlaust. Heimurinn heldur samt áfram, en svona draga tilviljanirnar úr áhuga manns á áframhaldandi aðgerðum í eina átt.
Ekki svo að skilja að ég sé að gefast upp á því að vera til og leggjast í þunglyndi, en óneitanlega skipta áherzlur lífernisins um stefnu: eftirlætis hitt og þetta stingur sér í önnur för og minn heimur breytir um stefnu.
Það er tilvistarkreppa í höfðinu á mér núna, sem ætti bara að vera til marks um eitthvað merkilegt. Ég held að það sé kominn tími til að fara í veiðitúr...


8/22/2004
Undanfarið hefur mér liðið ægilega mikið eins og hrúgaldi einhverskonar. Nema, fyrir þær sakir að ég hef liðið heilmikla tilvistarkreppu þennan sama tíma og lesið mikið af hugmyndum heimspekinga liðinna tíma jafnt sem verðandi, þá finnst mér ég vera svolítið meðvitað hrúgald. Það er auðvitað engu betra en að vera sebradýr eða gasella á sléttum Afríku, átta sig skyndilega á örlögum sínum og lífsmunstri og verða að meðvitaðri bráð. Því við slíkri feigð er auðvitað ekkert annað að gera en að leggjast niður og bíða bara átekta, bíða þess sem verða skal.
Ég er hins vegar jafn mennskur og hver annar, og í trúgirni minni, og rekinn áfram af lífsvilja (sem samkvæmt þessari kenningu er jafn tilgangslaus og trúarbrögð sem voru uppgötvuð af spekingum mannkynssögunnar til að hafa hömlur á sjálfum sér og sínum líkum), hef ég enga löngun til að gefast bara upp. Á sólbjörtum en frostköldum haustdögum (sem eru aldeilis mættir) langar mig ekki til að leggjast bara niður og bíða þess að verða bara að því sem annars heillar mig hversdagslega, minningu samferðamanna minna.
Og þar með er lögð heimspekin að baki feitum albínóa.

9/04/2004

Ástin býr í sódavatnsglasi á Sirkus

Ég keypti mér hatt og fór í leikhús með Önnu Marín. Sjónræn heimspeki bíómynda eins og Benny and Joon hafa valdið því að það er ekki hægt að fara svona klæddur í leikhús án þess að hafa með rós. Ég keypti rós og burðaðist með hana í strætó.
„Það er nú alveg nóg að borga fyrir farið, þú þarft ekki að færa mér blóm líka," hló Baldur strætóbílstjóri þegar ég kom um borð.
„Æ, fjandinn. Keypti ég þetta þá að tilefnislausu?" svaraði ég og þóttist taka þátt í gríninu. Inni í mér roðnaði ég og líklega varð ég eins og rósin í framan líka.

Anna tók brosandi á móti þessu framtaki mínu, en neyddist til að brjóta af stilknum til að koma rósinni fyrir í veskinu sínu. Það styttist í henni, því ég var þegar búinn að brjóta af henni.
Hún fékk sér hvítvín með klaka og gaf mér restina úr flöskunni. Ég drakk af stút eins og ótíndur róni. Í hléi fékk hún sér aðra flösku og geymdi hana í veskinu.
Sýningin var mögnuð: loftfimleikar og drama, ástir og svik. Ólafur Darri fór á kostum sem fóstran og Merkútíó fletti upp kufli bróður Lárenz í uppklappi og hneigingum.

Þegar við pöntuðum leigubíl í bæinn hafði hvítvínsflaskan höggvið hausinn af rósinni. Anna fleygði stilknum með söknuði „til hinna vina sinna", trjánna í kring. Leiðir okkar skildust um skamma stund en seinna um kvöldið, þegar ég hitti hana aftur á skemmtistaðnum Sirkus blasti við mér rósarhaus sem haldið var á lífi í sódavatni eða tónik.

30.3.06

Nú liggur vel á mér

Ég veit ekki af hverju, en ég er í glimrandi góðu skapi. Kannski er það bara nóg að koma undir bert loft á ný, að rísa svona upp úr veikindum.

29.3.06

Stjörnuspá dagsins

„Æ, trúðu bara, það er svo miklu auðveldara,“ sagði vinkona mín einu sinni við mig:

Fiskarnir (19.feb - 20.mars)
Samkvæmi kann að vera framundan sem verður þér óvænt til framdráttar. Sért þú einhleyp/ur verður ástin á vegi þínum innan fjórtán nátta. Ef þú ert óörugg/ur með þig og getu þína um þessar mundir ættir þú að horfa með jákvæðum augum fram á veginn og sannfæra sjálfið um að þú ert fær um hvað sem verður á vegi þínum.
Ég verð eiginlega bara að gera það. Annað væri svartsýni og vonleysi!

28.3.06

Af upphafi tímans

Jæja, smá fyrir kommentakerfið. Segið mér, öll sem eitt, hverjar eru ykkar hugmyndir um upphaf tímans? Og ekkert nafnleysi takk fyrir, bara, þið vitið, hvernig tengjast ykkar trúarbrögð hugmyndum ykkar um upphaf heimsins og tímans?
Já, ég er alveg dottinn í það...

Heilbrigð sál í hraustum...

Fyrsta máltíð dagsins (morgunverður) klukkan hálffjögur á þriðjudegi. Samt var ég að deyja úr hungri klukkan fimm í nótt. Þá var ég ennþá að lesa Sögu tímans.

Það sem þú lest er ekki það sem þér ber að skilja...

Þetta er bara veðrið á Íslandi. Einn daginn virðist allt í lukkunnar velstandi, en áður en maður getur snúið sér við er komið rok og rigning.
Þá er bara bezt að flýja í næsta hús. Til að forðast fárviðrið er náttúrulega bezt að flýja til annarra landa.

Við erum annars háð veðrinu á Íslandi. Við lifum í takt við það, hegðum okkur í takt við það. Við erum bara veðrið á Íslandi.

Vertu kát, kæra vinkona.

27.3.06

Rok

Það er á svona dögum sem mig langar til að sjá Galdrakarlinn í Oz aftur.

Leyndarmál

Mig langar svo að deila þessu með öllum. Mér finnzt þetta svo óskaplega spennandi.

En ég er að hugsa um að bíða aðeins með það.

Hallur í útlenzkri orðabók

Ég gat bara ekki látið hjá líða að birta þetta hér, mér finnzt þetta svo fyndið!



Hallur --

[noun]:

A dance involving little to no clothing



'How will you be defined in the dictionary?' at QuizGalaxy.com

Sjónhverfing tímans

Ég hef misst allt tímaskyn. Mér skilst að það sé kominn sumartími í útlöndum.

Það hlýtur að vera ástæðan.

26.3.06

Um veru og tíma

Hef ekki haft tíma til að lesa hana. Búinn að vera veikur.

Held mig kannski bara við Wittgenstein.

25.3.06

Hetjur Ljósvellings

Síðastliðinn fimmtudaginn mætti ég Ármanni Jakobssyni á förnum vegi. Við óðum yfir Birkimelinn á sama tíma, handan Þjóðarbókhlöðunnar, og mættumst á honum miðjum.

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ég stokkið til og tekið í höndina á honum, kynnt mitt vefegó og þakkað honum fyrir síðuna hans. Skilað jafnvel kveðju frá henni Þórdísi.
En ég var með Krulludýr upp á arminn. Krulludýrið hefur gaman af að gera grín að mér. Sérstaklega að svona hlutum. Svo ég sleppti því að heilsa honum.

Eftir á að hyggja getur þetta vel hafa verið Sverrir, bróðir Ármanns.

Myndugheit

Skyldu allir myndast vel, eða töff, að minnsta kosti einu sinni á ævinni?
Ég held að ég þekki engan sem á ekki að minnsta kosti eina flotta mynd af sér.

24.3.06

Og ég sakna þín...

...eins og eyðimerkur sakna rigningarinnar.

Snörl

Djöfull toli ég ekki stíbblad def...

Í túninu heima

Að hætti annarra stórskálda, stakk ég af í sveitina til að leggjast í pest. Tilraunir til að sníkja mömmuhjúkrun hafa þó enn sem komið er ekki gengið sem skyldi.
Ég tók hins vegar með mér heila hillu bóka, svo ekki verð ég aðgerðalaus. Og nú er internetið komið hingað í sveitina, svo það er ekki fjarri lagi að ég geti haft samband við umheiminn þrátt fyrir að vera svo fjarri siðmenningunni.

Hitt er það svo að leynilega aðdáandanum mínum er guðvelkomið að annazt mig hér. Hér er aukarúm ef viðkomandi missir af áætlunarbifreiðinni aftur til borgarinnar.

Heimahjúkrun

Það hlaut að koma að því. Ég er að leggjast í þessa helvízku flensu sem allir aðrir hafa vælt undan þessar liðnu vikur. Lýsi hérmeð eftir huggulegri og velmeinandi fröken til að annazt mig þessa helgi.
Reyndar ætla ég á tvær leiksýningar - aðra á laugardagskvöldið, hina sé ég sunnudagskvöldið. Og svo verð ég á fullu í bóklestri. Fyrir skólann. Vantar bara einhverja til að hugga mig og hjúkra. Breiða yfir mig sængina og færa mér heita drykki og svona.

Hvur býður sig fram í þetta?

23.3.06

Og já...

... það má ekki gleyma hamingjubókinni: A Brief History of Happiness.

Þetta verður gaman.

Staupasteinn IV

„Gee, for someone whose wife has just left, he looks awfully upset.“

Helgin framundan

Vera og tími, Vera og einskisheit, Inngangur að frumspeki, Hugleiðingar um frumspeki, Uggur og ótti, endurtekningin, Tractatus Logico-Philosophicus, Handan góðs og ills, Gorgías, Endurtekningin, Saga tímans, Frá eftirlíkingu til eyðimerkur, Donnie Darko, Tólf apar, Einkavegir, Heimspeki verðandinnar, Sjónhverfingar, List kenninganna (1900-2000), Marshall McLuhan, Slagsmálaklúbburinn, Alsæi, vald og þekking, Síðustu dagar Sókratesar, Innlit hjá Kant, Stigi Wittgensteins, Frelsið, Goðsagnir...

Það er eins gott að þetta er fríhelgi!

22.3.06

Vitlaus

Ég veit ekkert um óeirðirnar í Frakklandi. Bara að það eru ungmenni sem eru eitthvað eirðarlaus. Nennir einhver sem veit allt um þetta að senda mér póst og segja mér allt um þetta?
Bara rekja þetta fyrir mér, ég er að leita þetta uppi í erlendum fjölmiðlum en finn eitthvað lítið.
Og eins ef einhver nennir að útskýra fyrir mér þessi Vatnalög, þessi nýju.

Bara svo ég sé með þetta á hreinu.

21.3.06

Hundrað og einn

Vitiði, þetta er hundraðasti og fyrsti pósturinn síðan ég opnaði þessa síðu upp á nýtt. Talandi um að vera virkur!

Staupasteinn III

Bara tuttuguogþrír þættir eftir af Staupasteinsendursýningum á SkjáEinum. Hvað geri ég þá?

Óáþreifanlegar hneigðir

Eiríkur Guðmundsson og Haukur Ingvarsson. Ég þarf greinilega að endurnýja duglegheit mín við Víðsjárhlustun.
Ég held að ég sé ástfanginn af útvarpsegóum þessara tveggja. Og svo af eigin vefegói. Útvarpslega samkynhneigður og veflega sjálfkynhneigður.

Öðrum ekki.

Valkvíði

Annaðkvöld fara fram tveir fundir sem tengjast virkjunarframkvæmdum. Ég hef hingað til ekki verið sérlega virkur í þessum málum. Áhugasamur þó.
Á morgun er hinsvegar val. Annarsvegar standa háskólaskáld og huldufólk fyrir Málefnakvöldi á Stúdentakjallaranum, klukkan átta. Í hinu tilfellinu þylur hugmyndasögukennarinn minn einhvern fyrirlestur á Lindargötu. Það verður hálftíma seinna.

Voðalega er þetta flókið líf.

20.3.06

Breyttir tímar

Það er eins gott að passa sig hvað maður lætur út úr sér í dag.

Að deyja úr forvitni

Forvitnin á eftir að ganga af mér dauðum fyrir fertugt.
Fyrir tæpum tveimur árum sat ég næturvakt að venju, það var að sumri til. Klukkan var líklega rétt að verða sex um morgun.
Og síminn minn hringdi. Ekki vinnusíminn, heldur sá litli. Minn eigin. Ég svaraði og hlustaði bara á smá þögn áður en skellt var á mig. Það birtust engar upplýsingar á skjánum um hver þetta hefði verið. Ekkert nafn, ekkert númer, engin rödd. Ekki neitt.
Ég er ennþá forvitinn um hver þetta var.
Í gær hringdi dyrabjallan hér á Ljósu. Meðleigjöndin mín svaraði dyrasímanum. Stúlka spurði um mig, en þar sem ég var að vinna var henni snúið frá. Ég hef ekki enn komist að því hver var þarna á ferð, en ég er að deyja úr forvitni. Sérílagi þar sem nafnið mitt er ekkert á bjöllunni.
Vinkona mín sagði mér að ef einhver vildi finna mig þá ætti hún eftir að gera það. Ég er bara of forvitinn.
Ekki gera mér svona hluti!

Úr Gvendarbrunni

Þetta hér finnst mér góður pistill um mál sem hafa lengi farið í taugarnar á mér.

Helvíti gott þegar aðrir tala bara fyrir mann.

19.3.06

Enn af sjálfhverfu

Ég leitaði sjálfan mig uppi í Gegni. Fann ekkert, þrátt fyrir að eiga eina útgefna sögu. Það kom eitthvað annað nafn við þá bók, Kristján Hreinsson, Júróvisjónskáld. Hann vann líklega smásögukeppnina sem ég tók þátt í á sínum tíma. Beztu sögur þeirrar keppni komust í bók. Þessa bók.

Mér sýnizt ég þurfa að koma sögu í eitthvað tímarit til að komast í Gegni.

Málfrelsi

Jámm. Það er eins gott að við getum sagt og gert það sem við viljum segja og gera hér í hinum frjálsa, vestræna heimi.
Lýðræðið blívur!

18.3.06

Sjálfhverfa

Ég vil ekki beinlínis meina að ég sé egósentrískur, en mér finnst allir í bloggheimum vera að tala um mig.

17.3.06

Lesblinda

Ég veit ekki hversvegna, hvort það sé andlegt eða bara líkamlegt ástand, en heiti bóka í búðinni eru farin að breytazt fyrir augunum á mér.
Þannig varð Afi ullarsokkurAfa drullusokki, og bókin um Leynigöngin varð einfaldlega að Leggöngunum.

Báðar bækurnar blöstu við mér í barnadeildinni, svo skiljanlega fékk ég vægt hland fyrir hjartað.

Þegar manni finnst að maður geti sagt það sem manni dettur í hug en áttar sig svo á því morguninn eftir maður hefði betur látið það ósagt

Ég ætti líklega að vera sofandi núna. Á morgun hringir síminn minn klukkan níu. Kannski hálftíu. Og svo verð ég í Eymundssyni til hálfsjö. Yrði. Þetta er eiginlega viðtengingarháttur. Ég veit ekki hvort síminn hringi.
En núna er klukkan tuttugu mínútur í tvö. Í kvöld spilaði ég samblöndu af skrabbli og yatzi. Skratzy. Yabble.
Og ég drakk bjór. Og ég bauð bjór. Og ég borgaði þúsundkall inn á djasstónleik sem stóð rétt svo undir nafni. Og ég pissaði, og drakk meiri bjór.

Ég hitti kisu á leiðinni heim og áttaði mig á því að mig langar í eina. Kisu. Mig langar í kisu.
Eða ljón.
Kisan var gulbröndótt. Eins og ljón. Og hún elti mig, og ég lék við hana. Ég hitti hana á kirkjugarðsveggnum. Veggnum sem umlykur kirkjugarðinn. Hún kom hlaupandi til mín þegar ég stóð og horfði inn í garðinn og bað drauga að birtast.
Mig langar ennþá að sjá drauga.
En ég og kisan urðum vinir. Svo skildi ég hana eftir á gangstéttinni, þar sem hún lá og velti sér upp úr sandi. Það er fullt af sandi sem snjórinn skildi eftir.

Í kvöld sat ég og kynntist Húsvíkingum og spilaði Yabble með þeim. Eða Scratzy. Og ég drakk með þeim bjór og spjallaði og lofaði að ég yrði á Húsavík í sumar.
Og ég hitti Ævar, sem er einn af þremur Ævörum á Húsavík.
Hvern hefði grunað?

Ég er ekki frá því að ég hefði átt að borða kvöldmat áður en ég fékk mér bjór.
Ég er bitur og sár. En ekki í vondu skapi lengur.

Það er samt eitthvað...

14.3.06

Meiri nostalgía

Vá! Þvílík argasta snilld!

Ómur hversdagsins VI - Hundgá úr helvíti

Fari hann, hundurinn í næsta húsi, til helvítis, og það sem fyrst. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti hundum. Það er bara bannað að byrja að gelta klukkan átta á morgnanna þegar ég vil sofa lengur. Og sér í lagi þegar kvikindið geltir eins og vísir á klukku, eins og hljóðútgáfan af kínversku vatnsdropapyntingunni.

Skiptir þá engu máli þó hann sé úti í porti og allt verði ævintýralegt, eða hvað ég kallaði þetta.

Rauð (tómat)sósa og Magnús les í blaði

Húrra fyrir pylsugerðarmanninum

- Ég skal segja þér það að ljónið er það algagnlegasta húsdýr sem við gætum haft!
- Ljónið?
- Já, ljónið! Enginn þorir að koma og taka okkur fasta á meðan það er hérna í húsinu.
- Já, það veit ég líka ósköp vel. En það er bara ekkert gaman að láta éta sig, þó ekki sé nema að litlu leyti.
- Það vildi bara svo óheppilega til að ljónið var alveg sérstaklega svangt þennan dag, og það er nú ekkert gaman... að vera svangur á ég við.

13.3.06

Ómur hversdagsins V - Hnífaparaskúffan

Það er alveg stórfenglegt að gramsa í hnífaparaskúfunni minni. Anna Marín skildi alveg ótrúlega margt spennandi eftir, fyrir utan öll ótrúlega framandi hnífapörin.

Ég er að hugsa um að bæta reglulega hlutum í skúffuna án þess að gramsa, og prófa svo aftur í sumar.

Rauðar tær á skóm á stétt

Af frægum, en í þetta sinn var engin tilraun gerð til fyndni

José González í kvöld. Aftur.
Einu sinni tók ég í höndina á honum og spjallaði aðeins við hann. Sjálfsagt talaði hann bara við mig af því að ég var með hatt og krulludýr upp á arminn.

En það var töff.

Rauður brunahani og roði sólar

Maraþon

Í hitteðfyrrasumar fórum við Gúndi í leik þar sem við notuðum Lomo myndavélarnar okkar. Við settum okkur þemað rautt og héldum á vit ævintýra með tilgang í farteskinu. Það mátti ekki breyta myndunum í tölvu, og við vorum meira að segja með samstæðar filmur.

Ég ætla að birta einhverjar myndir næstu daga, og skora á Gúnda að gera slíkt hið sama.

12.3.06

Nostalgía

Ég ber í raun óttablandna virðingu fyrir níunda áratugnum. Hvernig getur maður sífellt agnúast útí áratug sem bauð upp á hluti eins og Ghost Busters, Back to the Future, Indiana Jones, Joy Division, Echo and the Bunnymen, He-Man og Nintendo NES leikjatölvuna.

Mega, maður!

Fall

Fjandinn. Ég datt í það í gær þrátt fyrir allar mínar fögru fyrirætlanir um rólegheitakvöld! Hvern hefði grunað?

Performans

Ég er að heyra það utan úr bæ að fólki hafi fundizt ég æstur á sviðinu. Af hverju man ég ekki eftir því?

10.3.06

Álið málið?

Eftir að hafa í allan dag setið ráðstefnu um álmál og auðlindavirkjanir, hef ég komist að þeirri niðurstöðu helztri að stjórnmálamenn kunna ekki annað en að tala í hringi, og að Frjálslynda flokknum tekst alltaf að blanda fiskum inn í öll mál, séu þau um ál eða ekki.

Stundum er hann ansi merkilegur, fiskalegi vinkill málsins.

Framkvæmdagleði

Það er ekki beinlínis að ég sé latur, en eftir að ég uppgötvaði að ég get dælt inn færzlum án þess að vaða í gegnum þessa bloggersíðu, þá fer eitthvað lítið fyrir uppfærzlu og viðbótum á tenglum eða hlekkjum eða hvað þetta heitir nú allt saman.

Kemur allt með tíð og tíma.

Spurning

Bara svona fyrir forvitni sakir: Hvar voru allir þegar ég sló í gegn sem ljóðskáld?

9.3.06

Nítjánhundruðáttatíuogfimm

Systir mín á afmæli í dag. Samkvæmt mínum útreikningum er hún orðin tuttuguogeins árs. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það. Hún kom undan árið áttatíuogfimm, ef einhver vill rengja þá.
Í tilefni dagsins getur hún nálgast stjörnuspá sína af spámanni.is.

Til hamingju með daginn, Hanna mín, og hafðu það gott í Ammríku.

Af frægum og fyndni

Ég aðstoðaði Sigurð Pálsson, ljóðskáld, við að finna franska lesbók fyrir menntaskóla. Líklega var þetta fyrir son hans eða dóttur. Þegar hann kom svo að kassanum og greiddi fyrir vöruna, rétti ég honum snepilinn til að kvitta á og þóttist fyndinn.

Ég bað hann um eiginhandaráritun.

8.3.06

Á afmælisdaginn

Mér var boðið í eins árs afmælisveizlu til heiðurs bloggsíðu í dag. Þar hélt ég stutta tölu, því ég hafði að sjálfsögðu ekki vit á að hafa með mér gjöf af neinu tagi. Hvað á maður sosum að gefa bloggsíðu í afmælisgjöf?

Vonbrigði á bjartsýnu nótunum

Jæja, það er þá allavega bara eitt lið eftir til að halda með. Engin hætta á hagsmunaárekstri.

Ó, þessi heimur!

Æ nei! Liverpool undir í hálfleik, og búnir að tapa á útivelli. Af hverju vekur fótbolti upp svona sterkar tilfinningar; ég er miður mín!

Pirraður

Það er eitthvað sem angrar mig þessa dagana, en ég veit ekki almennilega hvað það er. Bara svo óskaplega margt sem fer í taugarnar á mér. Næ ekki að henda reiður á þessu lunderni.

Það pirrar mig líka.

7.3.06

Af hégómleik og útliti á interneti

Mér líkar óskup vel við síðuna mína. Hún er svona hvít og stílhrein, alveg laus við allt skraut og flúr hverskyns. En hégóminn, sem gælir ansi djarft við mig þessa dagana, heimtar eitthvað meira. Hann langar svo að sjá einhverjar myndir þarna, til dæmis mynd af mér sjálfum!
Þekkir einhver nægilega vel til í vefheimum til að segja mér hvar maður gæti geymt slík listaverk án þess að borga fyrir það krónu?

Ragnarök

Í dag helltust himnarnir yfir suðvesturhornið, og í kjölfarið skalf jörðin og nötraði. Æðri máttarvöld blésu svo öllum þeim sem hættu sér út fyrir hússins hlið eitthvað áleiðis út í hafsauga.
Þegar kvöldaði hlustaði ég á frosið ský falla til jarðar fyrir utan gluggann minn. Ég sjálfur kúrði undir sæng á meðan.

Ég er að hugsa um að gera bara það sama þegar heimsendir gengur í garð.

6.3.06

Plögg

Ég er að fara að þylja upp einhver ljóðmæli á fimmtudagskvöldið upp úr níu. Tuttuguogeitthundrað. Þær og þá sem ég hafði boðað þangað í kvöld bið ég afsökunnar; fyrir sakir tvíbókunar var víst nauðsynlegt að færa þetta dóterí allt yfir á fimmtudag.
Sem kemur sér reyndar ágætlega fyrir mig.

Sé ykkur þá.

5.3.06

Framyfir líf og dauða

Þegar ég gekk framhjá kirkjugarðinum fyrr í kvöld rak ég skyndilega augun í einmanalega bréfberakerru meðal drauganna og legsteinanna.
Skyldi maður fá gluggapóstinn áfram eftir að maður er dauður og grafinn.

Ímyndun þess raunverulega (titill sem býður upp á mun meira en það sem færzlan tekur yfir)

Þegar ég vaknaði í morgun og rauk á eftir strætó var ég ekki alveg viss um að áfengisneyzla kvöldsins áður væri algerlega í minningunni. Þegar ég stóð svo og beið eftir næsta strætó, baðaður af sólskini og bitinn af frosti og kulda - bílaumferðin ennþá róleg og nokkuð hávaðalaus eins og vera bar á laugardagsmorgni; þá leið mér eins og ég væri staddur í útlöndum eða einhversstaðar djúpt inni eigin ímyndunarafli.

Það var ferlega fín tilfinning. Mér leið helvíti vel.

4.3.06

Að handan

Er ég dauður? Nei, ætli það. Bara að jafna mig eftir öll lætin í kring um „heimapróf I“ í menningarfræði samtímans.

Annars er heilmargt að gerast.

1.3.06

Enn af kaldhæðni.

Þetta minnir nú eiginlega meira bara á brandarana um hámark letinnar og það allt. Hámark kaldhæðninnar?

Reynið síðar

Það er fátt sem mér finnst jafn lýsandi fyrir eina manneskju og talhólfskveðja Önnu Marínar vinkonu minnar:

Ég nenni aldrei að hlusta á þessa skilaboðaskjóðu, svo ég mæli með því að reynið bara að ná í mig aftur seinna.

Rollerblades at night