29.11.06

„Það eina sem þú þarft að gera er að skera þær og skella þeim í ofninn“

Af hverju? Til hvers? Af hverju ekki bara að kaupa tilbúnar kökur? Eða að baka þær bara frá grunni? Hvurslags endemis undankomuleið er þetta; maður þarf ekki að gera deigið, maður getur bara skorið þær í sneiðar og skellt þeim í ofninn.
Af hverju ekki bara að kaupa tilbúnar?

Um dauða höfundarins

Höfundurinn er Guð.
Guð er dauður.

Höfundurinn er dauður.

28.11.06

Við viljum aftöku!

„En hver ber ábyrgðina á því að þetta sé komið í þessa stöðu?“
„En þarf ekki, á þessum tímapunkti, að finna það út hver ber ábyrgðina á þessu ástandi?“
„Hver ber ábyrgðina?“
„Hver ber endanlega ábyrgðina?“
Sölvi Tryggvason, Ísland í dag

Lestrarvenjur

Skyldu þeir sem ólust upp við að lesa Hardy bræðurna, fimmbækurnar, dularfullu bækurnar og þvíumlíkt, vera þeir sömu og sækja mest í glæpasögur í dag? Hliðstæðurnar eru allavega til staðar: sömu aðalpersónurnar, ævintýri og hasar, og eitthvað dularfullt sem opinberast í lokin.

Laxness

„Ég varð meðal annars bergnuminn af gregóriskum saung sem þartíðkaður franskur skóli benediktsmúnka, kendur við Solesmes, hóf til nýrrar endurvakníngar á síðustu öld. Þegar mér varð á að segja kynviltum vini mínum einum af töfrum þessa múnkasaungs í einum tón, planus cantus, sem ég hafði verið niðursokkinn í frá morni til kvölds í heilt ár og oft vaknað upp á næturnar og farið í kirkju til að missa ekki af óttusaungnum, og bætti við að þessari reynslu væri einna helst líkjanda við að borða saltfisk í alla mata, þannig að maður verður því sólgnari í slíkan fisk sem maður borðar hann oftar og leingur, þá sagði þessi góðkunníngi minn mér til stórrar undrunar: þú hlýtur að vera hómósexúalisti, lýsti síðan hversu hatramleg áhrif það hefði á kynkirtla sína að heyra múnka sýngja saman gregóriskan unisono.“
Úr Skáldatíma

27.11.06

Hversu vel mér gengur að læra:

Ég er búinn með MegaMan 2. Ég hef ekki lengur tölu á því hvað ég er búinn að klára þennan leik oft. Í hverri prófatíð fer ég nokkrum sinnum í gegnum hann.

26.11.06

Gaupi

„Hann hefur verið alveg frábær eftir að hann kom inn á.“

Stóð hann sig þá svona illa á bekknum, eða hvað?

Hugsanleg ástæða þess hve lítið kemur út úr lærdómnum hjá mér:

Fjúkk, hugsa ég og strýk svitann af enninu. Enn eitt verkefni frá og þá er bara stóra ritgerðin eftir. Í bili. Helvítis verkefnið um Salman Rushdie og Söngva Satans búið að sitja í mér lengi, enda las ég upphaflega vitlaust efni og ekkert geta mætt í tíma undanfarið. Svo ég neyddist til að lesa allt efnið á síðustu stundu, móta skoðanir upp á nýtt og fylla í eyður. En það hafðist. Og það snemma á sunnudegi, svo nú hef ég alveg tvo daga fyrir stóru rökfærsluritgerðina í heimspekinni. Nokkurnveginn með það á hreinu hvað ég ætla að skrifa um; búinn að velta þessu fyrir mér alla vikuna og nú á ég í raun ekkert eftir nema að lesa almennilega yfir kaflann í bókinni (einu sinni til) og punkta hjá mér, setja saman smá grind að ritgerð og hefjast svo handa fyrir alvöru.
Ekkert mál.

Líklega best að ég fari fyrst aðeins í MegaMan.

Tilraunamatseld

Núna rétt í þessu afrekaði ég það að smakka seigfljótandi rauðvín.
Pabbi minn kallaði það hinsvegar sósu og breiddi það glaðhlakkalega yfir kjötið á disknum sínum.

25.11.06

Óður heimur

Í mosku í London sá ég fræðsluþátt um hvítan tónlistamann sem tekið hafði upp íslamska siði og trú. Í þættinum, sem sýndur var í kjallara sem þjónaði hlutverki færðslumiðstöðvar, dásamaði hann Íslam, og sagði frá hvernig hann hafði upphaflega komist í kynni við trúna.

Í greininni One Thousand Days in a Balloon segir Salman Rushdie: „When a white pop-star-turned-Islamic-fanatic speaks approvingly about killing an Indian immigrant, how does the Indian immigrant end up being called a racist?“

Yusuf er að gefa út nýja plötu þessa dagana.

Úr sjónvarpinu

- Dude, I don't speak non-english, but if I were you I wouldn't start your car tonight.

Salman Rushdie

„Books choose their authors; the act of creation is not entirely a rational and concious one.“
Úr ritgerðinni In Good Faith

24.11.06

Nýja Delistúlkan (sjá ÁJ)

Fyrir utan allt sem hann telur upp, þá er hún líka alltaf að loka sjoppunni. Og þá er alveg sama hvenær ég kem.

Fram og til baka

Vinur minn afrekaði það um daginn að nýta sér alla mögulega samgöngumáta sem tiltækir eru í heiminum í dag, utan geimskots. Hann nýtti sér þannig flugvél, rútu, lest, bát og fætur (en hann er hinsvegar of latur við að blogga til að segja frá þessu sjálfur). Vitaskuld er líka hægt að fljúga með loftbelg, synda og hjóla, en að benda á slíkt væru bara leiðindi, og til þess eins ætlað að gera þetta flókið.
Nema hvað, vinurinn sagði að þetta hefði minnt sig á það þegar hann borðaði allar máltíðir dagsins, morgun-, hádegis-, eftirmiðdegis- og kvöld-, sína í hverju landinu. Þá var hann á lestarferðalagi um Evrópu.

Mér finnst skemmtilegast við þetta hvað við erum öll orðin að miklum heimsborgurum.

Og víst er hún það!

Það er annars ekki hægt að minnast á fríðleikspiltinn orðheppna án þess að segja líka sögu af systur hans. Sú heitir Bára og bar fyrir sig að hafa sérlega slæmt minni þegar kæmi að orðtökum og málsháttum. Hún ruglaði þessu öllu saman, sneri í graut, og fengi út úr því einhverja vitleysu.
Einhverja málshætti þóttist hún nú samt kunna - tengdi það nafninu sínu - en vafðist þó tunga um tönn þegar hún sagði:

Sjaldan er bára einstök...

Ekki bara fríðleikspiltur

Fræg er sagan af einum sem afbakaði óviljandi máltækið enska um gáfnafar og andlitsfríðleik. Eftir að hafa sagt eitthvað óvitlaust og fengið hrós fyrir, benti hann hrokafullur á sjálfan sig með þumalputta og hreytti sjálfbirgingslega útúr sér:

Not a pretty face, sko!“

22.11.06

Sagði kona við aðra konu í frosthörkunum

Strætisvagnarnir hafa verið þéttsettnir undanfarna morgna og seinnipart daga. Ég áttaði mig ekki á því strax, en skýringin kom þó á þriðjudaginn:

„Annars nota ég svo sjaldan strætó, keyri yfirleitt allt. Bíllinn er bara ennþá á sumardekkjum...“

Nóg komið

Erum við ekki orðin aðeins of stolt af þessari íslensku útrás?

21.11.06

Úr sjónvarpinu

- I mean, what kind of a man has sex with a goat?
- Hey! I used a condom!

Óvænt

Skyndilega rankaði ég við mér klórandi mér í höfðinu með vinstri, en litla fingur hægri handar í eyranu. Skil ekki hvernig þetta gerðist.

MMVI mínus MCMLXXXI

Skyldu stærðfræðingar almennt hafa samúð með málefnum Araba, þó ekki væri nema helst fyrir að hafa fært okkur arabíska talnakerfið í gegnum Máraveldið á Spáni? Ég veit allavega að ég er ekki sérlega spenntur fyrir því að þurfa að reikna neitt með rómverskum tölum.

Chai

Ég er orðinn háður þessum drykk. Mér skilst reyndar að hann sé ofsalega í tízku, en ég er hvorteðer ekkert í tízku.

Það sem er samt skemmtilegast við þetta, að ég get mallað þetta heima hjá foreldrum mínum. Vantar bara sírópið.

20.11.06

Tilgangslausar staðreyndir:

  • Sagan segir að Herbie Flowers, sem spilaði á bassa í laginu Take a walk on the wildside, hafi upphaflega stungið upp á því að hafa tvær bassalínur til að geta rukkað tvöfalt tímakaup. Lou Reed sjálfur segir að hann hafi viljað melódískan bassagang á móti melódíunni (sem er óskup falleg heyri maður söngvara með mjúka rödd syngja hana).
  • Í laginu er spilað á tvo bassa, bæði kontrabassa og rafmagnsbassa, og er rafmagnsbassalínan tíund ofar en hin, og sérlega dregin. Flowers sagði í viðtali að þetta væri dálítið væmið, og að það hefði bara verið mögulegt að gera eina plötu þar sem þessi hugmynd væri notuð. Hann var bara sá sem var svo lánsamur að gera þetta fyrstur.
  • Saxófónleikarinn Ronnie Ross, sem spilar saxófónsóló í lok lagsins, hafði kennt upptökustjóra plötunnar á saxófón þegar hann var krakki. David Bowie sá um upptökur á Transformer, plötunni sem lagið kom fyrst fyrir á.
  • Stúlknatríóið sem syngur in („And the coloured girls go...“) kallaði sig Thunderthighs.
  • Persónurnar sem textinn fjallar um, voru allar raunverulegar og voru fastagestir í Verksmiðju (e. the Factory) Andys Warhol.

19.11.06

Meira af Eddunni

„Ég vil þakka Íslendingum fyrir að taka vel á móti þessum Erlendi.“
Ingvar E. Sigurðsson í þakkarræðu.

Og sjónvarpsmaður ársins er... Ómar Ragnarsson!

Er maðurinn á deyfilyfjum? Ég hef aldrei séð hann svona afslappaðan og rólegan.

Eftir óveðrið

Þegar ég fór á fætur í gær klæddi ég mig í gallabuxur og peysur. Tvær peysur, það var kalt. Svo mætti ég í vinnuna með húfu, í þykkri úlpu og með lopavettlinga á höndunum. Vinnan mín fer mestmegnis fram innandyra. Ég gerði alls ekki ráð fyrir því að undir morgun myndi bíllinn minn sitja fastur í skafli. Eða að ég þyrfti að moka hann út.
Þessvegna sit ég núna á nærklæðunum einum saman og vona svo innilega að það myndist enginn akút þörf á mér næstu tvo tímana og hálfan.

Ísland farsælda frón

Það er helvítis skítaveður úti!

18.11.06

Svefnvana

Ég er svo ótrúlega andlaus eitthvað og upptekinn af því að vera grútsyfjaður, að ég er að hugsa um að birta eitthvað svona kvissdæmi sem ég var manaður upp í að svara annarsstaðar.
Tek það samt fram að ef engin svör verða komin í kommentakerfið þegar ég mæti aftur til vinnu hér í kvöld, þá hverfur þetta jafnharðan. Ef ég væri ekki svona andlega uppurinn og svefnvana þá myndi ég semja þessar spurningar upp á nýtt, gera þær áhugaverðari og skemmtilegri. En þetta verður að duga í bili:

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifin/n af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Gefðu mér hafa gælunafn og útskýrðu af hverju þú valdir það?
7. Lýstu mér í einu orði
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Líst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað, hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þú einhvern tímann viljað segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

17.11.06

Um þýðingar

„Til dæmis segja menn gjarnan við brúðkaupsaltarið á ensku „I do“ sem enginn heilvita íslenskur þýðandi þýðir með „ég vil“ eða „ég geri (það)“.“

Gauti Kristmannsson, Teoría, tryggð og túlkun, Jón á Bægisá (Tímarit þýðenda), 2. tbl, 1995. Bls. 12 -

Seinfeld

Freedom with no clothes is better then no freedom with clothes!

16.11.06

Um íslenska hreysti

Svo var það þessi sem sagði það til marks um hreysti íslensku þjóðarinnar, að við hefðum þolað þessa veðráttu í þúsund ár. Það finnst mér ekki. Mér finnst fátt hraustlegt við það að húka hríðskjálfandi undir ljósastaur með frostbitnar kinnar og sultardropana lekandi af nefinu eins og Dettifoss í haustleysingunum. Helst að myrkrið feli þetta.

Ég velti því hinsvegar oft fyrir mér hvaða hálfvita hafi dottið í hug að þetta land væri mögulegt til búsetu.

15.11.06

Aðeins um íslenska sjómenn

Einn af mínum eftirlætis rithöfundum sem skrifa á íslensku, stærir sig af því að hafa verið sjómaður. Annar íslenskur rithöfundur, löngu dauður, var kokkur á skútu. Hans frásagnir þykja mér líka skemmtilegar. Frændi minn er líka sjómaður. Honum hef ég alltaf haft gaman að; hann er örlítið eldri en ég, en ég hef alltaf haft mikið álit á honum. Annar frændi minn var líka sjómaður, alveg þangað til hann fékk yfir sig tonn af þangi (eða þvíumlíkt) og varð fyrir varanlegum hnjámeiðslum. Þá safnaði hann hári, fékk sér leðurgalla og hjólaði um Evrópu þvera og endilanga. Kynntist krimmum og góðhjörtuðum hjólahippum. Hann er bróðir hans pabba. Hann er stórskemmtilegur.
Afi minn var sjómaður. Ég þekkti hann aldrei, en hvernig getur maður annað en borið virðingu fyrir afa sínum?

Mergurinn málsins: Sjómenn eru ekki einir um að vera dregnir í dilka. Fólk talar oft og mörgum sinnum um helvítis artífartí liðið og er þá að meina fólk með ullarhúfur í skærum litum, eða í áberandi lituðum fatnaði almennt; fólk sem hefur látið skærin flakka í gegnum höfuðið á sér eftir einhverjum kaótískum reglum sköpunarferlis. Fólk fellur að staðalmyndum fyrir það eitt að vera í ákveðnu starfi! Og mér er ekki illa við sjómenn. Þessir sjómenn sem við Ásta hittum á djassbar í Kaupmannahöfn voru bara alveg sérstaklega fyndin dæmi. Það er ákveðinn talsmáti, það eru ákveðin viðhorf, það er ákveðin hugmyndafræði. Þetta eru sjómenn, þeir umgangast sjómenn, þeir þekkja til sjómanna. Það er í sjálfu sér ekkert niðrandi þó ég tali um sjómenn sem skemmtilegar týpur, og þó ég tali um þessa einstaklinga sem steríótýpur, þá meina ég ekki endilega að allir sjómenn séu kjánalegir eða ég geti ekki borið virðingu fyrir þeim.

12.11.06

Dauði Ljósvellings II

Ég drap hann. Gróf hann svo og flutti til útlanda. Við getum svo rætt um sjálfssköpun og líffræðilegt egó og vefrænt. Sæberspeis, þau segja að hann sé alltumlykjandi, og veröld framtíðarinnar.

Íslenskir sjómenn og danskur djass

Íslenskir sjómenn á djassbar í Kaupmannahöfn. Ennþá fleiri Íslendingar dreifðir um litla staðinn, sem þetta kvöld hafði rukkað fimmtíukall inn og seldi jólabjór í stríðum straumum. Dyravörðurinn, sem er annars vanari að fleyta ölinu af krönum barsins, kannaðist svo rúmlega við okkur íslenska parið, og hleypti okkur inn með kumpánlegum athugasemdum.
En íslenskir sjómenn á djassbar í Kaupmannahöfn. Það er kjánalegt að fella fólk í flokka og staðla upp ímyndir, en fjandinn, þeir voru íslenskir sjómenn! Hafi ég einhverntímann þekkt einhvern svoleiðis (sem ég og hef) þá þekkti ég alltof mörg karaktereinkenni í fari þessara manna á forsendum sjómennskunnar. Hreystin, tungulipurðin, hugmyndafræðin - stoltið. Hefði ég aldrei þekkt íslenska sjómenn áður hef ég það á tilfinningunni að ég hefði engu að síður vitað að ég væri að tala við svoleiðis menn þarna. En fínir strákar samt.

9.11.06

Dauði Ljósvellings

Á morgun fer ég til Kaupmannahafnar. Aftur. Tæknilega séð hefði ég átt að vera á leiðinni inni í vél eftir tíu tíma. Þremur tímum síðar hefði ég svo átt að vera að lenda á Kastrup. Og flugvélin sem ég ætlaði að vera í sömuleiðis.
Nema það gerði náttúrulega óveður á Íslandi. Eins og staðan er núna ætti ég að vera að fara í loftið eftir tólf tíma. Það er bara tveggja tíma seinkun, en fjandinn hafi það, það eru ennþá tólf tímar til að seinka fluginu ennþá meira. Og eins og staðan er núna, fari ég í loftið klukkan kortér yfir níu, hef ég ekki hugmynd um hversu langan tíma það tekur að fljúga til Hafnar í öllu þessu roki. Ég veit ekki einu sinni hvort flugvélin lendi með mér á Kastrup.
Mér líkar hreint ekki við veðrið hér. Best ég flytji bara til Kaupmannahafnar. Það er auðveldara.

Ætli ég fari ekki bara í lok febrúar?

Airheads

„White man with a gun. Same thing happened to my ancestors about 425 odd years ago...“

Fárviðri sem aldrei fyr

„Sigurður segir spár gera ráð fyrir rigningu fram á laugardag á sunnanverðu landinu og að gert sé ráð fyrir sterkum vindi við norðurströndina á föstudag sem gæti náð 2530 metrum.
Fréttablaðið, fimmtudaginn 9. nóv. bls. 2

Ég er ekki sérlega vel að mér í veðurfræði, eða veðurlýsingum hvað það varðar. Mér finnst ekkert gaman að fylgjast með veðrinu á Íslandi, því það er alltaf skítaveður hvorteðer. En á þetta ekki að vera 25 til 30 metrar á sekúndu? Væru ekki tvöþúsundfimmhundruðogþrjátíu metrar vafasamur hraði? Eða er kannski ekki verið að miða við sekúndur hér? Svar, einhver?

Kaldhæðni

Það er annars bara fyndið að yfirmaður bráðamóttöku skuli heita Ófeigur.

Höfn í sjónmáli

Það var og að veðrið upphefji nú einhverjar hótanir. Að maður sé ekki bara fluttur fyrir fullt og allt af þessu hálfbyggilega skeri.

8.11.06

Robin Nolan

Ég elska djass! Vissuði það annars?

„Íslenskar stjörnur taka líf sitt í gegn með heraga“

Þetta segir auglýsing fyrir nýja þáttaröð á SkjáEinum. Í kjölfarið sést mynd af Árna Johnsen sprikla eitthvað, fitukeppurinn atarna.
Gott að vita til hverra við Íslendingar lítum upp til.

Úr menningarheimum

„Endurtekningin er móðins.“
Gauti Kristmannsson

7.11.06

Tillaga að frumvarpi til Alþingis

Ég er með hugmynd. Við bönnum útlendinga á Íslandi. Við afnemum þá með öllu, leyfum þeim hvorki að koma til að vera, né koma til að fara aftur. Síðan útlendingar hófu að venja komur sínar til okkar biksvörtu stranda, hafa þeir fátt annað til afreka unnið en að nauðga konunum okkar og ræna okkur blönk, auk þess sem þeir hirða af okkur þau fáu störf sem eru í boði í þessu fámenna eyríki okkar.
Þegar okkar íslensku hetjur stökkva svo til og reyna að bjarga bjarteygum konum sínum, þar sem þær liggja umkringdar af barbörum með alvæpni sem gera sig reiðubúna að saurga þær og misnota, beita villimennirnir lúalegum brögðum og ráðast af fjölmenni á hetjur okkar og fella þær (en víkingarnir falla þó með sæmd).
Þeir iðka heiðin trúarbrögð og menga okkar kristna viðhorf, innræta saklausum, bláeygum og ljóshærðum íslenskum börnum ónefnanlega siði, enda hefur ekki farið vel fyrir þeim þjóðum sem hefur hreykt sér af samneyti við slíka menn.
Það er þó íslensk tunga og menning sem er í mestri hættu af þessum óþokkalýð. Útlendingar eiga það nefnilega til að tala bara sína eigin tungu, og láta um lönd og leið að þeir eru staddir í okkar heiðbláa fjallasal. Þeir opinbera viðbjóð sinn á íslensku lostæti, þess kostafæðis sem hin íslenska þjóð hefur í gegnum aldirnar matast á, og lifað þannig af hinar mestu vetrarhörkur. Sviðnir kindakjammar og súrar blóð- og lifrarpylsur, hrossabjúgu og SS pylsur, hafa svo getið af sér mikið afreksfólk sem hefur menntað sig af kostgæfni, og orðið þannig einhver best upplýsta og opnust þjóða í hinu siðmenntaða samfélagi samtímans.

Það er heldur engum sæmandi að kasta perlum fyrir svín, líkt og við gerum með því að flytja fiskinn okkar og hvalkjöt áleiðis til þessara siðleysingja. Við ættum því að einskorða okkur við sjálfbæran búskap og hætta þessu spreði.
Skólabækur og menningarefni hverskyns, sem Íslendingar skrifa og framleiða ætti að vera okkur nægjanlegt; það er lítil nauðsyn að sýna í sífellu viðurstyggilegt afþreyingarefni framleitt af þessum útlendingum.

6.11.06

Um málfræðilegt kyn og líffræðilegt

„Það hlýtur eiginlega allt að vera komið í höfn í jafnréttismálum fyrst menn geta leyft sér að hafa áhyggjur af svona tittlingaskít.“
- Magnús Snædal Rósbergsson, dósent við Hugvísindadeild

Bjartsýni

Annars húkka ég bara far með einhverjum togara. Stend á ströndinni og sveifla þumalputtanum.

5.11.06

Sen

- Já, ég hef nefnilega aldrei komið til Vínar sjálfur...
- Þá áttu mikið eftir.

Af drottningum

Mikið rosalega var annars Freddie Mercury illa tenntur.

Jæks

„Þetta eru félagslyndar svartar ekkjur sem búa saman...“

Af lyndi manna

Need and struggle are what excite and inspire us; our hour of triumph is what brings the void.
- William James, úr Is Life Worth Living?

4.11.06

Úr sjónvarpinu

- How can you think about sex when a woman may be lying dead and dismembered under a shaft?
- It's a gift.

Undir rós

Það er til marks um hve rík þörf mín til tjáningar er þessa dagana, en hve lítið ég hef í raun að segja, að þessa stundina dettur mér ekkert annað í hug að tala um, en fjölda nærbuxna sem ég hef verslað í Danmörku undanfarið.
Skyldi það vera laumuleg leið til að gefa skít í umfjöllun Extrablaðsins?

Í kjölfar byltingar

Þetta er hvorteðer farið til helvítis. Það er líklega bara best að hypja sig brott, fjúka af þessu landi eins fljótt og auðið er. Ekki hanga í þessari sentimentalísku eftirsjá eftir grjóti og dauðu grasi. Best að hypja sig í borg þar sem maður getur látið sig hverfa án þess beinlínis að hætta að vera til; þar sem maður getur horfið í fjöldann án þess að beinlínis fyrirgera eigin tilvist; þar sem maður þarf ekki að taka þátt í mikilvægum umræðum um samfélagsleg deiluefni þar til gröfturinn vellur úr eyrunum á manni; þar sem maður getur verið hugsjónadrusla án þess að blóðið drjúpi úr kjafti og af klóm.
Ég er ekki þunglyndur, ég lofa, mér leiðist bara veðrið hérna. Líklega er veðrið ekkert betra hinum megin við hafið, líklega er fólkið alveg jafn kjánalegt - líklega eru þau bara verri. En ég get allavega gengið að því vísu að eitthvað þar er betra en hér, eitthvað sem togar af hörku.

(Þessi færsla er endurtekning, hún var skrifuð áður en hvarf. Þetta er samt ekki sama færslan, bara næstum því. Kannski kemur frummyndin aftur seinna, kannski birtist hún uppúr þurru. Kannski ekki. Ef svo er, þá er eftirmyndin orðin að frummynd.)

3.11.06

Byltingin er hafin!

Og hananú!

Að fá bæði sneið og kökuna alla

Hin gegndarlausa frekja landans er með eindæmum. Við viljum takmarka flæði útlendinga til landsins, okkur finnst það út í hött að við skulum koma inn í verslanir og strætisvagna og þar mæti okkur bjöguð íslenska og skilningsleysi. Hinsvegar dettur okkur ekki í hug að vinna fyrir svona lág laun; við höfum ekki efni á heimabíóinu fyrir vikið.
Á sama tíma ætlumst við til þess að aðgengi okkar að menntun erlendis sé fyrirhafnarlaust til staðar. Og okkur finnst fásinna að í Frakklandi skulum við ekki einu sinni geta talað ensku til að tjá okkur! Skilja þessir djöfuls froskar ekkert nema sitt eigið helvítis tungumál?

Í Íslandi í bítið var opnað fyrir símann og inn hringdu þrír sem voru sammála Frjálslynda manninum sem var að upphefja þessa skoðun sína. Aumingja þáttastjórnarkonan var að verða brjáluð á því að berjast við að halda hlutleysi sínu.

1.11.06

Hvar er annars þetta heima? - Part deux

Ég á þrjá tannbursta hverjum ég hef dreift á þrjú heimili í tveimur löndum. Ég borga reyndar bara leigu á einum af þessum stöðum, en finnst samt eins og ég eigi pínulítið heima á þeim öllum. Mismunandi hlutir sem toga í mig, og þeir gera það á mjög misjafna vegu.

Einn, tveir og...

Það þurfti þá ekki nema þriðja lækninn til að taka lokaákvörðun um hverslags umbúðir skyldi vefja ökklann á mér í. Mikið sem ég vona að ég lendi ekki í því að slasast meira. Ég myndi líklega éta upp allt læknalið landsins ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir mig.

Haltur Þór

Ég var búinn að dunda mér við það að semja fullt af bloggfærslum í huganum, þar sem ég sat á Hlemmi (stóð upp, gekk óþolinmóður um og settist aftur niður) og beið eftir að leið tólf léti sjá sig. Það gerði hún næstum tíu mínútum of seint, svo þegar ég rauk útúr vagninum var ég þegar orðinn of seinn í tíma. Ég hef alls ekki mætt nógu vel í skólann. Nú skyldi verða breyting þar á.

Ég komst yfir hálfa Suðurgötuna áður en ég skellti ökklanum á mér í L og hrundi á hnén. Það var dimmt úti, loftið ferskt af frosti, og ég ákvað að hlaupa yfir tóma götuna áður en umferðin kæmi. Mér var líklega nær að nýta ekki hellulögðu göngubrautina sem liggur þvert í gegnum þessa umferðareyju sem skilur akgreinarnar að. Nema hvað, eftir þessari hellulögðu göngubraut trítlaði stelpa sem hafði farið útúr vagninum á sama stað og ég, horfði á mig og brosti vandræðalega. En gekk áfram án þess að segja neitt. Brosti bara til mín, þar sem ég lá kvalinn á hnjánum og saup hveljur (ég geri það gjarnan þegar ég misstíg mig eins og þetta).

Mér tókst ekki einu sinni að sitja allan tímann. Klöngraðist inn í stofuna með látum, sat svo átti erfitt um andardrátt -hitinn inni í stofunni var ferlegur og á einhverjum tímapunkti fannst mér að ég myndi kasta upp áður en ég næði hléinu. Svo ég rauk út með svipuðum látum og ég hafði komið inn. Og tók strætó á heilsugæslu í sveitinni, sem vildi endilega senda mig í röntgen. Það þurfti ekki nema tvo lækna til að taka þá ákvörðun.

Þannig að núna er ég á hækjum og löngu búinn að gleyma öllum þessum bloggfærslum sem ég samdi á Hlemmi.

Rollerblades at night