30.12.06

Stöngin

Í sjónvarpinu skella góðu flóttamennirnir á eftir sér hurð, og viti menn: þarna er einmitt sláin sem þeir þurftu til að læsa henni rækilega!

29.12.06

...og heimurinn varð samur á ný!

Í anda næturinnar bruddi ég í bjartsýni minni Smint töflu, og brosti með sjálfum mér.

Atburðir líðandi stundar:

Lítið skorkvikindi sem liðast undan hillunni andspænis mér. Langt og mjótt með marga fætur, ógeðslega marga, rauða fætur. Þar sem það liðast eftir gólfinu í áttina að mér, glampar bjarminn frá sjónvarpinu af silfruðu baki þess.

Ég læt skóinn minn detta ofan á skottuna svo hún kremst. Við dauðann skreppur hún saman.

28.12.06

Seinfeld

"I would say the concept behind the car phone, and the phone machines; the speaker phones, the airline phone, the portable phone, the payphone, the cordless phone, the multi-line phone, the phone pager, the call waiting, call forwarding, call conferenceing, the speed dialing, the direct dialing and the redialing, is that we all have all have absolutely nothing to say, and we've got to talk to someone about it right now. It can not wait another second!
I mean, come on, you're at home, you're on the phone; you're in the car you're making calls; you get to work: Any messages for me?

You've got to get people a chance to miss you a little."

27.12.06

Ég er meistarinn

Í gærkvöldi leiddi ég tvö lið til sigurs í tveimur leikjum (nei, ég ýki aldrei). Og drakk rauðvín, drakk bjór, drakk púrtvín og örlítið kaffi, og svaf svo eitthvað lítið í nótt. Einn daginn á ég eftir að deyja úr gáfum... eða menntahroka.

Meistarinn er ákaflega flókið spil, og spurningarnar agalega vitlaust stafsettar og, stundum, málfræðilega rangar.

23.12.06

22.12.06

Á kaffistofunni

Ég hef iðkað kaffistofusamræður af kappi í dag. Það er skemmtilegt form, þar ræður hispursleysið ríkjum. Það er samt skemmtilegt að fylgjast með breyttum viðhorfum til tilverunnar og samfélags innan þessa spjalls. Hugmyndir fólks á miðjum aldri um samkynhneigð eru tildæmis breyttar; hún þykir ekki lengur viðbjóður og ónáttúra, heldur svolítið skemmtileg og spennandi.
Annað sem er skemmtilegt við vinnustaðakaffistofur, er möguleikinn á að hreykja sjálfum sér án þess þó að virðast montinn. Með því að segja sögur af sjálfum sér eða ræða eigin áform fyrir framtíðina, og viðra um leið eigin skoðanir á málefnum líðandi stundar, getur maður farið gjörsamlega út fyrir mörk þess sem vinir manns og kunningjar myndu almennt taka gilt og ekki afskrifa sem hreint mont eða sjálfbirgingshátt.
Ég verð að fara að finna mér dagvinnu...

Brugðið út af vananum

Það eru, að ég held, mörg ár síðan ég hef mætt til vinnu klukkan átta að morgni. Fylgir þessu samt skemmtileg tilfinning.

21.12.06

Þrumur og eldingar

Á símanum hennar Ástu er ljós sem blikkar taktfast. Það fer óskaplega í taugarnar á mér í myrkri, því að þrátt fyrir að vera pínulítið tekst því alltaf að lýsa upp myrk herbergi og gera mér gjörsamlega ókleift að festa svefn.
Í nótt vorum við rétt ósofnuð, nýkomin heim, og herbergið lýstist upp. Ég bað Ástu að snúa símanum sínum á hvolf. Hún játaði með heilmiklum semingi, en sagði svo að hann væri á hvolfi. Hagræddi honum og reyndi að koma í veg fyrir að hann blikkaði aftur. Nokkrum sekúndum síðar drundi svona heiftarlega í himninum.

Síminn hennar Ástu blikkar sumsé eins og elding!

Veðrið í dag

Ég fæ það alltaf nett á tilfinninguna að veðurfræðingar viti ekkert hvað þeir eru tala um, og um leið að raunvísindi séu bara feik.

20.12.06

Yule

Tímasetning jólanna þetta árið er afleit. Ég er hinsvegar að vinna fram í janúar, svo mér ætti að vera alveg sama. Og mér er það svosum, veit bara ekki alveg hvar jólaskapið mitt er.

18.12.06

Ef ég vissi ekki um hvað væri verið að tala...

„...við erum með dálítið þétt á milli þrýstilína...“

Vont en það venst

Ég er ennþá syfjaður. Og ennþá á leiðinni í próf, á morgun - það er loka. Annars er ég alltaf í vinnunni, og alltaf syfjaður, svo lesturinn er eitthvað skringilegur. Horfði hinsvegar á Blade þríleikinn í andvöku næturinnar. Og borðaði pítsu með. Hún var heit til að byrja með, en þegar maður vaknar aftur klukkan fimm og heldur áfram að narta í hana, þá hefur hún kólnað.

Í syfjunni verða sjónvarpsþættir hinsvegar vondir. Slæmir þættir verða allt í einu ennþá verri. Eiginlega afbrigðilega slæmir. Hálf kómískt eitthvað, en dálítið neyðarlegt að maður sé að glápa á þetta. Tilgangsleysið a´bakvið það algert.
Tyrfnir heimspekitextar verða hinsvegar bara óskiljanlegir. Líkingin úr Gúmmí-Tarsani kemur upp í hugann, og skyndilega eru stafirnir orðnir að maurum á fleygiferð eftir blaðsíðunni. En Gúmmí-Tarsan var lesblindur (þó það hafi heitið eitthvað annað þá) en það er ég ekki. Ég er bara blindur. Það kom einmitt berlega í ljós um helgina þegar „hjúkrun gítarsjúklinga“ var fyrir augunum á mér, og einhver hafði „fót til sölu“. Hvorttveggja illskiljanlegt, en við nánari eftirgrennslan var um að ræða gigtarsjúklinga og föt til sölu. Lætur nærri. Minnir mig samt aðalega á Afa drullusokk og unglingaspennubókina Leggöngin. (<-).

16.12.06

Á barmi svefns og vöku

Við hrukkum upp í morgun við dimmraddaðan kvenmann sem skipaði einhverjum félaga sínum fyrir beint fyrir utan gluggann minn. Þar sem ég bý á þriðju hæð þá þótti Ástu þetta dularfullt í meira lagi. Ég var hinsvegar fljótur til með útskýringu og benti á að nágrannarnir þyrftu að „ganga inn utanfrá.“
Ásta hló. Ég reyndi að bjarga mér fyrir horn og fullyrti að þetta væri alveg til, ég hefði séð svona í útlöndum.
Hún hló ennþá meira.

Ég er ennþá mjög syfjaður.

15.12.06

14.12.06

Enn af jólalögum

... og hver í andskotanum R&B-væddi þau svona djöfulega mikið! Hvaða fáviti ber ábyrgð á þeim jólum sem eru mest spiluð fyrir jólin?

Jólalög

Voru jólin fundin upp á níunda áratugnum?

...þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla

Mér finnst þetta eiginlega ekkert töff. Mér finnst það eiginlega hálf ískyggilegt hvað sölumaðurinn hjá Heklu finnst þetta töff:
„Eftir þeim síðustu upplýsingum sem ég hef þá held ég að við séum sú þjóð sem er með flesta bíla miðað við fólksfjölda [...] við erum yfirleitt að kaupa meira heldur en allir aðrir.“

Mér finnst þetta ekkert töff.

12.12.06

Seinfeld

I had a dream last night that a hamburger was eating me!

Örninn

Það er ágætt að sjá að ég er ekki sá eini sem finnst ótrúlega gaman að leika mér í Google Earth.

Að skilgreina veröldina upp á nýtt

Þegar ég kom inn á Hlemm heyrði ég konu æpa lágt. Ekki svosum eins og um neina neyð væri að ræða, mér þótti bara líklegt að hún hefði misst af strætó. Enda sá ég hana út undan mér í dyrunum móts við lögreglustöðina.
Á meðan ég sat svo og beið varð ég var við þetta aumingjalega óp aftur og aftur. Konan hljóðaði reglulega upp yfir sig, aldrei hærra en í fyrsta skiptið, og í hvert skipti minnti það mig meira á gargandi gæs, eða máv. Mér datt í hug að hugsanlega væri um örlítið þroskahefta manneskju, eða einhvernveginn fatlaða, að ræða.

Að lokum stóðst ég ekki mátið og næst þegar hún hljóðaði leit ég við. En hún var ekki þar. Í hennar stað var ungur strákur í dyrunum. Hann gekk inn og fékk sér sæti. Hann var bara ósköp venjulegur. Um leið og hann fékk sér sæti, strunsaði stelpa á aldur við mig inn um dyrnar og hurðin flaug upp á ný. Það brakaði í hjörunum, hljómaði ekki ólíkt og kona að æpa lágt upp yfir sig...

Dularfulla kanínan

Ég rakst á kanínu í nótt, fyrst rétt eftir miðnætti. Hún fól sig undir runna og ég hélt að hún væri lítill snjóskafl. Auðvitað var ekkert skjól af þessum ágæta runna - síðustu laufin féllu af honum um miðjan september. En hún húkti þar og það var ekki fyrr en ég sá glitta í rauð augun að ég ég fattaði að skaflinn væri lifandi, stoppaði og nálgaðist hana varlega. Hún hreyfði sig ekki, en stífnaði öll upp. Svo þegar ég beygði mig niður og kallaði á hana eins og ég hefði kallað á kött, kom hún skoppandi til mín og þefaði af fingrunum sem ég hafði rétt fram. Vonaðist eftir einhverju matarkyns. En hún neitaði alfarið að leyfa mér að taka sig upp.
Reyndar sá ég þessa kanínu í sumar. Þá lá hún í skjóli fyrir aftan hús, lá grafkyrr og horfði á mig með þessum rosalega rauðu augum svo ég varð næstum skelkaður. Núna brá mér ekki jafn mikið við augun, ég varð bara hissa á að sjá hana að vetri til. Auðvitað þurfa þær að vera einhversstaðar, en mér datt ekki hug að þær myndu lifa svona upp á sitt einsdæmi inn í veturinn. Sérstaklega ekki með nóvember í líkingu við þann sem herjaði á Ísland: kaldan og langan.

Ég kíkti nokkrum sinnum til viðbótar á kanínuna. Hún lá þarna í gegnum nóttina, en þegar ég gáði undir morgun var hún bak og burt.

11.12.06

Lík dagsins

Allt í lagi, það er má svosum alveg greina einhverja sameiginlega þætti hjá mér og honum. Reyndar er þetta skelfileg mynd af mér sjálfum, sérstaklega svona til samanburðar, en sú eina sem ég fann í svipinn.

Misskilningur

... og ég sem hélt að ritgerðir skrifuðu sig yfirleitt sjálfar. Til hvers annars áttu þessar tölvur eiginlega að vera?

10.12.06

Forsjárhyggja

Hvernig er það, er alveg kúl að auglýsingar á áfengi séu bannaðar, en Lýðheilsustofnun auglýsi skaðsemi áfengis grimmt, og með ansi ýktum hætti?

Og hvað ætla ég aftur að verða þegar ég verð stór?

„The businessperson and the manufacturer are more important than the writer and the artist.“

Strongly Disagree * *****
Disagree
Agree
Strongly Agree

(Niðurstaðan mín var annars áhugaverð.)

Í tilefni gærdagsins


9.12.06

Hafnarskáld í Nörrebro

Það er á svona stundum sem mér er skapi næst að verða bara löghyggjumaður. Hlutirnir ganga bara upp. Við fengum svar í dag, draumaíbúðin okkar Ástu býðst okkur til leigu frá því um miðjan janúar. Ég fer reyndar ekki fyrr en í marsbyrjun, en það hefur spilast þannig úr þessu að Ásta getur flutt inn fyrst. Það var bara ekki hægt að sleppa þessari íbúð á svona tækniatriði.

En nú er ekki annað hægt en að dansa og tralla. Ásta kemur annars heim á fimmtudaginn. Ekkert nema glaumur og gleði framundan... um leið og ritgerðin er frá.

Bassaleikari í bæjarstjórastól

Bæjarstjórinn í Bolungarvík spilar á bassa í hljómsveit. Þetta er einhverskonar heldrimannapönk, og ætli þetta sé ekki Lýður læknir sem er þarna í forsvari? Er ekki alveg viss.

Það er óveður og allar sjónvarpsstöðvar hafa gefið upp öndina, nema RÚV.

Það sem maður veltir fyrir sér til þess að hugsa ekki um ritgerð

Menning er alvörumál. Og sérstaklega íslensk menning.“

Þetta stendur í Lesbókinni í dag. Á eftir fylgir svo einhver lýsing á atburði sem fram leiddu lúffulegur íslenskur eiginmaður og spéhrædd nútímakona. Ég skildi ekki alveg samhengið. En fór að hugsa um Íslendingasögurnar.
Sagnaarfinn.
Ég skil ekki alveg hvað það er í þessum flóttamannasögum norskra glæpamanna, sem flúðu réttvísina; úr einu hálfbyggilegu landi í annað, sem þeim fannst vera svo langt í burtu að það gæti ekki verið að neinn fyndi þá þar; hvað það er í þessum frásögnum sem okkur Íslendingum finnst gefa okkur rétt til að vísa frá fólki sem hugsanlega myndi hafa miklu meiri áhuga á að færa íslenskt samfélag og menningu inn í nútímann. Hvernig flokkum við annars fólk sem kemur inn í landið sem verðugt eða óverðugt? Hver er mælikvarðinn? Hversvegna er íslenskur nauðgari rétthærri en litháenskur? Er ekki bara málið að senda alla glæpamenn úr landi? Og ef enginn vill taka við þeim getum við flutt þá Vestmannaeyinga sem eru ekki glæpamenn bara til landsins (eða út í einhverja aðra eyju ef þeir skyldu endilega vilja vera svona hálfpartinn á floti, nóg er af skerjum í kringum Ísland), og ferjað svo bara alla glæpamenn til Eyja. Þeir gætu þá stofnað nýlendur sín á milli, pólska nýlendan í dalnum og gamlir Íslendingar fá að vera þar sem bærinn stendur.

Ég veit ekki. Eiginlega langaði mig bara að kalla menningararfinn norskar flóttamannabókmenntir.

Þvinguð ritgerðarsmíð um miðja nótt

Mér líður svolítið eins og ég sé bundinn niður, hendur fyrir aftan bak og fætur upp í loft, og augun á mér hafi verið þvinguð upp með einhverju áhaldi úr köldu stáli. Mér finnst eins og skæru ljósi sé beint í augun á mér á meðan einhver stendur og sparkar reglulega í höfuðið á mér, svolítið fast, en ekki nógu fast til að ég missi alveg meðvitund, frekar að ég vankist.

Það hefur reyndar talsverð áhrif á þessa vanlíðan mína, að ritgerðarefnin eru ekki sérlega liðleg, og eru alls ekki birtingarmynd minnar upplifunar af þessum ágæta kúrsi. Þvert á móti, lesi maður yfir þau þá var þetta hundleiðinlegur kúrs. Sem mér fannst einmitt ekki.

Úr sjónvarpinu

Samkvæmt X-files er brunnur lífsins falinn um borð í norsku skipi.
Það hefði hinsvegar ekki verið svo út í hött að láta þau Mulder og Scully drepast úr elli, eins og aðstæður virðast hafa skipast í þessum þætti. Táknrænt í það minnsta.

Úti í tunglsljósi

Jú, það var ansi huggulegt að rúnta eftir þjóðveginum með sítrónugulan hálfmána í stefni. Hann lá afvelta, karlinn í tunglinu, svona spikfeitur, en skelli-, skellihlæjandi.
Ég er ekki alveg viss hvort umferðin hafi liðið svona hægt áfram, þægilega yfirveguð, af því að allir ökumennirnir voru með hugann við tunglið eins og ég, en eitthvað var það.

8.12.06

Um gagnvirkni

Það er fáránlegt að geta ekki flett dagblöðum, lesið pistla þar og kommentað svo á þá.

Heima

Kom í gærkvöldi. Reykjavík í ljósum logum úti í myrkrinu og Reykjanesbrautin, appelsínugult strik í gegnum hraunið, eins og olíuvætt reipi sem hefði verið notað til að tendra borgina.
Einhverra hluta vegna þótti mér samt vænna um að koma heim í gær, heldur en í hin fjögur skiptin. Sjálfsagt er það af því að Ásta kemur heim eftir viku, og alla dagana þangað til hún kemur verð ég á kafi í próflestri og ritgerðarsmíð.
Líklega hefur það samt sitthvað að segja að þetta var líka síðasta heimsóknin til Danmerkur.

Næst þegar ég fer veifa ég fingri eða lófa að landinu, fer eftir skapi, og verð í burtu um óákveðinn tíma. Ekki minna en tvö ár þó, ef frá eru talin nauðsynlegar heimsóknir til Íslands vegna prófa.

4.12.06

Um Íslendinga og tengsl þeirra við umheiminn: Nútímasamskipti í essinu sínu

Um leið og hjólin snertu flugbrautina upphófst mikill kór. Hver farsímakveðjan á fætur annarri glumdi í litla rýminu, og í kjölfarið fylgdi píp eftir píp; smáskilaboð sem höfðu beðið á meðan flugvélin sjálf var utan þjónustusvæðis boðuðu nú komu sína.
Þessi kór kveðjutóna og píphljóma entist i að minnsta kosti tíu mínútur. Á einhverjum tímapunkti langaði mig að skera af mér eyrun.

3.12.06

Karlmenn í kvennærfatadeild tískuverslana:

Líða á eftir eiginkonum eða kærustum eins og skuggar eða fylgjur, með hendur í vösum og augun flakkandi á milli gólfs og lofts; þeir eru bara þarna, „konan er að skoða“, og þeir hafa ekkert sérstakt álit: „Jú elskan, þetta er ljómandi snoturt, gullfallegt alveg. Jújú, í alvöru, jú, mér finnst það, virkilega fallegt.“
Ekki beinlínis við hæfi að hafa álit, en þó verða þeir að segja eitthvað.
Mæta öðrum karlmanni og kinka kankvíslega kolli, „Jújú, blessaður,“ og horfa snarlega undan með hendurnar rígbundnar í vasana, eða utan um innkaupapoka úr annarri búð.

Mikið væri gaman að verða vitni að manninum sem stæði við rekka með rauðar kvennærbuxur úr silki og hrópaði fullur aðdáunar yfir búðina: „Heyrðu Stína, sjáðu hér. Ferlega væri ég til í að sjá þig í þessum í kvöld! Þær myndu alveg sýna rassinn á þér í réttu ljósi.“

29.11.06

„Það eina sem þú þarft að gera er að skera þær og skella þeim í ofninn“

Af hverju? Til hvers? Af hverju ekki bara að kaupa tilbúnar kökur? Eða að baka þær bara frá grunni? Hvurslags endemis undankomuleið er þetta; maður þarf ekki að gera deigið, maður getur bara skorið þær í sneiðar og skellt þeim í ofninn.
Af hverju ekki bara að kaupa tilbúnar?

Um dauða höfundarins

Höfundurinn er Guð.
Guð er dauður.

Höfundurinn er dauður.

28.11.06

Við viljum aftöku!

„En hver ber ábyrgðina á því að þetta sé komið í þessa stöðu?“
„En þarf ekki, á þessum tímapunkti, að finna það út hver ber ábyrgðina á þessu ástandi?“
„Hver ber ábyrgðina?“
„Hver ber endanlega ábyrgðina?“
Sölvi Tryggvason, Ísland í dag

Lestrarvenjur

Skyldu þeir sem ólust upp við að lesa Hardy bræðurna, fimmbækurnar, dularfullu bækurnar og þvíumlíkt, vera þeir sömu og sækja mest í glæpasögur í dag? Hliðstæðurnar eru allavega til staðar: sömu aðalpersónurnar, ævintýri og hasar, og eitthvað dularfullt sem opinberast í lokin.

Laxness

„Ég varð meðal annars bergnuminn af gregóriskum saung sem þartíðkaður franskur skóli benediktsmúnka, kendur við Solesmes, hóf til nýrrar endurvakníngar á síðustu öld. Þegar mér varð á að segja kynviltum vini mínum einum af töfrum þessa múnkasaungs í einum tón, planus cantus, sem ég hafði verið niðursokkinn í frá morni til kvölds í heilt ár og oft vaknað upp á næturnar og farið í kirkju til að missa ekki af óttusaungnum, og bætti við að þessari reynslu væri einna helst líkjanda við að borða saltfisk í alla mata, þannig að maður verður því sólgnari í slíkan fisk sem maður borðar hann oftar og leingur, þá sagði þessi góðkunníngi minn mér til stórrar undrunar: þú hlýtur að vera hómósexúalisti, lýsti síðan hversu hatramleg áhrif það hefði á kynkirtla sína að heyra múnka sýngja saman gregóriskan unisono.“
Úr Skáldatíma

27.11.06

Hversu vel mér gengur að læra:

Ég er búinn með MegaMan 2. Ég hef ekki lengur tölu á því hvað ég er búinn að klára þennan leik oft. Í hverri prófatíð fer ég nokkrum sinnum í gegnum hann.

26.11.06

Gaupi

„Hann hefur verið alveg frábær eftir að hann kom inn á.“

Stóð hann sig þá svona illa á bekknum, eða hvað?

Hugsanleg ástæða þess hve lítið kemur út úr lærdómnum hjá mér:

Fjúkk, hugsa ég og strýk svitann af enninu. Enn eitt verkefni frá og þá er bara stóra ritgerðin eftir. Í bili. Helvítis verkefnið um Salman Rushdie og Söngva Satans búið að sitja í mér lengi, enda las ég upphaflega vitlaust efni og ekkert geta mætt í tíma undanfarið. Svo ég neyddist til að lesa allt efnið á síðustu stundu, móta skoðanir upp á nýtt og fylla í eyður. En það hafðist. Og það snemma á sunnudegi, svo nú hef ég alveg tvo daga fyrir stóru rökfærsluritgerðina í heimspekinni. Nokkurnveginn með það á hreinu hvað ég ætla að skrifa um; búinn að velta þessu fyrir mér alla vikuna og nú á ég í raun ekkert eftir nema að lesa almennilega yfir kaflann í bókinni (einu sinni til) og punkta hjá mér, setja saman smá grind að ritgerð og hefjast svo handa fyrir alvöru.
Ekkert mál.

Líklega best að ég fari fyrst aðeins í MegaMan.

Tilraunamatseld

Núna rétt í þessu afrekaði ég það að smakka seigfljótandi rauðvín.
Pabbi minn kallaði það hinsvegar sósu og breiddi það glaðhlakkalega yfir kjötið á disknum sínum.

25.11.06

Óður heimur

Í mosku í London sá ég fræðsluþátt um hvítan tónlistamann sem tekið hafði upp íslamska siði og trú. Í þættinum, sem sýndur var í kjallara sem þjónaði hlutverki færðslumiðstöðvar, dásamaði hann Íslam, og sagði frá hvernig hann hafði upphaflega komist í kynni við trúna.

Í greininni One Thousand Days in a Balloon segir Salman Rushdie: „When a white pop-star-turned-Islamic-fanatic speaks approvingly about killing an Indian immigrant, how does the Indian immigrant end up being called a racist?“

Yusuf er að gefa út nýja plötu þessa dagana.

Úr sjónvarpinu

- Dude, I don't speak non-english, but if I were you I wouldn't start your car tonight.

Salman Rushdie

„Books choose their authors; the act of creation is not entirely a rational and concious one.“
Úr ritgerðinni In Good Faith

24.11.06

Nýja Delistúlkan (sjá ÁJ)

Fyrir utan allt sem hann telur upp, þá er hún líka alltaf að loka sjoppunni. Og þá er alveg sama hvenær ég kem.

Fram og til baka

Vinur minn afrekaði það um daginn að nýta sér alla mögulega samgöngumáta sem tiltækir eru í heiminum í dag, utan geimskots. Hann nýtti sér þannig flugvél, rútu, lest, bát og fætur (en hann er hinsvegar of latur við að blogga til að segja frá þessu sjálfur). Vitaskuld er líka hægt að fljúga með loftbelg, synda og hjóla, en að benda á slíkt væru bara leiðindi, og til þess eins ætlað að gera þetta flókið.
Nema hvað, vinurinn sagði að þetta hefði minnt sig á það þegar hann borðaði allar máltíðir dagsins, morgun-, hádegis-, eftirmiðdegis- og kvöld-, sína í hverju landinu. Þá var hann á lestarferðalagi um Evrópu.

Mér finnst skemmtilegast við þetta hvað við erum öll orðin að miklum heimsborgurum.

Og víst er hún það!

Það er annars ekki hægt að minnast á fríðleikspiltinn orðheppna án þess að segja líka sögu af systur hans. Sú heitir Bára og bar fyrir sig að hafa sérlega slæmt minni þegar kæmi að orðtökum og málsháttum. Hún ruglaði þessu öllu saman, sneri í graut, og fengi út úr því einhverja vitleysu.
Einhverja málshætti þóttist hún nú samt kunna - tengdi það nafninu sínu - en vafðist þó tunga um tönn þegar hún sagði:

Sjaldan er bára einstök...

Ekki bara fríðleikspiltur

Fræg er sagan af einum sem afbakaði óviljandi máltækið enska um gáfnafar og andlitsfríðleik. Eftir að hafa sagt eitthvað óvitlaust og fengið hrós fyrir, benti hann hrokafullur á sjálfan sig með þumalputta og hreytti sjálfbirgingslega útúr sér:

Not a pretty face, sko!“

22.11.06

Sagði kona við aðra konu í frosthörkunum

Strætisvagnarnir hafa verið þéttsettnir undanfarna morgna og seinnipart daga. Ég áttaði mig ekki á því strax, en skýringin kom þó á þriðjudaginn:

„Annars nota ég svo sjaldan strætó, keyri yfirleitt allt. Bíllinn er bara ennþá á sumardekkjum...“

Nóg komið

Erum við ekki orðin aðeins of stolt af þessari íslensku útrás?

21.11.06

Úr sjónvarpinu

- I mean, what kind of a man has sex with a goat?
- Hey! I used a condom!

Óvænt

Skyndilega rankaði ég við mér klórandi mér í höfðinu með vinstri, en litla fingur hægri handar í eyranu. Skil ekki hvernig þetta gerðist.

MMVI mínus MCMLXXXI

Skyldu stærðfræðingar almennt hafa samúð með málefnum Araba, þó ekki væri nema helst fyrir að hafa fært okkur arabíska talnakerfið í gegnum Máraveldið á Spáni? Ég veit allavega að ég er ekki sérlega spenntur fyrir því að þurfa að reikna neitt með rómverskum tölum.

Chai

Ég er orðinn háður þessum drykk. Mér skilst reyndar að hann sé ofsalega í tízku, en ég er hvorteðer ekkert í tízku.

Það sem er samt skemmtilegast við þetta, að ég get mallað þetta heima hjá foreldrum mínum. Vantar bara sírópið.

20.11.06

Tilgangslausar staðreyndir:

  • Sagan segir að Herbie Flowers, sem spilaði á bassa í laginu Take a walk on the wildside, hafi upphaflega stungið upp á því að hafa tvær bassalínur til að geta rukkað tvöfalt tímakaup. Lou Reed sjálfur segir að hann hafi viljað melódískan bassagang á móti melódíunni (sem er óskup falleg heyri maður söngvara með mjúka rödd syngja hana).
  • Í laginu er spilað á tvo bassa, bæði kontrabassa og rafmagnsbassa, og er rafmagnsbassalínan tíund ofar en hin, og sérlega dregin. Flowers sagði í viðtali að þetta væri dálítið væmið, og að það hefði bara verið mögulegt að gera eina plötu þar sem þessi hugmynd væri notuð. Hann var bara sá sem var svo lánsamur að gera þetta fyrstur.
  • Saxófónleikarinn Ronnie Ross, sem spilar saxófónsóló í lok lagsins, hafði kennt upptökustjóra plötunnar á saxófón þegar hann var krakki. David Bowie sá um upptökur á Transformer, plötunni sem lagið kom fyrst fyrir á.
  • Stúlknatríóið sem syngur in („And the coloured girls go...“) kallaði sig Thunderthighs.
  • Persónurnar sem textinn fjallar um, voru allar raunverulegar og voru fastagestir í Verksmiðju (e. the Factory) Andys Warhol.

19.11.06

Meira af Eddunni

„Ég vil þakka Íslendingum fyrir að taka vel á móti þessum Erlendi.“
Ingvar E. Sigurðsson í þakkarræðu.

Og sjónvarpsmaður ársins er... Ómar Ragnarsson!

Er maðurinn á deyfilyfjum? Ég hef aldrei séð hann svona afslappaðan og rólegan.

Eftir óveðrið

Þegar ég fór á fætur í gær klæddi ég mig í gallabuxur og peysur. Tvær peysur, það var kalt. Svo mætti ég í vinnuna með húfu, í þykkri úlpu og með lopavettlinga á höndunum. Vinnan mín fer mestmegnis fram innandyra. Ég gerði alls ekki ráð fyrir því að undir morgun myndi bíllinn minn sitja fastur í skafli. Eða að ég þyrfti að moka hann út.
Þessvegna sit ég núna á nærklæðunum einum saman og vona svo innilega að það myndist enginn akút þörf á mér næstu tvo tímana og hálfan.

Ísland farsælda frón

Það er helvítis skítaveður úti!

18.11.06

Svefnvana

Ég er svo ótrúlega andlaus eitthvað og upptekinn af því að vera grútsyfjaður, að ég er að hugsa um að birta eitthvað svona kvissdæmi sem ég var manaður upp í að svara annarsstaðar.
Tek það samt fram að ef engin svör verða komin í kommentakerfið þegar ég mæti aftur til vinnu hér í kvöld, þá hverfur þetta jafnharðan. Ef ég væri ekki svona andlega uppurinn og svefnvana þá myndi ég semja þessar spurningar upp á nýtt, gera þær áhugaverðari og skemmtilegri. En þetta verður að duga í bili:

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifin/n af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Gefðu mér hafa gælunafn og útskýrðu af hverju þú valdir það?
7. Lýstu mér í einu orði
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Líst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað, hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þú einhvern tímann viljað segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlarðu að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

17.11.06

Um þýðingar

„Til dæmis segja menn gjarnan við brúðkaupsaltarið á ensku „I do“ sem enginn heilvita íslenskur þýðandi þýðir með „ég vil“ eða „ég geri (það)“.“

Gauti Kristmannsson, Teoría, tryggð og túlkun, Jón á Bægisá (Tímarit þýðenda), 2. tbl, 1995. Bls. 12 -

Seinfeld

Freedom with no clothes is better then no freedom with clothes!

16.11.06

Um íslenska hreysti

Svo var það þessi sem sagði það til marks um hreysti íslensku þjóðarinnar, að við hefðum þolað þessa veðráttu í þúsund ár. Það finnst mér ekki. Mér finnst fátt hraustlegt við það að húka hríðskjálfandi undir ljósastaur með frostbitnar kinnar og sultardropana lekandi af nefinu eins og Dettifoss í haustleysingunum. Helst að myrkrið feli þetta.

Ég velti því hinsvegar oft fyrir mér hvaða hálfvita hafi dottið í hug að þetta land væri mögulegt til búsetu.

15.11.06

Aðeins um íslenska sjómenn

Einn af mínum eftirlætis rithöfundum sem skrifa á íslensku, stærir sig af því að hafa verið sjómaður. Annar íslenskur rithöfundur, löngu dauður, var kokkur á skútu. Hans frásagnir þykja mér líka skemmtilegar. Frændi minn er líka sjómaður. Honum hef ég alltaf haft gaman að; hann er örlítið eldri en ég, en ég hef alltaf haft mikið álit á honum. Annar frændi minn var líka sjómaður, alveg þangað til hann fékk yfir sig tonn af þangi (eða þvíumlíkt) og varð fyrir varanlegum hnjámeiðslum. Þá safnaði hann hári, fékk sér leðurgalla og hjólaði um Evrópu þvera og endilanga. Kynntist krimmum og góðhjörtuðum hjólahippum. Hann er bróðir hans pabba. Hann er stórskemmtilegur.
Afi minn var sjómaður. Ég þekkti hann aldrei, en hvernig getur maður annað en borið virðingu fyrir afa sínum?

Mergurinn málsins: Sjómenn eru ekki einir um að vera dregnir í dilka. Fólk talar oft og mörgum sinnum um helvítis artífartí liðið og er þá að meina fólk með ullarhúfur í skærum litum, eða í áberandi lituðum fatnaði almennt; fólk sem hefur látið skærin flakka í gegnum höfuðið á sér eftir einhverjum kaótískum reglum sköpunarferlis. Fólk fellur að staðalmyndum fyrir það eitt að vera í ákveðnu starfi! Og mér er ekki illa við sjómenn. Þessir sjómenn sem við Ásta hittum á djassbar í Kaupmannahöfn voru bara alveg sérstaklega fyndin dæmi. Það er ákveðinn talsmáti, það eru ákveðin viðhorf, það er ákveðin hugmyndafræði. Þetta eru sjómenn, þeir umgangast sjómenn, þeir þekkja til sjómanna. Það er í sjálfu sér ekkert niðrandi þó ég tali um sjómenn sem skemmtilegar týpur, og þó ég tali um þessa einstaklinga sem steríótýpur, þá meina ég ekki endilega að allir sjómenn séu kjánalegir eða ég geti ekki borið virðingu fyrir þeim.

12.11.06

Dauði Ljósvellings II

Ég drap hann. Gróf hann svo og flutti til útlanda. Við getum svo rætt um sjálfssköpun og líffræðilegt egó og vefrænt. Sæberspeis, þau segja að hann sé alltumlykjandi, og veröld framtíðarinnar.

Íslenskir sjómenn og danskur djass

Íslenskir sjómenn á djassbar í Kaupmannahöfn. Ennþá fleiri Íslendingar dreifðir um litla staðinn, sem þetta kvöld hafði rukkað fimmtíukall inn og seldi jólabjór í stríðum straumum. Dyravörðurinn, sem er annars vanari að fleyta ölinu af krönum barsins, kannaðist svo rúmlega við okkur íslenska parið, og hleypti okkur inn með kumpánlegum athugasemdum.
En íslenskir sjómenn á djassbar í Kaupmannahöfn. Það er kjánalegt að fella fólk í flokka og staðla upp ímyndir, en fjandinn, þeir voru íslenskir sjómenn! Hafi ég einhverntímann þekkt einhvern svoleiðis (sem ég og hef) þá þekkti ég alltof mörg karaktereinkenni í fari þessara manna á forsendum sjómennskunnar. Hreystin, tungulipurðin, hugmyndafræðin - stoltið. Hefði ég aldrei þekkt íslenska sjómenn áður hef ég það á tilfinningunni að ég hefði engu að síður vitað að ég væri að tala við svoleiðis menn þarna. En fínir strákar samt.

9.11.06

Dauði Ljósvellings

Á morgun fer ég til Kaupmannahafnar. Aftur. Tæknilega séð hefði ég átt að vera á leiðinni inni í vél eftir tíu tíma. Þremur tímum síðar hefði ég svo átt að vera að lenda á Kastrup. Og flugvélin sem ég ætlaði að vera í sömuleiðis.
Nema það gerði náttúrulega óveður á Íslandi. Eins og staðan er núna ætti ég að vera að fara í loftið eftir tólf tíma. Það er bara tveggja tíma seinkun, en fjandinn hafi það, það eru ennþá tólf tímar til að seinka fluginu ennþá meira. Og eins og staðan er núna, fari ég í loftið klukkan kortér yfir níu, hef ég ekki hugmynd um hversu langan tíma það tekur að fljúga til Hafnar í öllu þessu roki. Ég veit ekki einu sinni hvort flugvélin lendi með mér á Kastrup.
Mér líkar hreint ekki við veðrið hér. Best ég flytji bara til Kaupmannahafnar. Það er auðveldara.

Ætli ég fari ekki bara í lok febrúar?

Airheads

„White man with a gun. Same thing happened to my ancestors about 425 odd years ago...“

Fárviðri sem aldrei fyr

„Sigurður segir spár gera ráð fyrir rigningu fram á laugardag á sunnanverðu landinu og að gert sé ráð fyrir sterkum vindi við norðurströndina á föstudag sem gæti náð 2530 metrum.
Fréttablaðið, fimmtudaginn 9. nóv. bls. 2

Ég er ekki sérlega vel að mér í veðurfræði, eða veðurlýsingum hvað það varðar. Mér finnst ekkert gaman að fylgjast með veðrinu á Íslandi, því það er alltaf skítaveður hvorteðer. En á þetta ekki að vera 25 til 30 metrar á sekúndu? Væru ekki tvöþúsundfimmhundruðogþrjátíu metrar vafasamur hraði? Eða er kannski ekki verið að miða við sekúndur hér? Svar, einhver?

Kaldhæðni

Það er annars bara fyndið að yfirmaður bráðamóttöku skuli heita Ófeigur.

Höfn í sjónmáli

Það var og að veðrið upphefji nú einhverjar hótanir. Að maður sé ekki bara fluttur fyrir fullt og allt af þessu hálfbyggilega skeri.

8.11.06

Robin Nolan

Ég elska djass! Vissuði það annars?

„Íslenskar stjörnur taka líf sitt í gegn með heraga“

Þetta segir auglýsing fyrir nýja þáttaröð á SkjáEinum. Í kjölfarið sést mynd af Árna Johnsen sprikla eitthvað, fitukeppurinn atarna.
Gott að vita til hverra við Íslendingar lítum upp til.

Úr menningarheimum

„Endurtekningin er móðins.“
Gauti Kristmannsson

7.11.06

Tillaga að frumvarpi til Alþingis

Ég er með hugmynd. Við bönnum útlendinga á Íslandi. Við afnemum þá með öllu, leyfum þeim hvorki að koma til að vera, né koma til að fara aftur. Síðan útlendingar hófu að venja komur sínar til okkar biksvörtu stranda, hafa þeir fátt annað til afreka unnið en að nauðga konunum okkar og ræna okkur blönk, auk þess sem þeir hirða af okkur þau fáu störf sem eru í boði í þessu fámenna eyríki okkar.
Þegar okkar íslensku hetjur stökkva svo til og reyna að bjarga bjarteygum konum sínum, þar sem þær liggja umkringdar af barbörum með alvæpni sem gera sig reiðubúna að saurga þær og misnota, beita villimennirnir lúalegum brögðum og ráðast af fjölmenni á hetjur okkar og fella þær (en víkingarnir falla þó með sæmd).
Þeir iðka heiðin trúarbrögð og menga okkar kristna viðhorf, innræta saklausum, bláeygum og ljóshærðum íslenskum börnum ónefnanlega siði, enda hefur ekki farið vel fyrir þeim þjóðum sem hefur hreykt sér af samneyti við slíka menn.
Það er þó íslensk tunga og menning sem er í mestri hættu af þessum óþokkalýð. Útlendingar eiga það nefnilega til að tala bara sína eigin tungu, og láta um lönd og leið að þeir eru staddir í okkar heiðbláa fjallasal. Þeir opinbera viðbjóð sinn á íslensku lostæti, þess kostafæðis sem hin íslenska þjóð hefur í gegnum aldirnar matast á, og lifað þannig af hinar mestu vetrarhörkur. Sviðnir kindakjammar og súrar blóð- og lifrarpylsur, hrossabjúgu og SS pylsur, hafa svo getið af sér mikið afreksfólk sem hefur menntað sig af kostgæfni, og orðið þannig einhver best upplýsta og opnust þjóða í hinu siðmenntaða samfélagi samtímans.

Það er heldur engum sæmandi að kasta perlum fyrir svín, líkt og við gerum með því að flytja fiskinn okkar og hvalkjöt áleiðis til þessara siðleysingja. Við ættum því að einskorða okkur við sjálfbæran búskap og hætta þessu spreði.
Skólabækur og menningarefni hverskyns, sem Íslendingar skrifa og framleiða ætti að vera okkur nægjanlegt; það er lítil nauðsyn að sýna í sífellu viðurstyggilegt afþreyingarefni framleitt af þessum útlendingum.

6.11.06

Um málfræðilegt kyn og líffræðilegt

„Það hlýtur eiginlega allt að vera komið í höfn í jafnréttismálum fyrst menn geta leyft sér að hafa áhyggjur af svona tittlingaskít.“
- Magnús Snædal Rósbergsson, dósent við Hugvísindadeild

Bjartsýni

Annars húkka ég bara far með einhverjum togara. Stend á ströndinni og sveifla þumalputtanum.

5.11.06

Sen

- Já, ég hef nefnilega aldrei komið til Vínar sjálfur...
- Þá áttu mikið eftir.

Af drottningum

Mikið rosalega var annars Freddie Mercury illa tenntur.

Jæks

„Þetta eru félagslyndar svartar ekkjur sem búa saman...“

Af lyndi manna

Need and struggle are what excite and inspire us; our hour of triumph is what brings the void.
- William James, úr Is Life Worth Living?

4.11.06

Úr sjónvarpinu

- How can you think about sex when a woman may be lying dead and dismembered under a shaft?
- It's a gift.

Undir rós

Það er til marks um hve rík þörf mín til tjáningar er þessa dagana, en hve lítið ég hef í raun að segja, að þessa stundina dettur mér ekkert annað í hug að tala um, en fjölda nærbuxna sem ég hef verslað í Danmörku undanfarið.
Skyldi það vera laumuleg leið til að gefa skít í umfjöllun Extrablaðsins?

Í kjölfar byltingar

Þetta er hvorteðer farið til helvítis. Það er líklega bara best að hypja sig brott, fjúka af þessu landi eins fljótt og auðið er. Ekki hanga í þessari sentimentalísku eftirsjá eftir grjóti og dauðu grasi. Best að hypja sig í borg þar sem maður getur látið sig hverfa án þess beinlínis að hætta að vera til; þar sem maður getur horfið í fjöldann án þess að beinlínis fyrirgera eigin tilvist; þar sem maður þarf ekki að taka þátt í mikilvægum umræðum um samfélagsleg deiluefni þar til gröfturinn vellur úr eyrunum á manni; þar sem maður getur verið hugsjónadrusla án þess að blóðið drjúpi úr kjafti og af klóm.
Ég er ekki þunglyndur, ég lofa, mér leiðist bara veðrið hérna. Líklega er veðrið ekkert betra hinum megin við hafið, líklega er fólkið alveg jafn kjánalegt - líklega eru þau bara verri. En ég get allavega gengið að því vísu að eitthvað þar er betra en hér, eitthvað sem togar af hörku.

(Þessi færsla er endurtekning, hún var skrifuð áður en hvarf. Þetta er samt ekki sama færslan, bara næstum því. Kannski kemur frummyndin aftur seinna, kannski birtist hún uppúr þurru. Kannski ekki. Ef svo er, þá er eftirmyndin orðin að frummynd.)

3.11.06

Byltingin er hafin!

Og hananú!

Að fá bæði sneið og kökuna alla

Hin gegndarlausa frekja landans er með eindæmum. Við viljum takmarka flæði útlendinga til landsins, okkur finnst það út í hött að við skulum koma inn í verslanir og strætisvagna og þar mæti okkur bjöguð íslenska og skilningsleysi. Hinsvegar dettur okkur ekki í hug að vinna fyrir svona lág laun; við höfum ekki efni á heimabíóinu fyrir vikið.
Á sama tíma ætlumst við til þess að aðgengi okkar að menntun erlendis sé fyrirhafnarlaust til staðar. Og okkur finnst fásinna að í Frakklandi skulum við ekki einu sinni geta talað ensku til að tjá okkur! Skilja þessir djöfuls froskar ekkert nema sitt eigið helvítis tungumál?

Í Íslandi í bítið var opnað fyrir símann og inn hringdu þrír sem voru sammála Frjálslynda manninum sem var að upphefja þessa skoðun sína. Aumingja þáttastjórnarkonan var að verða brjáluð á því að berjast við að halda hlutleysi sínu.

1.11.06

Hvar er annars þetta heima? - Part deux

Ég á þrjá tannbursta hverjum ég hef dreift á þrjú heimili í tveimur löndum. Ég borga reyndar bara leigu á einum af þessum stöðum, en finnst samt eins og ég eigi pínulítið heima á þeim öllum. Mismunandi hlutir sem toga í mig, og þeir gera það á mjög misjafna vegu.

Einn, tveir og...

Það þurfti þá ekki nema þriðja lækninn til að taka lokaákvörðun um hverslags umbúðir skyldi vefja ökklann á mér í. Mikið sem ég vona að ég lendi ekki í því að slasast meira. Ég myndi líklega éta upp allt læknalið landsins ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir mig.

Haltur Þór

Ég var búinn að dunda mér við það að semja fullt af bloggfærslum í huganum, þar sem ég sat á Hlemmi (stóð upp, gekk óþolinmóður um og settist aftur niður) og beið eftir að leið tólf léti sjá sig. Það gerði hún næstum tíu mínútum of seint, svo þegar ég rauk útúr vagninum var ég þegar orðinn of seinn í tíma. Ég hef alls ekki mætt nógu vel í skólann. Nú skyldi verða breyting þar á.

Ég komst yfir hálfa Suðurgötuna áður en ég skellti ökklanum á mér í L og hrundi á hnén. Það var dimmt úti, loftið ferskt af frosti, og ég ákvað að hlaupa yfir tóma götuna áður en umferðin kæmi. Mér var líklega nær að nýta ekki hellulögðu göngubrautina sem liggur þvert í gegnum þessa umferðareyju sem skilur akgreinarnar að. Nema hvað, eftir þessari hellulögðu göngubraut trítlaði stelpa sem hafði farið útúr vagninum á sama stað og ég, horfði á mig og brosti vandræðalega. En gekk áfram án þess að segja neitt. Brosti bara til mín, þar sem ég lá kvalinn á hnjánum og saup hveljur (ég geri það gjarnan þegar ég misstíg mig eins og þetta).

Mér tókst ekki einu sinni að sitja allan tímann. Klöngraðist inn í stofuna með látum, sat svo átti erfitt um andardrátt -hitinn inni í stofunni var ferlegur og á einhverjum tímapunkti fannst mér að ég myndi kasta upp áður en ég næði hléinu. Svo ég rauk út með svipuðum látum og ég hafði komið inn. Og tók strætó á heilsugæslu í sveitinni, sem vildi endilega senda mig í röntgen. Það þurfti ekki nema tvo lækna til að taka þá ákvörðun.

Þannig að núna er ég á hækjum og löngu búinn að gleyma öllum þessum bloggfærslum sem ég samdi á Hlemmi.

31.10.06

Úrkynjun eða bara úrgangur?

Þau fengu allavega Pál Benediktsson, fréttaþul, til að bera orðið pissa skýrt og greinilega fram í beinn útsendingu. Reyndar mun skýrar en hin orðin í fréttinni; þannig gerði hann fólki ljóst þá andúð sem hann hafði á þessu athæfi á bakvið hlutleysislega orðaða fréttina.
Sjálfur hef ég engar áherslur sem ég get falið mína skoðun á bakvið, svo ég ætla bara að setja fram nokkra hlekki og leyfa svo fólki bara að gera mér upp þá skoðun sem því sýnist. Ég andmæli svo bara ef ég rekst á það einhverntímann.

1.
- 1.1
- 1.2
- 1.4
- 1.5
- 1.6

2.
- 2.1
- 2.2
- 2.3
- 2.4

Mátti reyna

„Nei í alvöru, ég veit ekkert um þennan nuddpott!“

30.10.06

Sex (stundin er runnin upp)

Eina örstutta mínútu varð ég skyndilega var við sjálfan mig og sá það sem hefur átt sér stað undanfarið frá sjónarhorni ímyndaðs þriðja aðila. Og allt í einu varð þetta allt bara óskup skiljanlegt, féll í samhengi.
Og þá er þetta bara svo fallegt.

Mýrin

Auðvitað er þetta alveg fín mynd. Gæsahúð yfir tónlist og svona, búið að stela hugmyndinni minni um að byggja mynd á þessu blessaða lagi; Sofðu unga ástin mín er bara dramatískasta barnaþula íslenskunnar, þrátt fyrir að Sigur Rós hafi sönglað Bíum Bíum upp á nýtt, með öllum sínum drunga og allri sinni dramatík.

„Hún er nú þegar orðin tekjuhæsta íslenska myndin,“ hvíslaði pabbi að mér þegar við fylgdum þvögunni inn í salinn. Það er ekki furða. Þetta er bara byggt á svoleiðis bók, þetta gat ekki farið úrskeiðis. Svolítið eins og Englar alheimsins. Fólkið í salnum bar þess líka greinileg merki. Meðalaldur þess var örugglega um fjörutíuogfimm til fimmtíu ár. Og eftir sýninguna sagði konan fyrir aftan mig: „Mér fannst hún minna mig á Óðal feðranna. Það er líka náttúrulega eina almennilega myndin eftir þann mann.“ Ég held að ég skilji hvað hún var að fara, en mikið ofsalega var það grunnhygginn dómur. Svolítið eins og að bera saman Intimacy og Debbie Does Dallas. Ætti maður kannski bara að gera það? Flokka myndir eftir útlitinu? Og fólk líka?
Myndin hans Baltmáks er hinsvegar ofboðslega íslensk, grá og veðurbarin. Sem er alveg fallegt, finnst mér. Og leikararnir standa sig líka prýðilega. Ég er reyndar orðinn hálf þreyttur á þeim mikla karakter Ingvari E. Sigurðssyni, en hann er fantaleikari samt. Gaman að sjá að íslenskir leikarar eru svona hægt og bítandi að komast í það að leika - þetta snýst ekki lengur bara um það að TALA SKÝRT OG GREINILEGA. Ef þið fattið.

En hverjum datt samt eiginlega í hug að kvikmynda skandinavíska, sósjalrealíska leynilögreglusögu. Ég hef reyndar séð sænska svoleiðis, byggða á bók eftir Henning Mankell. Eða Hennkell Manning, eins og mér tókst að kalla hann í ógáti. Fyrri hluti Mýrinnar líður líka fyrir það að vera byggð á einni slíkri. Allar þessar þunglyndu leynilöggur strunsandi fram og til baka, keyrandi Reykjanesbrautina eins og þær geti ekki ákveðið sig hvort þær eigi að flýja land eða ekki, og allskonar fólk að dunda sér við að fylla upp í skjáinn.
Eftir hlé er þetta samt fínt. Kemur smá hasar, brotin mynda heild, heimurinn tekur á sig mynd - verði ljós. Eða þannig.
Æ, mér finnst hún alveg fín bara.

29.10.06

Beiðni

Ef einhver er tilbúinn til að gefa mér eins og hálfa milljón þá lofa ég að yfirgefa landið og skrifa bók um þennan bakhjarl. Það yrði skáldsaga, en ég skal nota nafn viðkomandi og koma því til skila að hann hafi kostað þessa bók. Bara gefa mér peninga!

28.10.06

Framtíðarsýn (svo spakur í morgunsárið)

Þegar Guð verður endanlega jarðsettur munu heimspekingar og sálfræðingar sjá um sunnudagsmessurnar. Líklega ekki nema hundrað ár í það allt saman.

Loðmyndir

Af hverju er Sigmundur Ernir annars ekki kominn með alskegg? Allir hinir á Stöð2 virðast komnir með svoleiðis. Dulítið inn í dag.

Nú er nótt, mér leiðist

Einu sinni pissaði ég í þetta rjóður. Það var reyndar tæpu ári áður en hún las þetta ljóð á mynd. Það var líka heilu ári áður en við byrjuðum saman.

27.10.06

Það kemur að því

Það er hálf niðurdrepandi að keyra niður Eiríksgötuna þegar þú hefur flutt heimilisfangið þitt sem nemur eins og rúmu Atlantshafi. En bráðum flyt ég líka.
Hvernig er það annars, er byggilegt á þessu landi?

Auglýsingahlé

Nú heimta ég að allir sem hafa ekki gert það nú þegar, rísi upp af eigin feita rassi, hunskist út í næstu plötubúð og kaupi plötuna hennar Lovísu. Ekki bara það að tónlistin sé stórfengleg, þá er plötuumslagið ótrúlega töff! Allt topp við þessa plötu.

„Couldn't get a grip on what it could be,
but all I want is you here with me.“

Hálf fimm

Og viti menn! Nú er einhver eitursnjalli spekingurinn að fara að halda fyrirlestur um það að leynilöggusögurnar hans Arnaldar lýsi ekki veruleika íslenskra undirheima! Hvurslags dæmalausa helvítis röfl er þetta? Á ekki bara að ganga á röðina og svipta hulunni af öllu hérna? Þurfum við sauðsvarti almúginn í alvöru að fara að láta það yfir okkur ganga að í hinni mjólkurhvítu borg Reykjavík séu framin illvirki, að eiturlyfjafíklar séu ekki slæmt fólk, eða gott fólk sem hefur lent í slæmum félagsskap, og að nauðganir séu ekki eitthvað sem gerist bara á útihátíðum?
Svo má kannski reyna að útskýra fyrir okkur hvernig launamunur á milli kynja og stétta er svo bara til eftir allt saman, hvernig mennta- og heilbrigðiskerfið er í molum og hvernig heimurinn er, þrátt fyrir allt, ekki bjartur og fallegur staður. Þó hann sé ekkert endalaust svartnætti heldur. Að það sé ekki til Gott og Illt eins og við lásum það í Fimmbókunum, og lífið og tilveran séu ekki skrifuð má bakvið eyrað á manninum fyrir framan þig.
Guð er dauður! Eða var það kannski bara Drottinn sem drapst?
Hvernig í djöflanum eigum við eiginlega að fara að því að takast á við þetta?

(Biturð. Mig langar til Vínar. Mig langar til Vínar. Mig langar til Vínar. Og svo, eftir viku, langar mig til Kaupmannahafnar.)

26.10.06

Þrumukettir, hó!

Diplómati á vegum íslenska ríkisins benti mér á þetta hér, og ég græt næstum ennþá af súrsætri fortíðarþrá. Þættir eins og Transformers, Centurions, og að sjálfsögðu He-man gerðu mann náttúrulega að því sem maður er í dag.
Reyndar laumaðist ég stundum í að horfa á Gúmmíbangsana líka... (Gummi bears, bouncing here and there and everywhere!).

25.10.06

Hvar er annars þetta heima?

Flug til Íslands á morgun. Nenni ekki. Langar ekki. Ég sé ekki nema vinnu og skóla framundan í tvær vikur. Það finnst mér of mikið. Og of langur tími. En auðvitað var þetta frábær ferð og ég hlakka óendilega til þeirrar næstu. Samt kem ég semsé ekki til Íslands fyrr en á morgun.
Heim.
Eða, eitt af þeim heimilum sem ég hef gert mér. Hlakka satt að segja til að grafa mér holu sem ég verð í. Eina holu, ekki svona þrjár hálfar holur. Ég á þrjá tannbursta, einn á hverjum stað. Mér finnst það ágætt, en þetta er fullmikið rótleysi í takt við allt hitt. Þannig að þetta vill oft hrynja í hálfgert taktleysi.
En bráðum búinn.

Ég er samt, eftir þessa ferð, orðinn mjög vel að mér í afþreyingarveruleik vinanna sem allir elskuðu í heil tíu ár.

Skrítin færsla.

22.10.06

Í Kaupmannahöfn...

... eru kvöldin mun appelsínugulari á litinn en í Reykjavík. Annars hafa dagarnir hér verið óskup notalegir og sérlega viðburðarlitlir. Það er líklega helst hægt að segja frá klukkutíma löngu rápi á milli þriggja skilta sem lofuðu því að þar myndu leigubílar stoppa og hleypa manni um borð. Skiltin voru í fimm mínútna fjarlægð hvert frá öðru, lítið um raðir við þau, en það var svo að segja aldrei að leigubílarnir kæmust alla leið að þeim, því ófyrirleitnir Danir húkkuðu þá á horninu örlítið framar. Við enduðum á því að taka næturstrætó heim. Það var líklega bara sparnaður.
Og svo var hann líka appelsínugulur.

20.10.06

Litlu hlutirnir

Afganska afgreiðslustráknum í SevenEleven fannst sérlega gaman að hitta fulla íslenska kærustuparið sem var að hrúgast heim af djassbarnum þegar sólarhringurinn var mun nær morgni en miðnætti. Ekki skemmdi fyrir að litla systir þess afganska hét líka Ásta.

15.10.06

Litla Ísland

Ármann Jakobsson hefur líklega setið í leið 15 þegar þetta gerðist því ég lenti í nákvæmlega sömu aðstæðum um daginn. Nema ég hélt allan tímann að símann ætti strákurinn sem sat hinum megin við ganginn með risastór heyrnartól á hausnum. Þegar ég var svo á leið útúr vagninum hringdi síminn aftur, þá var strákurinn fyrir framan mig og búinn að taka tólin af hausnum, og ég heyrði að hringingin kom úr öftustu röð.

Á tölvuöld

Það var dálítið skemmtilegt að horfa upp á rauðan Skoda Tipo bruna upp Ártúnsbrekkuna með einn svona í togi.

11.10.06

Tillaga

Það er ekki beinlínis að ég sé eitthvað tapsár, en eftir frammistöðu pólska dómarans í landsleik Íslendinga og Svía, legg ég til að allir Pólverjar sem eru búsettir á Íslandi verðir reknir aftur til síns heima. Þeir geta svo bara átt það við þennan ágæta dómara.

...og aðeins meira um Mbl:

Bara þetta hér. Nútíma fjölmiðlun.

Þróun og framfarir

Ég hef nokkrum sinnum sagt þetta áður, en þetta kallar maður sko vísindi!

Ég skal sötra í símasambandi

Sko, ég get útskýrt þetta!

„Nú munu tólin mín eyðileggja borgina!“

Það er alls ekki auðvelt að vera svo innlimaður í hið frjálslynda samfélag að maður geti ekki einu sinni horft á barnamyndir án þess að setja stórt spurningarmerki við svona setningar. Eru samt ekki til betri þýðingar á orðinu machines?

Veðrið klukkan sex

Í morgunsárið verður maður sérstaklega meðvitaður um umhverfið. Um veðrið. Að vera staddur utandyra um sexleytið er í raun ólýsanleg tilfinning. Alveg sama hvar í sólarhringnum gripið er niður, hvergi verður maður eins mikill þátttakandi í umhverfinu og um klukkan sex að morgni til.

Tímaritið Smáralind

Rétt áðan rak ég augun í Smáralind, tímarit. Mér skilst að það sé til svipað Tigerblað. Þar eru auglýsingar dulbúnar sem viðtöl og fréttir. Ætli það sé ekki hægt að kalla þetta advertainment (sbr. infotainment og edutainment). Íslenskar þýðingar óskast. Það er aldeilis að við erum orðin ónæm fyrir auglýsingum.

„Mesti hávaði sem kemur fæstum upplýsingum áleiðis“

Við ræddum tilgang lista og bókmennta í menningar- og samfélagslegu samhengi. Og við komumst að einhverskonar sameiginlegri niðurstöðu sem var sérlega mikið í okkar anda. Þessvegna var fyndið að lesa þetta á blogginu þínu. Sérstaklega kaflann um Stuart Hall.

10.10.06

Jukkurnar á Hlemmi

Hverjum datt það eiginlega upphaflega í hug að troða þessum pálmajukkum í glerbúrin á strætóhúsinu á Hlemmtorgi? Hvurn fjandann á þetta eiginlega að þýða? Er þetta táknrænt fyrir einhverskonar vin í stórborgareyðimörkinni? Eða eiga þessar steindauðu pálmajukkur að standa fyrir frumskóginn sem stórborgin (með öllum sínum heterótópísku svæðum eins og Hlemmi) er?
Væri ekki bara nær að henda alvöru gróðri þarna inn, og skella kannski dansandi öpum eða litríkum páfagaukum með? Þá myndi þetta allavega hreyfast...

George Costanza

„I'm much more comfortable critisizing people behind their backs.“

9.10.06

Það sem koma skal?

Það er alltaf oftar og oftar sem ég tek eftir rauðhærðum fegurðardísum að kyssa karlmenn í sjónvarpinu. Og oftar en ekki hafa karlmennirnir eitthvað sem ég tengi samstundis við sjálfan mig: Einn vildi vera rithöfundur, annar átti hatt og sá þriðji spilaði á bassa.
En svo var það náttúrulega þessi með leppinn.

Sálufélag og sitthvað fleira

Þegar ég var lítill var voðalega vinsælt að trúa á sálufélaga. Allskonar amerískar hugmyndir um eina manneskju sem maður þurfti að finna í heiminum, og hún væri sú rétta fyrir mann. (Barnsleg rómantík í anda níunda áratugarins; endurmat hugsjóna hippatímabilsins).
Þegar ég varð örlítið eldri var það hinsvegar vinsælt að trúa ekki á sálufélaga. Að maður ætti ekki að vera að leita að þessari einu sönnu ást: hún væri ekki til og þessvegna myndi maður bara missa af lífinu og ástinni almennt ef maður væri alltaf að bíða hennar. (Hér hafði níhílík aldamótakynslóðarinnar tekið yfir, Vinir og Seinfeld sögðu manni hvernig skyldi lifa í leikjum og brjóta reglurnar með því að setja þær á annað borð.)
Hugmyndafræðin breyttist með þriðju tölu ártalsins. Menn urðu svartsýnni, og þunglyndi jókst. Guð gaf nánast endanlega upp öndina og stríð eftir stríð höfðu líklega hrakið fólk út í horn í hugsjónastarfsemi sinni. Eiturlyf og skemmtanafíkn voru eina leiðin útúr rútínu hversdagsins. Eftir áratuga öfluga notkun voru menn svo bara uppgefnir.
(Ég geri mér grein fyrir því að stundum er það skelfilegt hve félagslegt uppeldi mitt var í höndum stelpna. Yfirleitt ekki, ég held að ég hafi komið nokkuð vel út.)

Í dag veit ég ekkert hvað ég á að halda um þetta sálufélag. Undanfarið hef ég samt hallast svolítið í nýrómantík og síttaðaftan hugsjónir. Svo á ég líka hundrað krónur danskar.

(Aldrei að vita nema ég veiti verðlaun þeim sem túlkar þessa vitleysu skemmtilegast.)

7.10.06

Gæfulegar fyrirsagnir

Helvíti þykir mér Moskva orðin gagnrýnin.

Sagði sú stutta:

- Ert þú að fara að vinna í nótt?
- Já.
- En þú mátt það ekki - þá koma bófarnir og stjela þér!
- Nei, ég er einmitt að passa að bófarnir steli ekki neinu. Það er það sem ég geri í vinnunni.
- (Hugsar sig örlítið um) Ég veit hvað þú gerir.
- Hvað geri ég?
- Ég skal lána þér sverðið mitt. Ég á svona sjóræningasverð. Þá geturðu barið alla bófana sem ætla að stjela þér með því.

4.10.06

Enn í Kaupmannahöfn

Þetta hlaut að gerast. Líklega betra að þetta gerist strax, og að ég finni far fljótlega, heldur en að ég sé að missa marga daga úr vinnu og skóla. En ég missti af vélinni og fer ekki heim fyrr en á föstudag. Sem er alveg tveimur vikum of snemma.

1.10.06

Tilviljanir

Á Kaffi Evrópu, gegnt Kaffi Norðri við Amagertorg, sátum við og gæddum okkur á sýnishornum af öllum eftirréttum sem staðurinn bauð upp á. Við hliðina á okkur sátu gömul hjón sem höfðu setið með okkur um borð í bát og hlustað á djassinn gæða Höfn lífi.
Meðan Ásta talaði í símann ræddu hjónin ákaflega um myndir á veggnum við hlið okkar. Næst okkur var mynd sem þeirri gömlu varð tíðrætt um, og gerði mikið til að útskýra fyrir eiginmanni sínum hver væri. Ég þekkti nafnið hinsvegar úr þessari færslu.

Fréttir frá Höfn

Sigling eftir skipaskurðum Kaupmannahafnar og í stefni stendur djasshljómsveit og spilar létt dixieland ættað frá borginni sokknu, New Orleans. Sól skín og veðrið er ljómandi og maður ljómar sjálfur yfir hugulsemi og yndisleika.
Með kvöldinu kom svo rigning og ljósleiftur og læti af himnum en mér var alveg sama. „Þegar ástin grípur unglingana,“ sagði myndlistarkona við mig um daginn, og á leiðinni til Keflavíkur, eldsnemma á laugardagsmorgni, hlógu foreldrar mínir að breyttum tímum, og vitnuðu til landsföðurins og frelsishetjunnar og nafna hins nýja formanns villtast og trylltasta flokksins í borginni.
Ég nenni hinsvegar ekki heim þó ég neyðist til þess. Eins og Jerseyjarbúinn sagði forðum daga á Frakklandsströndum: „I don't wanna go back home. I've really nothing to do there; I seriously don't nenn it!“

29.9.06

Fimmhundruðasta færslan

Í dag ætlaði ég í búð. Hún reyndist vera lokuð fyrir sakir afmælis fyrirtækisins.

- Gjörðu svo vel Tinna mín.

Tímasetningar

- Og hvar varst þú þegar þeir myrkvuðu göturnar?
- Í strætóskýli með krosslagða fingur.

28.9.06

„Ég er að kenna.“

Hvað gerir maður þegar maður stendur fyrir framan fullan sal af fólki, og í miðjum fyrirlestri hringir síminn sem er í manns eigin brjóstvasa? Auðvitað svarar maður bara.

Gauti Kristmanns er annars frábær kennari.

27.9.06

Aldrei muntu einsamall ganga

Á SkjáEinum ræddu forsetinn og einhver stelpa, við Guðrúnu og Felix, um gildi gæðastunda með fjölskyldunni, og samvista ungmenna við foreldra sína. Ég lækkaði hinsvegar stólbakið og skipti yfir á Sýn.

Koffín

Eftir kaffibollann í morgun missti ég tímabundið vald á munninum á mér. En ég talaði svosum ekkert af mér, svo mér er sama.

25.9.06

Íslensku stelpurnar

„Já, við vorum svolítið stressaðar þarna í lokin,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, í Helgarsportinu.

Borg

Á gatnamótum Laugavegs og Vitastígs sat útlendur maður og spilaði á harmónikku. Fyrir framan hann hafði hann stillt töskunni utan af hljóðfærinu, og þar hafði safnast fyrir lítilsháttar hrúga af klinki. Rétt á undan mér kafaði gömul kona ofan í veskið sitt og bætti á hrúguna.

24.9.06

Plága

Ég hef nánast lokið við verklega hluta geitungaveiðinámsins. En hef svosum engan áhuga á áframhaldandi frama í þeirri grein. Reyndar er ég næstum viss um að alvöru geitungaveiðimenn (sem nefnast líklega meindýraeyðar í daglegu tali, og sinna að öllum líkindum fjölbreyttari störfum en geitungaveiðum) noti talsvert háþróaðari tæki en ég; bjórglas og glósubók hljóma bara eitthvað svo ólíkleg atvinnutæki. Allavega fyrir þessa iðngrein.
Ég nota þessi sömu tæki talsvert við önnur tækifæri.

22.9.06

Í tilefni þess að næturvöktum er lokið þar til í október, og framundan er heimsókn til Danmerkur:

Hvar sem ég kem að eiga sér stað hápólitískar og heimspekilegar umræður um mannlega tilvist, trúarbrögð, réttlæti og hvunndaginn. Sem betur fer virðast flestir sammála um að virða beri almenn mannréttindi, en menn greinir gjarnan á hvaða leiðir sé best að fara til að sætta þá ólíku hópa sem mannfólkið greinist í.
Meira og minna allt virðist annars ganga mér í hag. Heimurinn er uppfullur af kátínu. Kannski er það bara ég, kannski er það bara ástandið sem ég er í.
Líklega spilar hugarfarið svona inn í, en ef ég skyldi taka upp á því að vinna í Lóttóinu um helgina hlýt ég að fara að hugsa mig um tvisvar. Gúmmiteygjukenningin hefur í gegnum tíðina grafið sig fast inn í huga kaldhæðinnar kynslóðar sem ólst upp við níhílíska poppmenningu og sjónvarpsþætti eins og Seinfeld.
En þrátt fyrir ljósmengun í miðbæ Reykjavíkur fann ég myrkur á milli ljósastaura þar sem ég sá glampa í stjörnur, og velti fyrir mér hvor þær sæjust líka yfir dimmum kanölum í Kaupmannahöfn. Bráðlega get ég kannað það sjálfur.
Ég get varla beðið.

(Nú er næturvöktum lokið og eftir að hafa sofið vel úr mér og gengið örlítið um miðbæ Reykjavíkur með framtíðarplön í maganum, er gaman að vera til).

21.9.06

Meiri flækjur

Ég er að reyna að koma verkefninu um Sókrates og fluguna saman, en á erfitt með það fyrir flugunni sem suðar í kringum mig. Ég er alveg viss um að hún hafi einhversstaðar komist í amfetamín.

Brjáluð í buslið

Þær kenningar eru uppi um að kvikmyndin Swimfan hafi til að bera þann alversta og mest óspennandi titil sem nokkur ræma hefur borið í allri kvikmyndasögunni.
En það er kannski ekki svo slæmt, myndin sjálf er ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Flækjur

Einhverra hluta vegna á ég orðið erfitt með að nálgast skólaverkefni. Líklega er hugurinn bara annarsstaðar, en ég verð að finna einhverja lausn á þessu.

20.9.06

Tíminn líður

Merkilegur finnst mér hann, maðurinn sem sagði að tíminn væri bara eitthvað sem mennirnir hefðu fundið upp til að telja niður í eigin dauða.

19.9.06

Hvernig stendur á því...

... að á háskólastigi skuli finnast kúrs sem ítrekar það að maður ástundi gagnrýna hugsun, en ekki í of miklum mæli? Sumsé, vera kreatívur, en samt helst ekki. Og að í sama áfanga fari fram hugtakaleikfimi sem gerir manni fullkomlega ókleift að gera rétt?

Stóri sannleikur?

Þegar grundvöllur skynjunarinnar, forsenda tilverunnar, hefur breyst, þá er heimurinn hreint ekki svo slæmur. Og það án þess að færa málfræðina á núllpunkt. Guð fyrirfinnst hvorteðer í semíkommunni.

Klukkan er að verða fimm og ég á að vera lesa. Nennessekki.

18.9.06

Hugsjónaauglýsingar

Í Kaupmannahöfn spjallaði ég við Bandaríkjamann sem fylgist með, og hefur gaman af, fótbolta. Hann var reyndar bundinn einhverjum tengslum við Ítalíu og ítalskan bolta, en bar engu að síður mikla virðingu fyrir Barcelona. Helsta ástæða þess var reyndar ekki fótboltalegs eðlis, heldur fannst honum það óendanlega virðingarvert að félagið væri í fyrsta skipti í rúmlega hundrað ára sögu þess, að prenta auglýsingar framan á bolina. Og hvað auglýsa þeir? Unicef.

Og svo kom Eiður inn á...

... og allir samherjar hans virtust hafa yfirgefið völlinn. Eiður átti allar sendingar, skiptingar og stoðsendingar, hann átti þau skot sem hittu á markið og fiskaði að lokum víti. Reyndar skoraði Ronaldinho úr því, en Eiður hefði allt eins geta gert það líka, því hann fiskaði vítið og markmanninn útaf. Andstæðingarnir féllu fyrir fótum Eiðs, þeir lögðust á hnén og tilbáðu hann líkt og hann væri hinn íslamski Allah, eða Kristur á páskadag. Eiður var því vitaskuld maður leiksins, þó hann hafi ekki leikið nema korter.

Að minnsta kosti ef maður sneri hnakkanum í skjáinn og hlustaði bara á lýsinguna hans Gaupa.

17.9.06

Burt vil ek

Dúndrandi bebop í hátölurunum en verkefnið um hlutverk Guðs í menningu og vísindarannsóknum miðalda og framundir upplýsingu lætur eitthvað lítið fyrir sér fara á frekar tómlegu blaði á skjá. Ekki nema þrjúhundruð og fimmtíu til fimmhundruð orð. Hlýtur að hafast fyrir miðnætti annaðkvöld.
Mig langar svo yfir hafið, ég er springa.

Rebus

„The rank goes off with the rest of the kit.“

16.9.06

Heimspeki og broddflugur

Aðfaranótt fimmtudags heimsótti mig geitungsdreki. Laumaðist inn um gluggann klukkan hálfþrjú, vakti mig suðandi og fékk sér svo sæti í sólinni frá leslampanum. Mér var nær að kveikja þegar ég heyrði suðið í honum. Ég barðist hetjulega hálfa nóttina, þangað til mér tókst að lauma honum ofan í glas.
Morguninn eftir svaf ég yfir mig. Missti af tíma í heimspeki þar sem tilkynnt var um fyrsta ritgerðarefni vetrarins. Ritgerðin er svosum varla verð heitisins. Þrjúhundruð og fimmtíu orð teljast varla ritgerð. Nema hvað, efnið: Í málsvörninni líkir Sókrates sér við broddflugu. Hvaða ljósi varpar sú líking á hugmyndir hans um hlutverk heimspekings?

Joyeux Noël

Í tilefni af orðum Páfans um illskuna og Múhameð spámann, langar mig að vitna aðeins í prédikun sem kemur fyrir í myndinni Joyeux Noël:
Kristur sagði, „Haldið ekki að ég komi til að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að boða frið, ég kom vopnaður sverði.“ Mattheusarguðspjall. Já, bræður mínir, sverð Guðs er í ykkar höndum. Þið eruð verndarar siðmenningar. Öfl góðs gegn ills. Þetta stríð er vissulega krossferð, heilagt stríð.

Annars er þessi mynd rúmlega þess virði að kíkja á hana. Hún segir sögu af svona atburðum, og þó hún sé kannski ekki sönn staf fyrir staf, þá gerðust atburðir eins og þessir víðsvegar á víglínunum þessi fyrstu jól stríðsins.

15.9.06

Auglýsingahlé

„Það getur komið sér vel á annasömum degi að klæðast Rugby herranærfötum.“

Tímaprakkarinn

Man annars einhver eftir þessum gaur?

Menningarneysla og afþreying

Tvær ástralskar sjónvarpsstöðvar berjast hatrammlega um hvor verður á undan til að bjarga ungum munaðarleysingja í Indónesíu frá því að verða étinn. Stríðið á milli þeirra felst greinilega í því að þær ætla sér að klekkja á andstæðingum sínum.
Er ekki svolítið táknrænt að strákurinn sé orðinn bitbein sjónvarpsins?

Haustmyrkur

Hana. Klukkan háflsex í morgun var ennþá niðadimmt úti og hálft tungl skærgult þarna uppi. Allavega eitthvað fleira en snaróðir geitungar sem minna mann á það að það er allavega haust handan við helgina.

Um tíma og veru (og ást og Atlantshaf)

Ferlega hægir tíminn á sér þegar maður er ástfanginn yfir heilt úthaf.

13.9.06

Þetta með veðrið

Það er eitthvað við rigningu og rok sem lýsir Íslandi betur en allt annað, og útskýrir landið meira en maður vill kannski viðurkenna.

11.9.06

Af hrakandi tízkuvitund Dana

Einhverra hluta vegna finnst dönskum karlmönnum töff að ganga um í fölbleikum bolum og skyrtum. Það finnst mér ekki. Alls ekki.
Raunar finnst mér þessi litur ekki hæfa neinum sem hefur yfirstigið fyrsta ár ævinnar.

10.9.06

Á öngstrætum Kaupmannahafnar

Mér leiðast ferðasögur sem leyfa mér ekki að ljúga. Höfn hefur heldur ekkert breyzt í næstum hundrað ár, nema Danir hafa misst alla tízkuvitund.
Ég er á lífi og mér líður stórvel. Ef ég mætti ráða kæmi ég ekkert aftur. En ég ræð engu.

7.9.06

Höfn í sjónmáli

Ellefuhundruð fimmtíu og fimm mínútur í það að ég lendi í gamla höfuðstaðnum. Og framundan er svefn. Sú athöfn sker að minnsta kosti fimmhundruð mínútur af þessum ellefuhundruð fimmtíu og fimm. Hugsanlega meira.
Svo er ég líka búinn að baða mig og allt. Gæti jafnvel skolað af mér aftur áður en ég rekst á sætustu stelpu í heimi (og þótt víðar væri leitað) aftur.

6.9.06

Mannaþefur

Það er svakalegur fnykur af mér núna. Sé sápu og rennandi vatn í hillingum!

Ómur hversdagsins XI - Syngjandi verkamenn

Það er farið að hausta aftur. Í portinu hafa komið sér fyrir útlenskir smiðir og iðnaðarmenn. Ég er ekki alveg viss hvað þeir eru að bralla, en einhver er að endurbæta hjá sér. Mennirnir hefja störf snemma morguns. Klukkan hálfátta taka þeir léttan söng meðfram verkum sínum. Þá nota þeir gjarnan sagir og hamra sem hljóðfæri til undirleiks.
Í morgun vaknaði ég við léttan lagstúf, mér heyrðist hann pólskur eða rússneskur að uppruna.

4.9.06

Kardemommurisið

Af öðrum ljónum er það helst að frétta að ég er nýbúinn að semja við eitt um að gæta íbúðarinnar sem ég bý í næsta árið. Því til auðveldunar hef ég eftirlátið því annað herbergjanna sem prýðir þessa litlu íbúð, og gert við það munnlegt samkomulag um að það láti nú örugglega allar tærnar á mér í friði.

Söknuður (yfirþyrmandi)

Á föstudaginn ætla ég að setjast upp í flugvél og lauma mér til Kaupmannahafnar að hitta ljón og anda að mér útlöndum. Nú má gjarnan hraða vikunni.

3.9.06

Staðsetningar

Á skjáborði símans míns er mynd af fallegri stelpu. Það eina sem skemmir fyrir eru svartir, feitir prentstafir á enninu á henni sem stafa fyrirtækjaheitið: Síminn.

2.9.06

Við upphaf skólaárs

Fyrsta grein sem lesa þarf heima þessa skólaönnina er í kúrsinum Menningarheimum. Að sjálfsögðu reyndist hún á dönsku. Það þótti mér ekkert nema jákvætt, tákn til framtíðar jafnvel, og ákvað að taka þetta með trompi.
Í höndunum hef ég áttatíu ára gamla danska orðabók Freysteins Gunnarssonar, með íslenzkum þýðingum. Hún er í raun byggð á orðabók Jónasar Jónassonar og Björns Jónssonar, en aukin og breytt.

Ég ætla sumsé að rifja upp dönskuna mína með hundrað og tíu ára gamalli orðabók. Mér finnst það töff.

Á-fram-sókn

Jón Sigurðsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, byrjar frumkvöðlastarf sitt sem framherji villtasta og trylltasta stjórnmálaafls á Íslandi, með því að réttlæta tilraun Ísraela til útrýmingar Líbana. Þeir ku vera eina ríkið sem veit að þeir verða að verjast með sókn. Nonni notar íþróttamál: sókn er besta vörnin, og svo framvegis.
Því ef þeir slátra ekki fyrst, þá verður þeim bara slátrað. Enginn agi á þessum Aröbum þarna, þessum villingum í eyðimörkinni. Áfram Nonni!

Söknuður (vaxandi)

Maginn á mér er undinn upp á prik. Í huganum er ég farinn að þylja vikudaga, svo mánaðardaga, og ímynda mér að um leið og ég segi þá í huganum séu þeir að líða.
Sem stendur erum við bara til í svarthvítu (nema hárið þitt, það missir ekki lit). En bráðum.

1.9.06

Áfram Afturelding

Í Knattspyrnufélaginu Nördi eru að minnsta kosti tveir gamlir Mosfellingar.

Skyndihugdetta

Eitt augnablik lét ég mér detta það í hug að kaupa bara bækurnar Hyvin Menee! og Suomi-Englanti-Suomi Taskusanakirja og láta það gott heita til náms í vetur.

31.8.06

Söknuður (stígandi)

Í Kaupmannahöfn liggur ljón á kodda og kúrir. Við kirkjugarð í vesturbæ Reykjavíkur hefur rúmið mitt hinsvegar stækkað um helming og önnur sængin visnar.

30.8.06

Ónei, ekki laukinn!

„Manchester City ákvað í dag að setja varnarmanninn Ben Thatcher í sex leikja bann og sekta hann um sex vikna lauk vegna brotsins hrottalega sem hann framdi...“
- Mbl.is, 30.08.06, 19:12

Haust

Á myrkvuðu bílaplaninu fyrir ofan húsið gat ég rifjað upp stjörnufræðin sem ég innbyrti sem krakki, þá ýmist úr þartilgerðum bókum eða eftir gamalli sveitaspeki sem gekk til mín í munnmælum. Hefði ekki gjólað svona djöfulli kuldalega í nótt, hefði ég líklega látið það eftir mér að leggjast á bakið til að telja stjörnurnar á dimmblárri festingunni. Eftir helgi byrjar svo skólinn.

Misheyrnir

„Hörkutólið og bakarameistarinn Wesley Snipes er mættur í...“

28.8.06

Hálfviti

Ég vil ekki vera eitthvað óþarflega hlutdrægur, en er Gaupi í alvöru að fylgjast með leiknum sem hann er að lýsa?!

27.8.06

Samheldnar flugur

Þegar ég var lítill var ég í einhverjum hasarleik með frænku minni og frænda. Á einhverjum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við höfðum verið að hoppa og leika okkur, traðka og setjast ofan á hunangsflugu töluvert lengi. Skræfan ég fór eitthvað að ímynda mér að kannski hefði hún „kallað á vinkonur sínar“ í dauðahryglunum, og áður en við næðum að hlaupa í næsta hús mættum við eiga von á býflugnasvermi eins og maður hafði séð í teiknimyndum. Ég hef lengi hlegið að þessari ímyndunarveiki í mér.
Núna er ég hinsvegar að lesa það að þetta gera vespur (geitungar) einmitt. Geitungur sem verið er að kremja sendir út einhverskonar ýlfur sem kallar til alla nálægar vespur. Ég geri reyndar ráð fyrir því að þær þurfi að vera sömu tegundar, en þar sem aðeins fjórar tegundir geitunga lifa á Íslandi (trjágeitungur eða Norwegian wasp (dolichovespula norwegica); holugeitungur eða common wasp (paravespula vulgaris); húsgeitungur eða german yellowjacket (paravespula germanica); og roðageitungur eða red wasp (paravespula rufa)) þá held ég að það ætti ekki að þurfa að bíða lengi eftir því.

Nánari upplýsingar um þessi djöfulsins kvikindi er að finna hér, hér, hér, hér, hér og hér. Skemmtið ykkur vel.

Og víst er hún reikistjarna!

Ég heyrði það í fréttum einhversstaðar í kvöld að amerískir stjörnufræðingar væru ekki á því að hætta að kalla Plútó reikistjörnu. Ástæðan ku vera að Plútó var eina reikistjarnan sem Bandaríkjamaður fann.

26.8.06

Gullkústurinn eftirsótti

Þeim tókst í alvöru að gera bíómynd um körling.

Ég vildi að ég væri Slúbbert

Í sjónvarpinu ákváðu illmennin og andstæðingar kærleiksbjarnanna, að fá sér blund að loknu drjúgu dagsverki. Mig langar líka að fá mér blund.

Kaldhæðni

„I mean, this could be fatal, this... this could be death!“ sagði maðurinn í bíómyndinni áður en hann fékk sér sopa af Pepsí.

Simpsons

Come on. Let's go to that store before the next commercial makes me do something else.

Dauðalendur: Heim í heiðardalinn

Í sjónvarpinu er rauðhærð kona að kyssa eineygðan mann sem hún kallar elskhuga.

Ætti ég að fá mér lepp?

Hetjur

Þessir menn eru sannir snillingar! Það ætti ekki að sækja þá til saka, það ætti að verðlauna þá fyrir athæfið. Gefa þeim glæný skóhorn eða eitthvað.

25.8.06

Svo sætur

Allar flugur sem verða á vegi mínum þessi dægrin ráðast að mér og gera sig líklegar til að éta mig. Ég er nánast viss um að ég hafi rétt húsráð við þessu á bakvið eyrað, mömmu til ómældrar gleði.

Léttmeti og augnkonfekt

Í kvöld tilkynnti fulltrúi frá Morgunblaðinu glaðhlakkalegur í dægurmálaþættinum Ísland í dag að blaðið ætlaði að létta á textanum á blaðsíðum þess. Hans orð voru einhvernveginn á þá leið að hann vildi auka vægi grafíkur og fjölga myndefni í blaðinu. Taka efni sem birtist í sérblöðum og færa það inn á síður blaðsins og fækka þesslags greinum.
Tilætlan þessi er, samkvæmt honum, hugsuð til að halda blaðinu í tísku, að festa það aftur í sessi sem ein helsta upplýsingamiðja íslensks þjóðfélags. Þetta ku vera vilji lesenda blaðsins, og vilji þjóðarinnar allrar.

23.8.06

Frí!

Ég er loksins kominn í frí, er heilbrigður og ekki á leiðinni í neinskonar próf eða neitt sem þarfnast einhvers almenns undirbúnings.

Annaðkvöld byrja ég svo að vinna aftur.

21.8.06

„Frábærir þættir sem rapparinn P Diddy framleiðir“

Nei. Nei, það getur bara ekki verið. Er ekki séns. Ég trúi því ekki. Ekkert sem „rapparinn“ P Diddy framleiðir getur mögulega verið frábært. Annarhvor hluti þessarar fullyrðingar hlýtur því bara að vera lygi. Það er bara ekki flóknara en það. Þetta er bara svona staðreynd, gangur lífsins, vísindalega sannað: P Diddy gerir ekki góða hluti.
Neibb.

Framsýni

Það er eiginlega frekar slæmt að ég skuli vera meira með hugann við komandi skólaár en prófið sem ég þarf að taka á hinndaginn.

20.8.06

Þegar kviknar á peru

Ég þurfti ekki að hlusta nema tvisvar á diskinn La revancha del tango, alveg í gegn, til að átta mig á hvað nafnið Gotan Project stendur fyrir.

Hundrað ára bergmál

Einhvernveginn svona mætti ímynda sér að auðvelt væri að ýta undir gyðingahatur á nýjan leik. Ég veit um gyðinga sem styðja Palestínumenn (og Líbani) í sinni baráttu.

16.8.06

Eftirfarandi hlutir eru mér nú ljósir:

  • Það er asnalegt að vera veikur án sýnilegrar ástæðu. Hiti og beinverkir eru einhvernveginn ekki nóg, það þarf að fylgja hálsbólga, uppköst eða niðurgangur svo þetta virki alvöru.
  • Mér leiðast veikindi mest í heimi. Það er ekki endilega að ég þjáist, það er miklu frekar að ég nenni ekki að liggja bara og gera ekki neitt þegar ég á að liggja bara og gera ekki neitt.
  • Veikindi virðast bara leggjast á mig þegar ég er í fríi, og sérstaklega þegar ég hef unnið frá mér allt vit mánuðinn á undan.
  • Mikilvægi þess að hafa einhvern að hugsa um sig. Þegar maður er lasinn er fyrir öllu að einhver nenni að hjúkra manni. Skiptir hinsvegar ekki svo miklu máli hversu mikið eða lítið lasinn maður er.
  • Ég er orðinn ansi svangur. En má ekki fara út að ná mér í mat. Guði sé lof fyrir Ljónið mitt.

Innlit hjá Þorsteini

Það sem ég sé mest eftir við að hafa ekki hafið nám við Háskóla Íslands strax að loknu stúdentsprófi er að hafa misst af því tækifæri að sitja kúrsa sem Þorsteinn Gylfason kenndi.

Í dag er liðið eitt ár frá því að hann lést.

Stigmata

Það er svart strik á hægri hlið andlitsins á mér. Það er stutt, liggur frá eyranu, í hæð við augað og í átt að því. Það birtist reglulega og hverfur svo aftur eftir skamma viðveru. Ástæðan fyrir þessu marki er sú að ef ég ætla að liggja útaf og horfa á sjónvarpið þá verð ég að liggja á þessari hægri hlið.
Og gleraugun skilja eftir sitt merki.

15.8.06

„...en, eh, sagan er þessi!“

Ómar Ragnarsson talar svo hratt og mikið að hann fer rosalega auðveldlega út af sporinu. Og hann fer langt út af því.

Guð er...

Ef ferðir í kvikmyndahús koma í stað messuferða, hlýtur sjónvarpið að taka yfir hlutverk bænarinnar.

14.8.06

Dýralífsmyndir á RÚV

„The explosive clash of the horns unleashes a distant, far more powerful force: Gravity.“

Dr. Nick

„That's what we look like inside!? It's disgusting. Wow, that lady swallowed a baby!“

Pornographie féministe

Heyrði umræðu um feminískt klám út undan mér um daginn. Varð svolítið forvitinn um muninn á feminísku klámi og öðru. Annað þá væntanlega það sem flokkaðist undir venjulegt. Ef einhver hefur sérfræðiþekkingu á þessu má endilega benda mér á hvar ég get nálgast feminískt klám.
Það yrði auðvitað bara skoðað til samanburðar, allt í rannsóknarskyni.

13.8.06

12.8.06

Peninga-fokking-plokk; eða Deyðu! nýfrjálshyggja

Það fer talsvert í taugarnar á mér þegar gjalddagar skuldanna minna eru hafðir í lok mánaðar, og eindagarnir færðir fram yfir mánaðarmót. Það á andskotakornið enginn peninga til að borga skuldir í lok mánaðar; eðli málsins samkvæmt greiðir maður upp skuldirnar sínar um mánaðarmót þegar launagreiðslur fara almennt fram. Væri kannski öðruvísi háttað ef maður fengi greitt vikulega eins og tíðkasti í gamla, gamla daga (fyrir mína tíð semsagt).
Þetta væri í raun hin fullkomna ástæða til að skipta um þjónustuaðila, ef ekki væri fyrir þá sorglegu staðreynd að fyrirtækin sem gera þetta eru ýmist ein um einhverja ákveðna þjónustu, eða að maður hefur (nýlega) bundið viðskipti sín við þetta fyrirtæki til einhvers ákveðins tíma.
Ég fyrirlít græðgi.

En er svosum gráðugur sjálfur...

Á Sólon...

... getur fólk sitið á neðri hæðinni. Að minnsta kosti fullyrðir skemmtanastjóri staðarins það.

Veðurspá fyrir botni Miðjarðarhafs

„Náist samkomulag um vopnahlé með milligöngu Kofi Annans, yfirmanns Sameinuðu þjóðanna, eða samkomulag á milli Ísraela og Líbana þá mun andspyrnuhreyfingin viðra það.“
mbl.is, 12.8.06, 15:03

Eftirlíkingar II: Þykjustu ég

Það er í tízku að þykjast einhver annar en maður er, að eiga sér alteregó. Hefur raunar lengi verið í tízku. Svo eru sumir sem þykjast vera einhverjir aðrir en þeir eru, þykjast vera einhverjir sem eru annars til. Svona eins og þegar maður gerði símaöt í gamla daga og þóttist vera vinsælasti strákurinn í skólanum eða eitthvað álíka.
Ég held hinsvegar að málið núna sé að fara að þykjast vera að þykjast vera maður sjálfur?

10.8.06

Sódóma Ryekjavík

Í hillu á bókasafni fann ég bókina Sódóma-Gómorra eftir Úlfar Þormóðsson. Ljósblá með hvítum stöfum. Engin kápa, ekki lengur. Bókin byrjar glæsilega:

Sódóma-Gómorra
Lygisaga með tilbrigðum
Helgafell
Ryekjavík MCMLXVI
Stafsetningarvillan er ekki mín, en ég held að árið útleggist 1966.
Ég hlakka til að lesa hana.

Vandlæti?

„Hin frábæra ævintýra og hasarmynd V for vandetta er kominn út...“

9.8.06

Óreiða og skipulagsleysi

Ég hef oft rekið mig á það að ég virðist fá hugmyndir í öfugri röð.

Af kynlífi

„Hvað er að kunna? Maður gerir bara það sem manni finnst gott.“

Að geta ekki tapað

Þáþráin í hámarki. Ég vil þessa þætti í endursýningu. Og svo auðvitað Frasier aftur.

Eftirlíkingar I: Sýndarviðvera

Það er einn á línunni. Hann vinnur líka næturvaktir. Hinir áttatíuogtveir eru farnir að sofa. Hvar hitti ég eiginlega allt þetta fólk?

Mát

„Skákþraut er ósvikin stærðfræði, en hún er einhvern veginn ekki merkileg stærðfræði. Hversu snjöll og margslunginn sem hún kann að vera, hversu frumlegir og óvæntir sem leikirnir eru, vantar alltaf herslumuninn. Skákþrautir eru lítilvægar. Bezta stærðfræði er alvarleg, auk þess sem hún er falleg. Menn mega kalla hana „mikilvæga“, en það er ákaflega margrætt orð, og „alvara“ lýsir henni miklu betur.“
Godfrey Harold Hardy, Málsvörn Stærfræðingsins

KFC: Hvað er þitt uppáhald?

„Ég verð að fá Zinger borgara. Í hádeginu á sunnudögum.“

Skilningur á mannlegu eðli

Svona rannsóknir eiga aldeilis eftir að setja mark sitt á framtíðina. Gott að kanna það sem skiptir öllu máli.

Hitt og Þetta

„Hitt er muuun betra en Þetta.“

8.8.06

Af framliðnum

Hugsanlega sá ég draug núna rétt í þessu. Hann var á bókasafninu. Mig grunar samt að þetta hafi verið árrisull sjúklingur, eða hjúkka sem vantaði lesefni.

Að líta upp til einhvers

Hann Emil hefur fundið sér nýja fyrirmynd í lífinu.

4.8.06

Að sumri liðnu

Það er svo dimmt úti núna að maður verður næstum því myrkfælinn! Allavega á þann hátt að mann langar ekki í myrkrið. En þeir kalla þetta haust, heimamenn. Og þó er ágúst varla hafinn.

31.7.06

Af NFS

„Menn gætu svo ímyndað sér hvernig væri að vera í Hafnarfirði ef sprengjum myndi rigna yfir Mosfellsbæ.“

Eitthvað hálftruflandi við þetta.

30.7.06

Að sjá og upplifa

Að vissu leyti er ég ekki frá því að mér finnist alveg jafn merkilegt að sjá stórtónleika á borð við þessa sem Sigur Rós er að halda að á Klambratúni núna, í sjónvarpinu, í stað þess að vear á staðnum. Maður sér allskyns hluti sem maður hafði ekki áttað sig á, og sjónvarpið gefur manni stemningsmyndir sem ómögulegt væri að ná ef maður sæti bara meðal áhorfendaskarans.
En upplifun af svona tónleikum er líklega eitthvað sem maður verður að gera að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Svolítið eins og með fótboltann. Maður sér leikina miklu betur í sjónvarpinu, en verður eiginlega að upplifa leik einu sinni (eða tvisvar) á ævinni.

Spámannslíki

Mér skilst það á fólki að ég sé ekkert ólíkur vitfirringnum sem ég lýsti svo fallega fyrir nokkrum mánuðum síðan. Að minnsta kosti segir fólk að ég líkist honum í útliti.

29.7.06

Hermikráka

Sjónvarpsþáttur í anda Jools Holland, þar sem einhver í líkingu við Óla Palla stýrir fjörinu. Íslenskar hljómsveitir og einstaka útlenskar gestasveitir (Ísland er í tízku, sjónvarp er miðlun ímyndarinnar, að tengja saman ímynd og land í tízku er töff).
En ég meina, þetta gæti alveg gengið. Ég myndi líka horfa. Það er fyrir öllu.

Metamessaging

Afritun eldri samtala inn í samtöl sem eru að eiga sér stað í þeim tilgangi að leiða samtalið sem er að eiga sér stað, er upplyfting.

28.7.06

Ég horfi of mikið á sjónvarp

Ég veit ekki hvort er skelfilegra eða meira truflandi, sú staðreynd að ég skuli hlæja með öllum dósahlátrinum í sjónvarpsþáttum eða geta flautað stefið að Tveimur og hálfum manni.

27.7.06

Simpsons

- Whatever happened to please and thank you?
- I think they killed each other. You know, one of those murder-suicide things.

26.7.06

„Obviously doctor, you've never been a thirteen year old girl.“

Mér finnst þessi mynd frábær, þó hún hafi verið bezt í fyrsta skiptið sem ég sá hana. Tónlistin verður hinsvegar bara betri í hvert skipti sem ég hlusta á hana.

Pönk var það heillin!

Mig langar í nýju plötu Reykjavíkur!

Enn meira af mat

Létt jarðarberjajógúrt, án viðbætts sykurs en með sætuefni, er líklegasta eitt það ógirnilegasta sem ég hef séð í mataríláti.

Samt bragðast hún ekkert illa.

Taki það til sín sem eiga það

Gripið niður í færzlu frá 25. maí, 2003:

„Mér entist þessi tvöfalda helgi ansi vel, en neyddist til þess að standa í leigubílaröðinni ansi lengi, jafnvel of lengi með hliðsjón af því að ég stóð þar einn, og leiðinlegt fólk sem ég þekkti ekki að tala um kjánalega hluti og leggja út drögin að draumum sem eiga aldrei eftir að rætast; þetta voru svona hugmyndir eins og maður hafði sjálfur eftir að hvíti kollurinn hitti í mark. Guði sé lof, þá er ég búinn að festa niður einhverskonar skipulag, en ég vorkenndi næstum drengnum fyrir framan mig sem taldi upp öll löndin sem hann ætlar til og allt sem hann ætlar að gera. Innifalið í því var að læra að sörfa í Ástralíu... gott og blessað, ég vona fyrir hans hönd að honum verði fært að heimsækja öll átta löndin sem hann taldi upp og framkvæma allar þær kúnstir sem hann ætlaði sér, á þessum tveimur árum sem hann gaf sér.
Draumar eru góðir fyrir sálina.

Ég hef líka verið duglegur við það að fá augastað á stelpum sem reynast svo vera einstæðar mæður. Hitti eina á föstudaginn sem var minn fullkomni jafnoki, allt frá hugmyndum okkar um fólk í kring um okkur, yfir í það að ergja sig yfir málfræðivillum í sms skilaboðum. Hún átti barn, og reyndist eiga það með syni fyrrverandi kennara míns úr FB, Ingibergs. Það kom hinsvegar ansi vel fram í okkar samræðum, að hún var ekki með honum lengur, því hann var búinn að ná sér í nýja. Síðasta setning samtalsins af minni hálfu var svo spurning: „...En hérna, áttu gaur?“ Hún átti gaur. og ég tölti frá snauður, en ánægður yfir að hafa hitt þessa stelpu - ný viðmiðun varð að veruleika (nú fá allir flog og skella flötum lófa á ennið, ekki satt?)“

Persónulega finnst mér ég hafa breyzt töluvert á þessum þremur árum.

„Mamma, gerðu það, má ég fá nammi?“

Hvort það er lélegt döbb, ömurleg vara eða bara ljótur krakki, þá fer þessi auglýsing ólýsanlega í taugarnar á mér. Og hún birtist svo reglulega á skjánum að þó mér þætti hún æðislega skemmtileg myndi það gera mig geðveikan að sjá hana svona oft.

24.7.06

Mér skilst það sé til skammar...

...að ég skuli ekki að staðaldri sulla í mig því svartagulli sem kaffið er. Aldrei að vita þó hvernig staðan verður eftir þrjár sextán tíma næturvaktir í röð.

Meiri matur

Samloka með beikonskinku, kartöflusalati og steiktum lauk. Einhver með?

22.7.06

Í dag...

Það var fallegt að sjá kveðjuleik Dennisar Bergkamp í kvöld. Gamlar stjörnur, leikmenn sem hann spilaði með á löngum ferli, komu og spiluðu á hinum nýja velli Arsenal, Emirates Stadium. Ajax kom í heimsókn og hafði með sér stjörnur á borð við Edgar Davids, Ronnie De Boer, Frank Rijkard, Marco van Basten, og meira að segja Johan Cruijff skellti sér í skóna og hlunkaðist um völlinn. Meðal Arsenal mátti finna gömul átrúnaðargoð eins og Emanuel Petit hinn franska, Ray Parlour og Ian Wright. David Seaman tók sér líka stöðu á milli stanganna.
Fótboltinn var svo ekkert í líkingu við þann bolta sem er spilaður í dag, en Van Basten átti fína takta sem og Henry og Davids (sem uppskar reyndar alltaf baul þegar hann fékk boltann).
Sá sem sást hvað minnst í leiknum og klúðraði efnilegustum færum var reyndar Dennis sjálfur Bergkamp.

21.7.06

Ég tala við sjálfan mig

Ég geri mér ekki alltaf grein fyrir því hvort ég hafi sagt eitthvað sem ég hugsaði upphátt, eða bara látið það vera í höfðinu á mér.
Svo ég skil ekki alltaf þegar fólk starir á mig (þegar ég hef sagt eitthvað upphátt) eða þegar fólk fattar ekki hvað ég er að tala um (þegar ég hef gleymt að færa hugsanirnar í orð).

Sumarkvöldin fjögur

Þá sem ég hafði boðað til næntísgrillveislu einhverntímann þetta sumarið verð ég að hryggja með þeirri staðreynd að hún verður líklega ekki haldin. Ástæðan er einfaldlega sú að góða veðrið og vaktirnar mínar virðast ekki ætla að fara sérlega vel saman.
Illugi Gunnars náði að draga þetta sumar sem hrjáir okkur ágætlega saman í Íslandi í dag þegar hann vitnaði í afbjögun á Hlíðarendakvæðinu: „Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur...“

Segir Hvalveiðiskáld:

„Hann drekkur of mikið, hann reykir of mikið, hann trúir of mikið, hann talar of mikið, hann er með hana á heilanum, hann vinnur of mikið, hann safnar bara skuldum – hann fremur of margar sjálfsmorðsárásir...
Haukur Már Helgason, Frjálsir andar veiða hval

20.7.06

Plága

Þegar ég var yngri og bjó á Siglufirði gerðu krakkarnir sér það stundum að leik að fleygja grjóti (eða öðru lauslegu) í mávana sem svifu yfir. Þá var mikið sport að hitta tilteknar mávategundir, veiðibjalla í uppáhaldi. Sjálfum, og komandi svona úr stórborginni, þótti mér þetta frekar grimmt athæfi. En tók svosum þátt í því. Ég þótti jafnvel hittinn.
Þetta sumarið hefur mig stundum langað til að rifja upp gamla takta

Misheyrnir:

Eyrun hans Magna: Sakna hans mjög mikið...

Ísland í dag... í gær

„Og svo er það þessi frábæra hljómsveit hér fyrir framan... aftan okkur. Við heyrum í henni strax... í lokin á þættinum.“
-Helgi Seljan, fréttamaður á NFS

19.7.06

Berdreyminn

Sumir draumar virðast allavega rætast.

Hámark sjálfhverfunnar

Prentmiðlar á Íslandi eru á hraðri leið til þess að verða Internetið útprentað: Samansafn af stuttum fréttaskeytum eins og þeim sem tíðkast á veffréttamiðlum (einskonar úrdrátt úr fréttinni), og sjálfhverfum bloggpistlum nýútskrifaðra menntskælinga.
Svo skiptast þeir á að hafa hvorn annan sem forsíðufréttir.

18.7.06

Skil ekki

Af hverju - ég verð eiginlega að endurtaka þetta með eins innilegri áherslu og mér er mögulegt: AF HVERJU!... sturtar fólk ekki niður þegar það hefur gert þær þarfir sem því hentar í klósettskálar hverju sinni? Af hverju? Gæti verið að það sé svona spennt yfir því að sjá hvað næsta manni finnist um þess hland? Er það að bíða eftir að verða vitni að einhverskonar efnahvörfum sem þess eigið hland gæti valdið í samstuði við hland eða skít þess næsta sem brúkar setuna?
Af hverju!?

Andvaka

Bráðum þarf ég samt að mæta aftur í vinnuna.

Mannsal

Dæmi um vönduð vinnubrögð Fréttablaðsins er að finna á síðu 34 í blaði dagsins (46 í þessari vefútgáfu). Þar er sagt frá væntanlegu sundi Benedikts S. Lafleur yfir Ermasund, sem, samkvæmt fyrirsögn, er synt gegn mannsali.

17.7.06

Melanoma

Það eru tvennskonar fyrirbæri sem ég tengi alltaf við sortuæxli í heila. Annars vegar er um að ræða brunalykt, því einhversstaðar heyrði ég eða las að fólk með heilaæxli fyndi brunalykt allsstaðar þrátt fyrir að engin rök væru fyrir slíkri lykt.
Hitt sem ég tengi alltaf við æxli í heila eru sítrónur. Sítrónur eru sú líking sem oftast er gripið til þegar lýsa á stórum sortuæxlum. Þannig að sítrónur minna mig á heilaæxli.

Og í hvert skipti sem ég finn brunalykt fer ég að hugsa um sítrónur.

En svona í alvöru talað...

...þá er ég að drepast úr helvítis harðsperrum! Er það kannski ekki hægt? Þarf maður nú að fara að deyja* eftir að hafa setið kyrr of lengi?

* [Deyja átti að sjálfsögðu að vera teygja. En í tilefni af freudísku mismælafærslunni hér á undan, og þeirri einföldu staðreynd að mér finnst þetta fyndið, ætla ég að leyfa þessu að standa svona með skýringu.]

Freudísk mismæli

„Ég er að drepast úr standpínum. ... Nei, fokk, ég meina harðsperrum!“

Vondir káputextar - DVD:

„George Clooney, Drew Barrymore og Sam Rockwell fara á kostum í bráðskemmtilegum spennutrylli sem óneitanlega vekur upp undarlega spurningu. Hvað myndi gerast ef vinsæll framleiðandi sjónvarpsþátta væri líka leigumorðingi á vegum CIA? Maðurinn sem er frægur fyrir alla vinsælustu sjónvarpsþætti Bandaríkjanna lifir líka í skuggaveröld þar sem hætta leynist við hvert skref. Það er vissulega bæði flókið og erfitt og því miður missir hann alla stjórn á báðum lífunum.“

Ég get svo svarið það þessi mynd vekur alls ekki upp nákvæmlega þessa spurningu hjá mér. Reyndar fjölmargar, en alls ekki þessa.

Veðrið

Það er ótrúlega fallegt veður akkúrat núna.

Meiriháttar rán

Ég er ekki sérfróður um svona mál, en er mögulegt að stela heilli ADSL tengingu bara sisona?

Sundurleiti maðurinn

Vin Diesel, já. Hann kann sko að svara fyrir sig! Og svo er hann svo hugrakkur.

Fögur er hlíðin

Nú er aldeilis rétti tíminn til að rísa upp á afturlappirnar, berja sér á brjóst og hrópa kröftuglega útí eilíbbðina: Ég er sko stoltur af því að vera úr Mosfellssveit!

15.7.06

Þegar ég er að vinna...

...er dagskrárstjórum sjónvarpsstöðvanna eiginlega skylt að vanda valið á sjónvarpsefni. Það sem er í gangi núna er til háborinnar skammar!

Svar við getraun

Þið verðið að vera duglegri en þetta. Þessi setning um hana Veróníku var úr Þjófnum eftir Göran Tunström. En enginn svaraði því réttu og enginn fær verðlaun. Sem voru reyndar ekkert í boði.
En ég neyðist líka til að hætta við þessa sumarleiki. Það hefur bara ekkert sumar komið svo enginn tekur þátt í leikjunum.

13.7.06

Samskipti

Björk sagði: „Ég set bara mynd af mér og er alltaf sæt. Og svo bara texti á tölvuskjá.“

Svali Dave

Ég er ekki frá því skotið af Lt. Horatio Caine þar sem hann fylgist með því útundan sér að glæpamaðurinn sem hann var að klófesta er fjarlægður, sé beinlínis það sama í hverjum einasta þætti. Þó breytast glæpamennirnir eftir þáttum. Það virðist bakgrunnurinn ekki gera, né heldur svipurinn á Svala Dave Caruso.

7.7.06

Sólskinsdagar

Fyrsti dagur í fríi kominn að kvöldi. Ég lykta eins og Aftersun.
Kunnuglegar kringumstæður allt saman.

Ég hef það!

Framtíð mín er ráðin. Ég hef tekið ákvörðun um þá framabraut sem ég hyggst æða eftir á leið minni á toppinn. Ég veit hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

Ég ætla að verða atvinnutímaflakkari.

6.7.06

Músík

Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að tónleikar á borð við þá sem Sigur Rós, hin íslenska, og kanadíska sveitin Godspeed! You Black Emperor færa fram eru orðnir svo miklu meira en einfaldir t ó n l e i k a r.

5.7.06

„Tori Spelling reið móður sinni“

Ég ét þetta upp úr kommentakerfum annarra. Argasti steliþjófur sem ég get verið. En finnst þetta djöfulli fyndið. Gaman að tungumálinu og þeim sem kunna ekki á það. Þeim sem fatta ekki orð og gildi orða og hvernig orð gilda mismunandi mikið.
Fyrirsagnir eru mikilvægar.

4.7.06

Í leit að uppsprettunni

Það þarf að fara að skrúfa fyrir vindinn og stífla þetta regn. Virkja það bara! Nýta orkuna í eitthvað gáfulegt.

Hægt og rótt í rigningu og roki

Það er kominn smá sumarfílingur í þetta. Hefur hægt á skrifum. Enda er maður orðinn hálf þunglyndur af þessu veðurfari. Rigning. Rigning. Rigning. Allt bara grátt og blautt og leiðindi.
En líklega er ástæðan sú að ég hef ekki fartölvuna mína. Stelst í vinnutölvu og aðrar tölvur sem liggja á lausu, en efast um að ég nenni því endalaust. En þá hægist bara ennþá meira á þessu.

3.7.06

Hvað ef...?

Mig langar í þessa bók. Velti því líka fyrir mér stundum hvort ég hefði átt að læra læknisfræði og mannfræði í stað þess að brölta þetta í heimspekideild.

2.7.06

Heimspeki og dagfarsprýði

Buxurnar mínar gleymdust í þvottavél í gær, það var ekki mér að kenna, það var fótbolti í sjónvarpinu og pabbi gleymdi að taka þær úr vélinni eins og hann hafði lofað. Það var ekki mér að kenna, nei, ég var í vinnu, að vinna við sem fæst, en þær gleymdust í þvottavélinni, og ég finn lyktina af því að þær hafi verið of lengi í þvottavélinni, og fæ að finna hana í allan dag og líklega lengur en það.
Um ljón segir í bók um stjörnuspeki: „Þau bera mikla virðingu fyrir auði og völdum.“ Aðeins örfáar manneskjur sjá sér fært að hlæja að þessu; við hlæjum til að taka ekki of mikið mark á ruglinu sem einkennir okkur, mannfólkið í dag, nútímamanninn, til að taka okkur ekki of alvarlega, því það er ekki hipp, ekki kúl, og maður þarf að læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum án þess að taka sig of alvarlega. En helvíti er samt gott að hlæja. Með eða að lífinu, gildir einu.

29.6.06

Ellefti september

Í nótt sýndi Stöð2Bíó myndina Homeland Security. Ekki sérlega áhugaverð, en vakti upp minningar frá ellefta september, 2001. Ég man hvar ég var. Þetta ku vera Kennedy okkar tíma. Þegar ég las svo Fréttablaðið í morgun var þar grein eftir einhvern fjölmiðlafræðing. Man ómögulega hvað hann heitir, en hann var að tala um árásina á tvídranga (eins og hann orðaði það). Hann setti meðal annars fram þessa slóð í greininni sinni. Ég var að klára að horfa á þessa mynd og mér finnst hún nokkuð merkileg.

28.6.06

Meira af mat

En hvað með að drekka mjólk með pylsum? Er það mjög ógeðslegt líka?

Það er bara þannig

Stundum finnst mér það alveg fyndið að heimurinn sé uppfullur af fólki sem telur sig hafa rétt fyrir sér og aðra rangt. Að ef það geti bara rökstutt það sem sagt er sé um að ræða óumdeilanlegan sannleik. Að orðaforði rökstuðnings þess sé ekki jafn gildishlaðinn og hver annar orðaforði.
En mér finnst það bara stundum fyndið. Ég verð mjög fljótt þreyttur og hætti að hlusta.

Rollerblades at night