30.12.06

Stöngin

Í sjónvarpinu skella góðu flóttamennirnir á eftir sér hurð, og viti menn: þarna er einmitt sláin sem þeir þurftu til að læsa henni rækilega!

29.12.06

...og heimurinn varð samur á ný!

Í anda næturinnar bruddi ég í bjartsýni minni Smint töflu, og brosti með sjálfum mér.

Atburðir líðandi stundar:

Lítið skorkvikindi sem liðast undan hillunni andspænis mér. Langt og mjótt með marga fætur, ógeðslega marga, rauða fætur. Þar sem það liðast eftir gólfinu í áttina að mér, glampar bjarminn frá sjónvarpinu af silfruðu baki þess.

Ég læt skóinn minn detta ofan á skottuna svo hún kremst. Við dauðann skreppur hún saman.

28.12.06

Seinfeld

"I would say the concept behind the car phone, and the phone machines; the speaker phones, the airline phone, the portable phone, the payphone, the cordless phone, the multi-line phone, the phone pager, the call waiting, call forwarding, call conferenceing, the speed dialing, the direct dialing and the redialing, is that we all have all have absolutely nothing to say, and we've got to talk to someone about it right now. It can not wait another second!
I mean, come on, you're at home, you're on the phone; you're in the car you're making calls; you get to work: Any messages for me?

You've got to get people a chance to miss you a little."

27.12.06

Ég er meistarinn

Í gærkvöldi leiddi ég tvö lið til sigurs í tveimur leikjum (nei, ég ýki aldrei). Og drakk rauðvín, drakk bjór, drakk púrtvín og örlítið kaffi, og svaf svo eitthvað lítið í nótt. Einn daginn á ég eftir að deyja úr gáfum... eða menntahroka.

Meistarinn er ákaflega flókið spil, og spurningarnar agalega vitlaust stafsettar og, stundum, málfræðilega rangar.

23.12.06

22.12.06

Á kaffistofunni

Ég hef iðkað kaffistofusamræður af kappi í dag. Það er skemmtilegt form, þar ræður hispursleysið ríkjum. Það er samt skemmtilegt að fylgjast með breyttum viðhorfum til tilverunnar og samfélags innan þessa spjalls. Hugmyndir fólks á miðjum aldri um samkynhneigð eru tildæmis breyttar; hún þykir ekki lengur viðbjóður og ónáttúra, heldur svolítið skemmtileg og spennandi.
Annað sem er skemmtilegt við vinnustaðakaffistofur, er möguleikinn á að hreykja sjálfum sér án þess þó að virðast montinn. Með því að segja sögur af sjálfum sér eða ræða eigin áform fyrir framtíðina, og viðra um leið eigin skoðanir á málefnum líðandi stundar, getur maður farið gjörsamlega út fyrir mörk þess sem vinir manns og kunningjar myndu almennt taka gilt og ekki afskrifa sem hreint mont eða sjálfbirgingshátt.
Ég verð að fara að finna mér dagvinnu...

Brugðið út af vananum

Það eru, að ég held, mörg ár síðan ég hef mætt til vinnu klukkan átta að morgni. Fylgir þessu samt skemmtileg tilfinning.

21.12.06

Þrumur og eldingar

Á símanum hennar Ástu er ljós sem blikkar taktfast. Það fer óskaplega í taugarnar á mér í myrkri, því að þrátt fyrir að vera pínulítið tekst því alltaf að lýsa upp myrk herbergi og gera mér gjörsamlega ókleift að festa svefn.
Í nótt vorum við rétt ósofnuð, nýkomin heim, og herbergið lýstist upp. Ég bað Ástu að snúa símanum sínum á hvolf. Hún játaði með heilmiklum semingi, en sagði svo að hann væri á hvolfi. Hagræddi honum og reyndi að koma í veg fyrir að hann blikkaði aftur. Nokkrum sekúndum síðar drundi svona heiftarlega í himninum.

Síminn hennar Ástu blikkar sumsé eins og elding!

Veðrið í dag

Ég fæ það alltaf nett á tilfinninguna að veðurfræðingar viti ekkert hvað þeir eru tala um, og um leið að raunvísindi séu bara feik.

20.12.06

Yule

Tímasetning jólanna þetta árið er afleit. Ég er hinsvegar að vinna fram í janúar, svo mér ætti að vera alveg sama. Og mér er það svosum, veit bara ekki alveg hvar jólaskapið mitt er.

18.12.06

Ef ég vissi ekki um hvað væri verið að tala...

„...við erum með dálítið þétt á milli þrýstilína...“

Vont en það venst

Ég er ennþá syfjaður. Og ennþá á leiðinni í próf, á morgun - það er loka. Annars er ég alltaf í vinnunni, og alltaf syfjaður, svo lesturinn er eitthvað skringilegur. Horfði hinsvegar á Blade þríleikinn í andvöku næturinnar. Og borðaði pítsu með. Hún var heit til að byrja með, en þegar maður vaknar aftur klukkan fimm og heldur áfram að narta í hana, þá hefur hún kólnað.

Í syfjunni verða sjónvarpsþættir hinsvegar vondir. Slæmir þættir verða allt í einu ennþá verri. Eiginlega afbrigðilega slæmir. Hálf kómískt eitthvað, en dálítið neyðarlegt að maður sé að glápa á þetta. Tilgangsleysið a´bakvið það algert.
Tyrfnir heimspekitextar verða hinsvegar bara óskiljanlegir. Líkingin úr Gúmmí-Tarsani kemur upp í hugann, og skyndilega eru stafirnir orðnir að maurum á fleygiferð eftir blaðsíðunni. En Gúmmí-Tarsan var lesblindur (þó það hafi heitið eitthvað annað þá) en það er ég ekki. Ég er bara blindur. Það kom einmitt berlega í ljós um helgina þegar „hjúkrun gítarsjúklinga“ var fyrir augunum á mér, og einhver hafði „fót til sölu“. Hvorttveggja illskiljanlegt, en við nánari eftirgrennslan var um að ræða gigtarsjúklinga og föt til sölu. Lætur nærri. Minnir mig samt aðalega á Afa drullusokk og unglingaspennubókina Leggöngin. (<-).

16.12.06

Á barmi svefns og vöku

Við hrukkum upp í morgun við dimmraddaðan kvenmann sem skipaði einhverjum félaga sínum fyrir beint fyrir utan gluggann minn. Þar sem ég bý á þriðju hæð þá þótti Ástu þetta dularfullt í meira lagi. Ég var hinsvegar fljótur til með útskýringu og benti á að nágrannarnir þyrftu að „ganga inn utanfrá.“
Ásta hló. Ég reyndi að bjarga mér fyrir horn og fullyrti að þetta væri alveg til, ég hefði séð svona í útlöndum.
Hún hló ennþá meira.

Ég er ennþá mjög syfjaður.

15.12.06

14.12.06

Enn af jólalögum

... og hver í andskotanum R&B-væddi þau svona djöfulega mikið! Hvaða fáviti ber ábyrgð á þeim jólum sem eru mest spiluð fyrir jólin?

Jólalög

Voru jólin fundin upp á níunda áratugnum?

...þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla

Mér finnst þetta eiginlega ekkert töff. Mér finnst það eiginlega hálf ískyggilegt hvað sölumaðurinn hjá Heklu finnst þetta töff:
„Eftir þeim síðustu upplýsingum sem ég hef þá held ég að við séum sú þjóð sem er með flesta bíla miðað við fólksfjölda [...] við erum yfirleitt að kaupa meira heldur en allir aðrir.“

Mér finnst þetta ekkert töff.

12.12.06

Seinfeld

I had a dream last night that a hamburger was eating me!

Örninn

Það er ágætt að sjá að ég er ekki sá eini sem finnst ótrúlega gaman að leika mér í Google Earth.

Að skilgreina veröldina upp á nýtt

Þegar ég kom inn á Hlemm heyrði ég konu æpa lágt. Ekki svosum eins og um neina neyð væri að ræða, mér þótti bara líklegt að hún hefði misst af strætó. Enda sá ég hana út undan mér í dyrunum móts við lögreglustöðina.
Á meðan ég sat svo og beið varð ég var við þetta aumingjalega óp aftur og aftur. Konan hljóðaði reglulega upp yfir sig, aldrei hærra en í fyrsta skiptið, og í hvert skipti minnti það mig meira á gargandi gæs, eða máv. Mér datt í hug að hugsanlega væri um örlítið þroskahefta manneskju, eða einhvernveginn fatlaða, að ræða.

Að lokum stóðst ég ekki mátið og næst þegar hún hljóðaði leit ég við. En hún var ekki þar. Í hennar stað var ungur strákur í dyrunum. Hann gekk inn og fékk sér sæti. Hann var bara ósköp venjulegur. Um leið og hann fékk sér sæti, strunsaði stelpa á aldur við mig inn um dyrnar og hurðin flaug upp á ný. Það brakaði í hjörunum, hljómaði ekki ólíkt og kona að æpa lágt upp yfir sig...

Dularfulla kanínan

Ég rakst á kanínu í nótt, fyrst rétt eftir miðnætti. Hún fól sig undir runna og ég hélt að hún væri lítill snjóskafl. Auðvitað var ekkert skjól af þessum ágæta runna - síðustu laufin féllu af honum um miðjan september. En hún húkti þar og það var ekki fyrr en ég sá glitta í rauð augun að ég ég fattaði að skaflinn væri lifandi, stoppaði og nálgaðist hana varlega. Hún hreyfði sig ekki, en stífnaði öll upp. Svo þegar ég beygði mig niður og kallaði á hana eins og ég hefði kallað á kött, kom hún skoppandi til mín og þefaði af fingrunum sem ég hafði rétt fram. Vonaðist eftir einhverju matarkyns. En hún neitaði alfarið að leyfa mér að taka sig upp.
Reyndar sá ég þessa kanínu í sumar. Þá lá hún í skjóli fyrir aftan hús, lá grafkyrr og horfði á mig með þessum rosalega rauðu augum svo ég varð næstum skelkaður. Núna brá mér ekki jafn mikið við augun, ég varð bara hissa á að sjá hana að vetri til. Auðvitað þurfa þær að vera einhversstaðar, en mér datt ekki hug að þær myndu lifa svona upp á sitt einsdæmi inn í veturinn. Sérstaklega ekki með nóvember í líkingu við þann sem herjaði á Ísland: kaldan og langan.

Ég kíkti nokkrum sinnum til viðbótar á kanínuna. Hún lá þarna í gegnum nóttina, en þegar ég gáði undir morgun var hún bak og burt.

11.12.06

Lík dagsins

Allt í lagi, það er má svosum alveg greina einhverja sameiginlega þætti hjá mér og honum. Reyndar er þetta skelfileg mynd af mér sjálfum, sérstaklega svona til samanburðar, en sú eina sem ég fann í svipinn.

Misskilningur

... og ég sem hélt að ritgerðir skrifuðu sig yfirleitt sjálfar. Til hvers annars áttu þessar tölvur eiginlega að vera?

10.12.06

Forsjárhyggja

Hvernig er það, er alveg kúl að auglýsingar á áfengi séu bannaðar, en Lýðheilsustofnun auglýsi skaðsemi áfengis grimmt, og með ansi ýktum hætti?

Og hvað ætla ég aftur að verða þegar ég verð stór?

„The businessperson and the manufacturer are more important than the writer and the artist.“

Strongly Disagree * *****
Disagree
Agree
Strongly Agree

(Niðurstaðan mín var annars áhugaverð.)

Í tilefni gærdagsins


9.12.06

Hafnarskáld í Nörrebro

Það er á svona stundum sem mér er skapi næst að verða bara löghyggjumaður. Hlutirnir ganga bara upp. Við fengum svar í dag, draumaíbúðin okkar Ástu býðst okkur til leigu frá því um miðjan janúar. Ég fer reyndar ekki fyrr en í marsbyrjun, en það hefur spilast þannig úr þessu að Ásta getur flutt inn fyrst. Það var bara ekki hægt að sleppa þessari íbúð á svona tækniatriði.

En nú er ekki annað hægt en að dansa og tralla. Ásta kemur annars heim á fimmtudaginn. Ekkert nema glaumur og gleði framundan... um leið og ritgerðin er frá.

Bassaleikari í bæjarstjórastól

Bæjarstjórinn í Bolungarvík spilar á bassa í hljómsveit. Þetta er einhverskonar heldrimannapönk, og ætli þetta sé ekki Lýður læknir sem er þarna í forsvari? Er ekki alveg viss.

Það er óveður og allar sjónvarpsstöðvar hafa gefið upp öndina, nema RÚV.

Það sem maður veltir fyrir sér til þess að hugsa ekki um ritgerð

Menning er alvörumál. Og sérstaklega íslensk menning.“

Þetta stendur í Lesbókinni í dag. Á eftir fylgir svo einhver lýsing á atburði sem fram leiddu lúffulegur íslenskur eiginmaður og spéhrædd nútímakona. Ég skildi ekki alveg samhengið. En fór að hugsa um Íslendingasögurnar.
Sagnaarfinn.
Ég skil ekki alveg hvað það er í þessum flóttamannasögum norskra glæpamanna, sem flúðu réttvísina; úr einu hálfbyggilegu landi í annað, sem þeim fannst vera svo langt í burtu að það gæti ekki verið að neinn fyndi þá þar; hvað það er í þessum frásögnum sem okkur Íslendingum finnst gefa okkur rétt til að vísa frá fólki sem hugsanlega myndi hafa miklu meiri áhuga á að færa íslenskt samfélag og menningu inn í nútímann. Hvernig flokkum við annars fólk sem kemur inn í landið sem verðugt eða óverðugt? Hver er mælikvarðinn? Hversvegna er íslenskur nauðgari rétthærri en litháenskur? Er ekki bara málið að senda alla glæpamenn úr landi? Og ef enginn vill taka við þeim getum við flutt þá Vestmannaeyinga sem eru ekki glæpamenn bara til landsins (eða út í einhverja aðra eyju ef þeir skyldu endilega vilja vera svona hálfpartinn á floti, nóg er af skerjum í kringum Ísland), og ferjað svo bara alla glæpamenn til Eyja. Þeir gætu þá stofnað nýlendur sín á milli, pólska nýlendan í dalnum og gamlir Íslendingar fá að vera þar sem bærinn stendur.

Ég veit ekki. Eiginlega langaði mig bara að kalla menningararfinn norskar flóttamannabókmenntir.

Þvinguð ritgerðarsmíð um miðja nótt

Mér líður svolítið eins og ég sé bundinn niður, hendur fyrir aftan bak og fætur upp í loft, og augun á mér hafi verið þvinguð upp með einhverju áhaldi úr köldu stáli. Mér finnst eins og skæru ljósi sé beint í augun á mér á meðan einhver stendur og sparkar reglulega í höfuðið á mér, svolítið fast, en ekki nógu fast til að ég missi alveg meðvitund, frekar að ég vankist.

Það hefur reyndar talsverð áhrif á þessa vanlíðan mína, að ritgerðarefnin eru ekki sérlega liðleg, og eru alls ekki birtingarmynd minnar upplifunar af þessum ágæta kúrsi. Þvert á móti, lesi maður yfir þau þá var þetta hundleiðinlegur kúrs. Sem mér fannst einmitt ekki.

Úr sjónvarpinu

Samkvæmt X-files er brunnur lífsins falinn um borð í norsku skipi.
Það hefði hinsvegar ekki verið svo út í hött að láta þau Mulder og Scully drepast úr elli, eins og aðstæður virðast hafa skipast í þessum þætti. Táknrænt í það minnsta.

Úti í tunglsljósi

Jú, það var ansi huggulegt að rúnta eftir þjóðveginum með sítrónugulan hálfmána í stefni. Hann lá afvelta, karlinn í tunglinu, svona spikfeitur, en skelli-, skellihlæjandi.
Ég er ekki alveg viss hvort umferðin hafi liðið svona hægt áfram, þægilega yfirveguð, af því að allir ökumennirnir voru með hugann við tunglið eins og ég, en eitthvað var það.

8.12.06

Um gagnvirkni

Það er fáránlegt að geta ekki flett dagblöðum, lesið pistla þar og kommentað svo á þá.

Heima

Kom í gærkvöldi. Reykjavík í ljósum logum úti í myrkrinu og Reykjanesbrautin, appelsínugult strik í gegnum hraunið, eins og olíuvætt reipi sem hefði verið notað til að tendra borgina.
Einhverra hluta vegna þótti mér samt vænna um að koma heim í gær, heldur en í hin fjögur skiptin. Sjálfsagt er það af því að Ásta kemur heim eftir viku, og alla dagana þangað til hún kemur verð ég á kafi í próflestri og ritgerðarsmíð.
Líklega hefur það samt sitthvað að segja að þetta var líka síðasta heimsóknin til Danmerkur.

Næst þegar ég fer veifa ég fingri eða lófa að landinu, fer eftir skapi, og verð í burtu um óákveðinn tíma. Ekki minna en tvö ár þó, ef frá eru talin nauðsynlegar heimsóknir til Íslands vegna prófa.

4.12.06

Um Íslendinga og tengsl þeirra við umheiminn: Nútímasamskipti í essinu sínu

Um leið og hjólin snertu flugbrautina upphófst mikill kór. Hver farsímakveðjan á fætur annarri glumdi í litla rýminu, og í kjölfarið fylgdi píp eftir píp; smáskilaboð sem höfðu beðið á meðan flugvélin sjálf var utan þjónustusvæðis boðuðu nú komu sína.
Þessi kór kveðjutóna og píphljóma entist i að minnsta kosti tíu mínútur. Á einhverjum tímapunkti langaði mig að skera af mér eyrun.

3.12.06

Karlmenn í kvennærfatadeild tískuverslana:

Líða á eftir eiginkonum eða kærustum eins og skuggar eða fylgjur, með hendur í vösum og augun flakkandi á milli gólfs og lofts; þeir eru bara þarna, „konan er að skoða“, og þeir hafa ekkert sérstakt álit: „Jú elskan, þetta er ljómandi snoturt, gullfallegt alveg. Jújú, í alvöru, jú, mér finnst það, virkilega fallegt.“
Ekki beinlínis við hæfi að hafa álit, en þó verða þeir að segja eitthvað.
Mæta öðrum karlmanni og kinka kankvíslega kolli, „Jújú, blessaður,“ og horfa snarlega undan með hendurnar rígbundnar í vasana, eða utan um innkaupapoka úr annarri búð.

Mikið væri gaman að verða vitni að manninum sem stæði við rekka með rauðar kvennærbuxur úr silki og hrópaði fullur aðdáunar yfir búðina: „Heyrðu Stína, sjáðu hér. Ferlega væri ég til í að sjá þig í þessum í kvöld! Þær myndu alveg sýna rassinn á þér í réttu ljósi.“

Rollerblades at night