28.2.06

Áfram einkabílismi

Svifryksmengun fór yfir hættumörk í dag í fimmta skipti á þessu ári. Það er ennþá febrúar, þó tæpt sé.
Íslendingar hafa valið einkabílinn, það er engin ástæða til að rembast við að telja þeim trú um að taka strætó eða byggja upp neinskonar almenningssamgöngukerfi. Húrra fyrir pylsugerðarmanninum, því Íslendingar hafa valið einkabílinn. Umferðarþunginn seinnipart dags er óraunhæfur fyrir tvöhundruðþúsundmanna borg, og þetta kemur í sjálfu sér ekkert á óvart. En við skulum bara velja bílinn, það er miklu betra.

Aðstoð óskast

Ég á mikið af bókum. Ég á heilmikið af bókum, eiginlega of mikið. Ég þarf tíma til að loka mig af og lesa þær allar. Er einhver sem getur tekið að sér að lifa mínu lífi og uppfræða mig á sunnudögum um hvað hefur átt sér stað? Sjálfboðaliðar?

27.2.06

Staupasteinn II

Mér finnst Lilith líka fyndin. Hef ég einhvern húmor fyrir ofsnobbuðum menntamönnum?

26.2.06

Og svariði nú!

Er heimurinn að fara til fjandans, eða erum við bara duglegri að taka eftir því að hann sé að fara til fjandans? Er ógnin yfirgnæfandi, eru hræðilegir hlutir sífellt í aðsigi, eða erum við að vekja þetta allt upp og búa til ástæður til að vera hrædd?

Mér satt að segja líður stórfenglega og er jákvæðari en ég hef verið um þó nokkurt skeið. Guði sé lof fyrir það. En er það hægt í þessari skítaveröld sem fjölmiðlar keppast við að lýsa fyrir okkur?

Hrærður

Já, börnin mín. Þið eruð öll æðisleg. Engum blöðum um það að fletta að ég hef aldrei upplifað annan eins afmælisdag og kvöld. Og það er í sjálfu sér engu um að þakka nema ykkur.
Kann ekki að lýsa þakklæti mínu öðruvísi en á þann veg að ég vona að þið hafið öll skemmt ykkur jafn vel og ég, og að allir hafi skilið við veizluna jafn hamingjusamir og ég gerði. Hljómsveitin skemmti mér konunglega og allar gjafir voru þegnar með tárvotum augum. Engin aumingjaskapur, en engin lygi heldur.
Ég vona að allir átti sig á hve óskaplega mér þykir vænt um að eiga slíkt fjölmenni af góðum vinum, og ég vona líka að ég nái að halda sambandi við alla þessa vini sem mér þykir svo vænt um. Mér hefur sjaldan fundist ég jafn heppinn (þrátt fyrir að þetta hljómi eins og úr einhverri sjálfshjálparbók).

Húrra fyrir pylsugerðarmanninum!

25.2.06

Daglegt brauð

Núna á ég skyndilega þrjár rauðvínsflöskur og veizlan er ekki byrjuð!

Ég er að hugsa um að halda aftur upp á afmælið mitt á morgun.

Af þjóðskáldum

Ég skil ekki að þeir skuli ekki hafa slegið upp frétt í tilefni dagsins. Að ferill minn og ævi skuli ekki hafa verið rakin í máli og myndum, og ættartalan birt eins og hverjum góðum rakka sæmir.

Kannski á næsta stórafmæli.

Glaumur og...

Það er fremur róleg nótt handan rúðuglersins. Úr portinu berast engin köll eða ómur af næturbrölti nágrannanna. Ég velti því fyrir mér hvort tónlistin sem berst frá mér hefur þessi áhrif á nágrannana. Tónlist sem hefði allt eins geta ómað frá næturklúbbi í París um miðja tuttugustu öld. Edith Piaf, Dizzy Gillespie, Django Reinhardt, John Coltrane...
Raunar held ég að Django hafi verið dauður og grafinn um miðja tuttugustu öldina, en andinn lifir áfram, þið skiljið.

Ég á afmæli í dag. Er tuttuguogfimm ára. Gamall. Spurning um að gera úr þessu einhverskonar nýtt upphaf, eða bara halda áfram á sömu reikulu brautinni? Ég veit ekki.
En ég á allavega afmæli í dag. Hoy, hace veintycinco años, yo nacio. Veit ekki hvort þetta er rétt, en mér finnst þetta allavega hljóma nokkuð nærri lagi. Þarf að komast aftur út og sannreyna þetta.

23.2.06

Heimskspeki

Ég efast stórlega um að ég fái háa einkunn fyrir þetta blessaða hugmyndasögupróf. Ég á heldur ekki von á því að ég verði mikill heimspekingur. Ég held mér bara ekki ofan í textunum.
En eitt ætla ég að gefa sjálfum mér tíu fyrir í þessu prófi:

Það var glæsilega stílað.

Fimmtíu og tveir og pabbi minn

Pabbi á afmæli í dag. Hann er fimmtíu og tveggja. Fyrir töluglaða þá er það tuttugu og fimm afturábak. Við pabbi deilum hliðarsummu þetta árið. Heitir það ekki hliðarsumma? Stærðfræði hefur aldrei verið mín sterkasta hlið.

Þegar ég verð fimmtíu og tveggja, ef ég verð fimmtíu og tveggja, ætla ég bjóða fólki til veislu. Ég ætla að láta fjölda gesta ganga upp í töluna sjö. Það myndi vera hliðarsumman. Kannski heitir þetta eitthvað annað?
En svo ætla ég að gefa öllum spilastokka. Og það mega engin hirðfífl vera í þessum spilastokkum. Þá væri grínið eiginlega ónýtt.

Akkilesarhæll

Einu sinni, einhverntímann í öðru lífi, var ég skotinn í þessari stelpu. Það var ekkert merkilegt skot, ég er ekki viss um að hún hafi vitað af þessu (svo ef hún finnur þennan link verður hún pottþétt hrædd, en ókei: ég rambaði inn á þetta í gegnum síðuna hans Friðgeirs).
En þetta var þó nægilega merkilegt til þess að ég hlypi á eftir einhverri stelpu sem ég hélt að væri hún upp Laugaveginn með þeim afleiðingum að ég steig ofan í holu þar sem hefði átt að vera gangstéttarhella og sneri á mér ökklann. Teygði á liðbandi og læti.
Eftir þetta var ég alger hetja, haltraði inn á næsta bar (sem var Sirkus) og kældi með bjór, sat svo með stelpu í fanginu og lúkkaði meira og minna kúl framundir morgun. Vafði einhverju utan um þetta þegar ég kom heim og svaf vært það sem eftir lifði nætur.
Daginn eftir sagði ég mömmu frá þessu og hún stakk upp á því að ég gæti verið ökklabrotinn. Ég hélt að ég myndi deyja, missti allt afl í fætinum langleiðina upp í nára og mér sortnaði fyrir augum. Í huganum valdi ég tónlistina sem spila ætti við útförina.

Tveimur mánuðum síðar sneri ég mig aftur, í þetta sinn fyrir utan Kaffibarinn, og síðan þá má varla blása of hvasst á löppina á mér og það tognar á henni.

Stelpan atarna skyldi mig eftir með ör úr öðru lífi.

Að fremja Kant: Að Kanta

Ég held að ég þurfi að fremja hina fullkomnu framsögu í apríl, og skrifa ritgerð upp á meira en tíu um eitthvað agalega heimspekilegt. Ég næ þessu prófi á morgun ekki svo glatt.
Samt sagði mér einu sinni kona í stórmarkaði að ég gæti orðið hvað sem ég vildi. Hún gleymdi reyndar alveg að taka það með í reikninginn að það vantar svolítið upp á rökhugsunina hjá mér. Svona án þess að ég sakni hennar eitthvað, rökhugsunarinnar.

En hún kenndi mér einu sinni ensku, konan. Þá var ég rosalega klár.
Þá var ég tíu ára.

Aumingjans

Ég vorkenni kommentakerfinu mínu. Það er sérlega fámennur hópur fólks sem hefur tjáð sig þar, og oftast er það ÉG! Nú heimta ég að fólk segi eitthvað, jafnvel þó það sé eitthvað léttvægt og sjálfsagt, eitthvað í líkingu við: Chelsea sökkar, eða Viva Barca!

Þessi núll eru bara svo einmanaleg, jafnvel þó þau séu ekki neitt.

22.2.06

Afmælisgjöfin mín í ár

Einu sinni samdi ég ljóð sem sprengdi heiminn. Fjögurra línu smáskilaboð.
Ég er búinn að biðja um ryksuguna í afmælisgjöf, en sannlega, ef einhverjum tekst að semja svona ljóð sem sprengir heiminn, og flytur mér það í afmælisveislunni, þá býð ég hinum sama upp á fullnægingu í vökvaformi.
Sá eini sem dæmir er að sjálfsögðu ég.

Keppnin er hafin, gangi ykkur vel.

Þegar á reynir

Dæmi um sífelldan flótta minn undan hlutum sem ég ætti að vera að gera, er sú staðreynd að í dag hef ég eytt meiri tíma í það að horfa á ísknattleik, knattspyrnu og lesa mér til um skák (bæði um sögu leiksins og þróun, og eins hef ég reynt að bæta eigin getu), en að lesa greinar eftir heimspekinga á borð við Kant, Foucault, Vilhjálm Árnason, Sören Kierkegaard og fleiri. Og samt er prófið rétt handan við morgundaginn.

Mér er líklega bara ekki viðbjargandi.

21.2.06

Óskalisti afmælisgjafa

Mig sárvantar sérlega ódýra og sérlega umfangslitla ryksugu. Það væri ekki ónýtt fyrir fólk að mynda hópa og slá saman í eina slíka fyrir mig.

Skákin er lífið

Ég tefli betur undir pressu. Þegar einhver stendur og fylgist með. Þá er eins og komi yfir mig einhver einbeitni sem er ekki til staðar þegar ég er bara að sveifla taflmönnum í takt við það sem eini andstæðingur minn gerir. Guðrún teflir samt betur en ég, en samt kann ég meira í skák en hún. Sumt vissi hún ekki einu sinni áður en hún mátaði mig í fyrsta skiptið.

Hún hefur samt einhverja herkænsku í blóðinu, eitthvað sem mig vantar. Í stríði myndi ég vera einn af þessu snarbrjáluðu sem hlypi bara út í opinn dauðann, sveiflandi þeim vopnum sem ég hefði yfir að ráða.
Ég myndi bara lifa af í fimmtánda hvert skipti af fjörutíu. Það er svona sirka staðan í skákleikjum okkar Guðrúnar.

19.2.06

Kaldhæðni

Mikið óskaplega virðist svellið hafa verið sleipt í ísdansinum á vetrarólympíuleikunum. Það misstu bara allir til fótanna og runnu á rassinn.

Fuglaflensufár

Brandarakall gærdagsins var maðurinn í afmælisveislunni hennar Ingu. Ég veit ekkert hvað hann heitir en það skiptir ekki máli fyrir söguna.
Hann sagðist lifa hættulegu lífi, lifa á brúninni.

Hann hafði farið fyrr um daginn að gefa öndunum.

17.2.06

Hell yeah!

Ég fokking rúla í Fífa!

Gáfulegt

Ég stakk af úr síðari hluta tímans eins og ég hefði eitthvað áríðandi sem ég þyrfti að sinna. Fyrir sjálfum mér réttlætti ég þetta hlaup mitt á þannig að nú skyldi ég nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt og gáfulegt.

Eftir klukkutíma hangs á netinu hef ég nú ákveðið að spila smá Fifa Football.

Ómur hversdagsins IV - Ilmur

Á jarðhæðinni er stæk reykelsislykt. Ef reykelsislykt getur kallast stæk. Manni dettur í hug að eitthvað misjafnt hafi verið aðhafst í geymslunni.
Annars skilst mér að stigagangurinn sé lagður grænu teppi en ekki bláu. Tek undir að það sé blágrænt, sægrænt jafnvel.

Insomnia

Það er nú meira helvítið að liggja andvaka og berjast við það að hefja hrotur. Kann einhver fleiri leiki en að telja rollur og saga í trjádrumb? Eða er þetta síðarnefnda kannski ekki leikur, bara teikning úr Andrésar Andarblöðunum?

16.2.06

Átak

Nú held ég að það sé kominn tími til þess að hífa sjálfan mig upp á buxnastrengnum og sparka rækilega í afturendann á sjálfum mér. Það fer að líða að prófi í lesþyngsta kúrsinum.
Ó, mig auman.

Kuldaspil

Mikið var!

Hadesarheimt

Í Lífsháska virðast allir elta einhverja sem þeir finna sig knúna til að drepa, til Ástralíu, eða fara þangað að ná í einhvern sem er dauður. Illmenni og hálfdauðir virðast sækja til Eyjaálfunnar.
Skyldu Ameríkanar líta á Ástralíu sem helvíti?

15.2.06

Meira djók

Æ, ég veit ekki. Mér finnst þetta eiginlega bara dálítið fyndið hjá honum. Mikið rosalega erum við orðin hrædd.

13.2.06

Djók

Ég hef gaman af tengingum og er lunknari við að sjá þær en margir aðrir. Stundum er það bara vandræðalegt en yfirleitt má hafa gaman af þessu.

Tveir eftirlætis grínistarnir mínir tengjast mér á fjölmarga skemmtilega vegu. Til að byrja með eru þeir báðir dauðir og Magnús kynnti mig fyrir þeim báðum eftir að þeir drápust. Auk þess höfðu þeir báðir sérstaka sviðsframkomu og neyttu eiturlyfja úr hófi.
Síðan fara tengingarnar að verða langsóttar og skemmtilegar.
Annar þeirra fæddist einum degi og þrettán árum á undan mér. Hinn dó daginn eftir að ég varð þrettán ára. Þeir voru báðir á fertugsaldri þegar þeir dóu, þó raunar hafi fimm ár skilið þá að. Annar þeirra var þrjátíu og tveggja ára, hinn þrjátíu og sjö.
Þeir voru báðir farnir að huga að gerð sjónvarpsþáttar sem byggði á gríninu sem þeir fluttu á sviði rétt fyrir dauða sinn. Báðir komu þeir gjarnan fram undir áhrifum eiturlyfja.

Ég hef oft fundið fleiri og langsóttari tengingar en þetta, en mér finnst þetta með afmælisdaginn minn og töluna þrettán svolítið skemmtilegar tilviljanir.

Annars voru þeir ekki sérlega líkir grínistar að neinu leyti.

[Þegar ég las yfir þessa færslu aftur fannst mér eins og ég væri að fullyrða að ég væri forfallinn eiturlyfjaneytandi. Fíkniefnatengslin voru að sjálfsögðu á milli þeirra tveggja.]

11.2.06

Andartak/móment

Það eru einkennilegar ljósmyndir þar sem manni finnst sem persónan sem er ljósmynduð stari á mann. Sama hvernig maður reynir að víkja sér undan þessari medúsustöru, þá horfir hún alltaf á mann og reynir að brosa til manns.

En hún getur það bara ekki því staran er frosin í augnablik.

10.2.06

Að hrasa

Í nótt skrikaði mér fótur þegar ég var á leiðinni upp til mín. Ég hélt á plastpoka með kókflösku í, og var með töskuna hangandi hinum megin. Ég var líka alveg búinn í fótunum eftir að hafa verið í vinnunni í örfáa tíma. Samt sat ég stóran hluta af þessum tíma í vinnunni.
Mér fannst hálf kjánalegt að hrasa þarna seint um kvöld, og var alveg viss um að allir í blokkinni hefðu vaknað og væru nú að fussa og sveia yfir þessum sídrukkna unglingi sem væri fluttur í risið.
Ég meina, ég er nú að verða tuttuguogfimm!

Ómur hversdagsins III - Dularfulla hljóðið

Ég bý í risi, undir súð og allt það. Þegar það er hvasst úti hvín í þakrennunum. Ég veit ekki hvað veldur því eða hvers vegna. Veit bara að ef vindurinn hvín þá gaular í öllum veggjum hérna.
Fyrst hélt ég að þetta kæmi úr ofninum. Að það væri loft í ofninum og gauluðu í honum garnirnar. Hægðist ekkert um þó ég tappaði af og allt. Margt sem maður lærir jú af því að vera húsvörður, þó það sé að náttlagi.
Nema hvað, eftir töluverða íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri sumsé í þakrennunum. Ég veit samt ekki enn hvað þetta er.

9.2.06

Ich will jetzt schlafen, bitte

Eitthvað grunar mig að Hildur Rut hafi sofnað yfir MSN spjallinu. Bezt að ég hermi.

Ræræræ... áður en ég dey

Fullt af skemmtilegum tónleikum og fólki í kvöld. Seabear er svo bara kærastinn hennar Ingu Birgis sem hló yfir viðleitni Emils til að fræða upp Sigur Rós, herre gud. Svo fór ég á Rósenberg og mætti Húsvíkingum og Hornfirðingum og skilaði kveðjum hægri vinstri sem aldrei höfðu farið af stað upphaflega. Helvíti gaman.
Mikið ógisslah var gaman í kvöld.

Og ég er ekki frá því að ég sé nokkuð kenndur... í glasi jafnvel?

8.2.06

Frammíköll og upphrópanir

Ég ákvað að opna fyrir kommentin aftur. Fannst einhvernveginn eins og ég væri að svíkjast undan þessari rómuðu gagnvirkni internetsins með því að gefa ekki færi á þeim. En ef það kallar enginn frammí, ef það notar þau enginn, þá slekk ég á þeim von bráðar.

Staupasteinn I

Sálfræðingurinn Frasier Crane er uppáhaldspersónan mín í Staupasteini. En þættirnir um hann voru líka í miklu uppáhaldi hjá mér.
Spurningin er hvort hann myndi kannski bara fara í taugarnar á mér ef ég hefði aldrei horft á þættina.

7.2.06

Styttur

Annar hluti ritstjórnar Torf-a, tímarits bókmenntafræðinema HÍ, tjáði mér fyrr í kvöld að ljóðið mitt Að lokum sem ætlað var til birtingar væri of langt. Ég bauð upp á að stytta það niður svo ég stæði við minn hluta samkomulags sem ég gerði við Björk.

Hægt er að lesa fulla útgáfu ljóðsins hér, en þetta er þó eldri útgáfa og ekki alveg eins og þessi sem átti að birta.

Ómur hversdagsins II - Stigagangurinn

Ég er alltaf að átt mig æ meira á því að ég bý í fjölbýlishúsi. Stigagangurinn er frekar þröngur og lagður bláu teppi. Öll hljóð verða eins, úrsérgengið bergmál. Þegar maður fetar sig upp í ris, upp í mína íbúð, þá mætir maður aðgerðarlausu kvöldi hverrar fjölskyldunnar á fætur annarri.

Fólkið á annarri hæð til vinstri, beint fyrir neðan mig, er að breyta töluverðu hjá sér.

Sjónvarpsgláp

Merkilegt hvað Bretum tekst alltaf að gæða sjónvarpsþættina sína meiri dýpt en félagar þeirra handan Atlantshafsins. Spooks eru til dæmis mjög góðir þættir, og brezka útgáfan af Touching Evil stóð þeirri amerísku næstum áþreifanlega mikið framar.

Ómur hversdagsins I - Bergmál úr Porti

Mér finnst huggulegt að búa á þriðju hæð í fjölbýlishúsi og hafa svefnherbergisglugga sem snýr útí port. Skemmtilegast er þegar fólk talar saman úti í portinu og hljóðin bergmála upp til mín. Það kemur einhver ævintýralegur sjarmi yfir þau. Ekki skemmir fyrir þegar um er að ræða börn að leika sér.

Þetta minnir mig alltaf á Spán.

6.2.06

Bíóbönd

Segir mér svo hugur að nýjasta afurð íslenskrar kvikmyndagerðar, Blóðbönd, sé arfaslök eins og meginþorri restarinnar. Af þeim brotum sem borist hafa um ljósvakamiðla er hún háð sömu takmörkunum og hinar: það gleymdist að ráða leikstjóra. Hún virðist bara hafa gerzt fyrir einhverskonar annarlega tilviljun.

Frekja eða frumlegheit

Mér er lífsins ómögulegt að fara línulega eftir reglunum. Samt er ég tiltölulega löghlýðinn og hlýðinn yfirleitt. Hinzvegar finn ég mér oftar en ekki leiðir til að beygja aðeins útaf, framkvæma hlutina öðruvísi en ætlazt er til.
Þannig að þegar það lá fyrir einfalt verkefni fyrir skólann: Að halda tölu upp úr einum af þeim textum sem lesa átti fyrir þennan kúrs, gat ég ekki á mér setið. Ég lét bæta við ítarefni svo ég gæti þulið framsögu um það. Enn ein bókin á leslista sem var svosum ekkert stuttur fyrir.
Þetta rímar samt þannig séð alveg við þá ákvörðun mína að skrifa metafiksjónal leikritsgreiningu á fyrsta mínu fyrsta námsári í akademísku umhverfi. Og líklega má alveg heimfæra þá ákvörðun að halda risaafmælispartí þegar ég hef sízt efni á því eitthvað uppá svona hegðun.

Sumir fullyrða að þetta sé angi af ákvörðunarfælni og veruleikafirringu, og tjá þarmeð ítrekaðar áhyggjur sínar af heilsu minni. Ég held að þetta beri vott um hvað ég er frumlegur í hugsun og snjall.
Eða ég vona það allavega.

3.2.06

Stæðileiki

Sally sjóræningi fullyrðir að hún þekki Íslendinga frá Dönum þar sem þeir fyrrnefndu valsa um stræti hinna ýmsu byggðarlaga Baunaveldisins. Hún segir að þeir íslenzku gangi hnakkakertir og beinir í baki, séu tígulegir og ákveðnir, jafnvel þó þeir séu bara í Bilko að verzla.
Á meðan ráfa Baunirnar eins og sauðahjörð, bognar í baki og lúffulegar í framan, og þefa af öllum hillum.

Ég veit ekki, en ég sá eina íslenzka frú sem gekk ansi hnarreist upp Laugaveginn og splundraði hoknum hópi túrista við kortaskoðun.
Þeir horfðu líka gapandi á eftir henni.

Karlmenni

Við Magnús ræddum um mismunandi stillingar á þvottavélum, kosti og ókosti mýkingarefnis og nauðsyn þess að blanda ekki saman sterklituðum þvotti við fölan.

Næst á dagskrá er að hittast með matreiðslubækurnar og sauma svolítið út saman.

Hnyttinn!

Einhver fleygustu orð íslenzkra bloggheima í dag hljóta að hafa hafa verið rituð af Ármanni Jakobssyni.
Ég hef ekki trú á því að þau verði toppuð, allavega ekki í dag.

Í hamingjunnar bænum

Íslendingar fara sífellt lækkandi á ánægju- og gleðiskalanum, þ.e. þeir falla niður um einhver sæti á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims í hvert skipti sem hann er birtur. Og þó hafa lífsskilyrði sjaldan verið betri. Eitthvað er það sem ergir okkur.
Í bókinni a brief history of happiness, eftir Nicholas White, er saga af konum sem sátu á kaffihúsi og spjölluðu saman. Önnur þeirra spyr hvort hin sé hamingjusöm, ánægð með lífið. Sú spurða svarar játandi, en með semingi, því það séu nokkur atriði sem fari í taugarnar á henni.

1.2.06

Geitin er mín

Víðsvegar í Evrópu telst maður til ungmenna þar til maður fagnar því að tuttugasta og sjöunda ár lífs manns hefur hafið göngu sína. Í íslenzku strætókerfi er maður fullorðinn við átján ára aldur.

Krómákur og félagar mörðu Íslendinga í handbolta. Hugsanlega í góðu fyrir mig, því ef ég man þetta rétt var búið að lofa mér heilmikilli gestrisni í Króatíu. Hún hefði hugsanlega fokið útí veður og vind hefðum við haft af þeim einhver stig í dag. Samkvæmt því þá er ennþá inni í myndinni að ég fái að skera geitina á háls.

Negla!

Í gamla daga komust íþróttafréttamenn upp með það að hrópa upp yfir sig með orðum á borð við þrumuskot án þess að hafa neitt fyrir sér í því. Í dag þurfa þeir að bíta í það súra að þó skotið virðist fast, þá er í það í raun laflaust miðað við hin... nær ekki einu sinni níutíu kílómetra hraða!

Örlítið af tímanum

Að skrópa í kvikmyndafræði vekur upp svipaða tilfinningu og þegar maður beilar á bíóferð. Mann langar alveg að fara, en finnst að maður hafi eitthvað betra við tímann að gera...

Hvað nú?

Við pabbi erum miður okkar. Uppáhaldsleikmaðurinn okkar úr leik, Alexander Peterson til Þýskalands í aðgerð. Hverjum eigum við að halda með núna?

Mýta orðsins

Hvers vegna skyldi maður verða svona gegnsýrður af því sem maður les á næturnar? Allavega því sem sá lestur skilur eftir sig.

Baltasar Krómákur

Við gleðjumst öll yfir velgengni íslenska landsliðsins í handbolta. Svolítið eins og við höfum sjálf átt þátt í einhverjum stórfenglegum atburði. Rússarnir litu meira og minna út eins og hópur af grábjörnum sem hafa lært að dansa og leika listir, fara með kúnstir jafnvel.
Leikur Dana og Króata var áhugaverður fyrir margar sakir. Sérstaklega fyrir þær að úrslit hans hleyptu Íslendingum í efsta sæti riðilsins í bili og að mér fannst allir leikmenn Króata líta út eins og Baltasar Kormákur. Skyldum við geta notað hann í þetta? Rússarnir virtust leiklistalega sinnaðir, hví ekki við?

Benedikt Lafleur stóð fyrir ágætu skáldaspírukvöldi í Iðu. Snæfríður Ingadóttir las úr bókinni sinni um útlenzkan mat á Íslandi. Opið Hús hét hún. Björk Þorgrímsdóttir las ljóð sem hún samdi meðan hún var í Armeníu. Hún var ansi sniðug, skemmtilegt ljóðskáld. Væri áhugavert að fylgjast meira með henni.
Undir lokin fékk blómið Benni mig til að skrifa niður emilinn minn. Hugmyndin er að ég fái einn slíkan í hvert skipti sem þessi kvöld verða haldin, svona rétt til að láta mig vita. Ég bíð bara spenntur. Skyldi garpurinn semja við mig, ætli ég fái gefna út ljóðabók eða skáldsögu hjá honum hið snarasta? Eða ætli ég þurfi að sanna mig með því að synda út í Viðey fyrst?

Rollerblades at night